Friday, February 16, 2007

Formali

ROSA LÚXEMBÚRG
ÚRVA LSRIT
UM BARATTU SOSíALISTA

Örn Ólafsson þýddi
1979


Efnisyfirlit:

Fyrri hluti
1. Aðferð Bernsteins
2. Aðlögun auðvaldskerfisins
3. Sosialisma komið á með félagslegum umbótum
4. Tollastefna og hernaðarstefna
5. Almenn einkenni endurskoðunarstefnunnar og beinar afleiðingar hennar Annar hluti
6. Efnahagsleg þróun og sósialisminn
7. Verkalýðsfélög, samvinnufélög og pólitiskt lýðræði
8. Valdatakan
9. Hrunið
10. Endurskoðun í kenningu og framkvæmd
Viðbætir: varnarsveitir og hernaðarstefna

Vandkvæði sósialista í Frakklandi
Formáli: Og í þriðja sinn um belgísku tilraunina
I. Inngangur
II. Ríkisstjórn til varnar lýðveldinu
III. Baráttuaðferð Jaurés og stefna Róttækra
IV. Félagslegar umbætur Millerands
V. Mál Millerands og flokkar sósialista
I. Félaga Vandervelde svarað
II. Allsherjarverkfall
Skipulagsmál rússneskra sósialista
I
II
4. Fjöldaverkföll, flokkur og verkalýðsfélög
Röð og regla ríkja í Berlín


INNGANGUR1 .

1. Þau rit sem hér birtast í fyrsta sinni á íslensku voru samin í Þýskalandi á árunum 1899 1919. Hvað geta þau varðað Íslendinga, öld síðar ? Svo furðulegt sem það má virðast, á flest í þessum ritum vel við um aðstæður á Íslandi nú, er góð greining á þeim. Astæðan er sú, að stjórnmálahugsuðurinn mikli, sem hér birtist, greindi samtíð sina mjög djúpt. Og einsog kemur fram í innganginum hér á eftir og þó miklu fremur í ritunum sjálfum búa Vesturlandamenn enn að verulegu leyti við svipaðar aðstæður og um aldamótin 1900. Þessi rit eru miklu merkari greining á samtíð okkar en margt það sem nú er um hana skrifað og athygli vekur. Vissulega eru her líka ítarlegar greiningar á löngu liðnu ástandi í fjarlægum löndum. En nánar að gáð, þá eru þær síður en svo óviðkomandi íslenskum lesendum. Því einmitt þessi nákvæma greining á tímabundnum og staðbundnum aðstæðum mætti sífellt vekja lesendum spurninguna: Hvernig er þetta nú hér? Hér verður ekki gerð grein fyrir stjórnmálakenningum Rósu Luxemburg, aðeins tæpt á helstu atriðum, því hugmyndir sínar kynnir hún best sjálf.

2. Æviatriði.
Rósa Lúxembúrg fæddist 5. mars 1871 í borginni Zamosz í suðausturverðu Póllandi. Foreldrar hennar voru gyðingar í millistétt. A þessum tíma var samfélag gyðinga mikið og merkilegt í Póllandi. En Lúxembúrgfjölskyldan hafði löngu aðlagast kristnu umhverfi sínu. Þetta var tiltölulega efnað fólk, vel að sér í menningarmálum, pólskum og þýskum, en einangrað.
Það hefur löngum vakið furðu að kona frá afskekktum smábæ skyldi verða einn fremsti stjórnmálahugsuður 20. aldar, ekki var staða kvenna almennt svo glæsileg í lok 19. aldar. Sé lítillega hugað að umhverfi hennar, þá er fyrst að nefna að á þessum tíma var Póllandi skipt milli Þýskalands, Austurríkis og pólsks smáríkis. Efnahagslegur uppgangur var meiri í þýska hlutanum en hinum rússneska, hinsvegar meiri í rússneska Póllandi, þar sem Rósa Luxembúrg ólst upp, en var í rússneska ríkinu at öðru leyti. Að sama skapi efldist þar verkalýðsstétt og verkalýðsbarátta. Ófrelsi mikið ríkti í Rússlandi frá fornu fari, en þegar Alexander II. Rússakeisari var myrtur, 1881, harðnaði kúgunin til mikilla muna. Þetta morð þykir annars einkennandi fyrir rússnesk andstöðuöfl þessara tíma, þau treystu einkum á hermdarverk einstaklinga. En í Póllandi reyndu andstöðuöflin að skapa fjöldahreyfingu. Það tókst nú ekki að sinni, en töluverð verkföll gátu þau skipulagt í apríl 1883, þ.á m. fjöldverkfall á Varsjársvæðinu. Stjórnvöld beittu hernum gegn þeim, og með miklum ofsóknum tókst þeim að mola andstöðuhreyfinguna á nærstu tveimur árum.
Þegar þessi hreyfing var uppá sitt besta, átti hún einkum ítök meðal menntamanna í borgum, en sérstaklega þó meðal nema í háskólum og menntaskólum. Í þeim hópi var Rósa Lúxembúrg, hún var virk í þessu stjórnmálastarfi frá sextán ára aldri. 1888-9 kom aftur til verkfalla, sem var svarað með nýjum lögregluofsóknum. 1889 varð Lúxembúrg at flýja, henni var smyglað yfir þýsku landamærin undir heyhlassi. Hún fór nú til Sviss, 18 ára gömul. Það má hafa ráðið vali hennar að svissneskir háskólar hleyptu konum að, jafngreiðlega sem körlum, og í Sviss dvöldust þá frægustu marxistar þessara tíma. Rósa Lúxembúrg stundaði nám við háskólann í Zurich, 1889-1897, í heimspeki, stærðfræði, náttúrufræði og lögum, en doktorsrit: hennar var á sviði hagfræði, það fjallaði um iðnþróun Póllands. Það var fræðilegur rökstuðningur fyrir stjórnmálaskoðun sem hún fylgdi alla tíð, en það var andstaða við sjálfstæði Póllands. Þetta klauf hana og fáeina félaga hennar frá Sósíalistaflokki Póllands, sem stofnaður var í þýska hlutanum 1890. Meðal þessara félaga Lúxembúrg var Leo Jogiches, en hún tók saman við hann nítján ára gömul, og það samband stóð í sautján ár, en mjög náin stjórnmálasamvinna til dauðadags, þrettán árum síðar. Þessi fámenni minnihlutahópur pólskra sósíalista stofnaði sérstakan flokk, sem smámsaman náði töluverðum áhrifum, m. a. í rússnesku byltingunni 1905-6. Jogiches var helsti skipuleggjandi flokksstarfsins, en Luxembúrg var pólitískur leiðtogi flokksins. Hún lét og stundum til sín taka í rússneska sósíalistaflokkinum, og var mjög áberandi í hinum þýska. Þing Alþjóðasambands sósíalista sótti hún fyrst 1893, og vakti þegar athygli, einsog jafnan síðan.
1898 fluttist Lúxembúrg til Berlínar. Áður hafði hún gifst Þjóðverja, Gustav Wied, til að fá aðsetursleyfi. Brúðguminn var sonur vinkonu hennar, og þau kvöddust fyrir fullt og allt á ráðhúsströppunum, þegar eftir giftinguna. Í Þýskalandi bjó Lúxembúrg jafnan síðan. Hún lifði af ýmiskonar störfum fyrir sósíalistaflokkinn þýska, var ritstjóri sósíalistablaða, erindreki, fór mikið um og hélt ræður, en fékkst einkum við ritstörf. Þýski flokkurinn efldist stöðugt, og eftir að flokksskóli var stofnaður, 1906, kenndi hún við hann, einkum hagfræði. Hún var vel látinn kennari og líkaði starfið vel. Hvað eftir annað varð hún at þola fangelsi fyrir ummæli sín ýmis, lengst frá miðju ári 1916 til stríðsloka, rúmum tveimur árum síðar. Fangelsisbréf hennar eru fræg sem merkilegar ritsmíðar.

3. Ritstörf

Frægust var Lúxemburg og er fyrir rit sín. Þau eru mikil að vöxtum. Nær 50 bækur og bæklingar, hálft sjötta hundrað greina, 80 ræður og á annað þúsund bréfa er talið í ritskrá hennar á aldarfjórðungs skeiði. Að tiltölu er tæpur helmingur bæklinga og fjórðungur greina saminn á pólsku, auk þess eitthvað á rússnesku. Hitt var allt samið á þýsku, og tekur yfir sex þykk bindi. Ekki veit ég hvort pólsku ritin og rússnesku hafa verið gefin út i heild, né hve mikið af þeim hefur verið þýtt á vesturlandamál. Skv. ævisöguritara hennar, Nettl, eru þau þó síst ómerkari en hin þýsku, sem mun meira hefur borið á. Mest ber á stuttum blaðagreinum og ræðum. Þar koma sömu málefnin upp aftur og aftur, svo sem eðlilegt er i áróðursstarfi, pólitískri baráttu. En svo eru bæklingar og greinaflokkar, þarsem málin eru tekin ítarlega fyrir frá ýmsum hliðum. Nokkrir hinna kunnustu eru þýddir hér. Flest virðast rit Lúxembúrg ætluð almenningi, ekki gert ráð fyrir sérfræðiþekkingu, og hvað alla þessa drætti varðar, er hún mjög svipaður rithöfundur og t.d. jafnaldri hennar, Lenín. Að honum alveg ólöstuðum sýnist mér þó Lúxembúrg ólíkt aðgengilegri nútímalesendum. Hún hefur víðan sjóndeildarhring, er þó nákvæm þegar þess þarf, meinhæðin, skrifar ljóst og fjörlega. Þessi rit eru um pólitík, bæði almennt, og einnig mikið um baráttuaðferðir sósíalista. Hagfræðirit hennar eru og fræg. Auk fyrrnefnds doktorsrits er þar einkum að nefna Upphleðslu auðmagnsins (Die Akkumulation des Kapitals, 1913), svar við gagnrýni á það rit (Antikritik, birtist 1921), og Inngangur að þjóðhagfræði (Einführung in die Nationalökonomie, byggt á skólafyrirlestrum hennar, birtist 1925). Hér verður ekki fjallað um þessi rit, aðeins vikið að helstu stjórnmálaritum.
Það er eins með Lúxembúrg og aðra marxíska höfunda, að hún setti ekki fram samfellt kenningakerfi í neinu sérstöku riti. Hugmyndir hennar birtast á víð og dreif, eftir því sem hún þurfti að taka afstöðu til hlutanna. Antonio Gramsci hefur einhversstaðar sagt að marxisminn geti ekki komið fram öðruvísi en þannig í deiluritum það leiði af grundvallarandstöðu hans við ríkjandi þjóðfélag og menningu. Ekki veit ég aðra undantekningu frá þessari reglu en sagnritun (t.d. Marx um Frakkland, 18.brumaire o.fl., og Trotskí um rússnesku byltingarnar, 1905 og 1917).
Áratugum saman hefur Rósa Lúxembúrg verið lýsandi fordæmi í kvennabaráttunni, sönnun þess meðal annarra, að konur gætu náð jafnlangt og hinir fremstu karlar, fengju hæfileikar þeirra bara að njóta sín. Því er ástæða tilað nefna, að hún skrifaði sáralítið um kvennabaráttu sérstaklega. Hún taldi réttindabaráttu öreigakvenna nauðsynlegan þátt í baráttunni fyrir sósialisma, en jafnrétti kynjanna næðist ekki fyrren með honum.

Orðið endurskoðunarstefna heyrist nú ekki lengur nema sem skammaryrði, en auðvitað var það jákvætt fyrst. Því hver samþykkir ekki að endurskoða beri kenningar í ljósi reynslunnar? En orðið hefur afmarkaðri merkingu, það var haft um þær kenningar sem Edouard Bernstein leiddi af starfi þýska sósíalistaflokksins undir síðustu aldamót. En þær viku í veigamiklum atriðum frá kenningum Marx og Engels. Svo farið sé fljótt yfir sögu, héldu þeir Marx og Engels því fram, að söguleg þróun yrði við átök innri andstæðna kerfisins á hverju skeiði. Þannig hefði auðvaldskerfið vaxið framúr lénskerfinu, en tortímt því með skyndilegum kollsteypum í lykillöndum, í Englandi á 17. öld og í Frakklandi i lok 18. aldar. Þeir félagar sögðu að auðvaldskerfið byggi einnig yfir mótsögnum sem ekki yrðu leystar innan þess, heldur mögnuðust stöðugt. Þegar t. d. einhver framleiðslugrein skilar gróða, er fjárfest í henni stjórnlaust og umfram þarfir. Því dynur á viðskiptakreppa, afurðirnar ganga ekki út, framleiðslutækin liggja ónotuð, verkafólk gengur atvinnulaust og líður skort – vegna ofgnóttar á vörum! Samkeppnin leiðir og til þess að stórframleiðsla sigrast á smáiðju, iðjuhöldar neyðast til sem mestrar hagkvæmni, þeir verða að slá sér saman og verkaskiptingin verður æ fullkomnari. Framleiðsluferlið verður því félagslegra, sem kallað er, en beinist þó ekki að því að fullnægja þörfum almennings, heldur að því að framleiða sem mestan einkagróða handa tiltölulega fámennum hópi eigenda framleiðslutækjanna. Því skerpast pólar samfélagsins, æ fleiri eru vinna að því að framleiða þennan gróða, þeir eru þá arðrændir, eða öreigar öðru nafni (eiga ekki atvinnutæki, lifa af því einu at selja vinnuafl sitt). Þegar þeir átta sig á því, snúast þeir gegn kerfinu og steypa því loks með byltingu, koma á sósialisma, sem þróast til stéttlauss þjóðfélags. Um allt þetta má fræðast nánar í úrvalsritum Marx og Engels, sérstaklega má benda á smáritin :Laun, verð og gróði og Launavinna og auðmagn. Þau ættu að nægja sem undirstaða til að skilja rit Lúxembúrg; Félagslegar umbætur eða bylting.
Gegn þessu benti Bernstein á að alvarlegar viðskiptakreppur hefðu ekki komið í tuttugu ár, og að kerfið stefndi hreint ekki á hrun, þvert á móti væri ör uppbygging á flestum sviðum. Þetta mælir í sjálfu sér á engan hátt gegn greiningum Marx og Engels, einsog Lúxembúrg benti á. En Bernstein dró þá ályktun at auðvaldskerfið myndi ekki hrynja og þessvegna bæri að breyta því í sósíalisma með hægfara umbótum. Til þess bæri að efla verkalýðsfélög og samvinnufélög tilað ná æ meiri völdum í efnahagslífinu, sósíalistar ættu að stefna að þingmeirihluta í kosningum, en ekki á byltingu. Þegar sósíalistar næðu nógu miklum tökum á þinginu, gætu þeir sett lög sem þrengdu æ meir að auðherrunum, sviptu þá smámsaman völdum yfir fyrirtækjum sínum. Lagasetning um félagslegar umbætur ætti og smámsaman at koma á jöfnuði og öryggi almennings .
Lesendum hljóta at vera þessar hugmyndir vel kunnar, svo lengi hafa þær drottnað í málflutningi þeirra, sem nú telja sig sósíalista á Íslandi. Þær hafa verið leiðarljós flokka sósíaldemókrata síðan í fyrri heimsstyrjöld. Enn birtist ný útgáfa þessara kenninga á íslensku haustið 1979 í dönsku metsölubókinni Uppreisn miðjunnar (Oprør fra midten). En það varð fyrsta frægðarverk Rósu Lúxembúrg að tæta þessar kenningar í sundur. Það var 1898, er hún gaf út bæklinginn: Félagslegar umbætur eða bylting (Sozialreform oder Revolution, fyrsti hlutinn birtist fyrst sem greinaflokkur í tímariti, síðasti hlutinn líka). Þar sýnir hún framá að allar þessar stofnanir, sem áttu að þrengja að auðvaldskerfinu séu hluti þess eða mótaðar af því (um verkalýðsfélög og samvinnufélög fjallar hún í 3. og 7. k.). Einnig sýnir hún framá að þróun auðvaldskerfisins slævi ekki andstæður þess, einsog Bernstein taldi, heldur magni þær þvert á móti (2,k.).
En hversu oft sem þessar hugmyndir Endurskoðunar eru tættar sundur, rísa þær jafnharðan upp aftur í nýju gervi eða gömlu. Í grundvallaratriðum búum við enn við sömu samfélagsgerð og á 19. öld. Endurskoðunarstefnan er tilraun til að sætta í hugum manna þær æpandi andstæður, ranglæti og heimsku, sem blasa við í samfélaginu.
Séu menn einu sinni komnir á þá skoðun að þetta kerfi megi umskapa smámsaman, m.a. með lagasetningu, þá er næsta skref að þeir taki þátt í stjórn þess.
En um aldamótin var það flestum augljós fjarstæða að sósíalistar, yfirlýstir fjandmenn ríkjandi þjóðskipulags, sætu í stjórn auðvaldsríkis, sem ekkert væri þó annað en kúgunartæki ríkjandi stéttar. Það vakti því feikilegt uppistand þegar franski sósíalistinn Millerand tók sæti í ríkisstjórn Róttæka flokksins í Frakklandi á miðju ári 1899. Um það fjallaði Lúxembúrg í greinaflokki sínum: Vandkvæði sósíalista í Frakklandi (Die sozialistische Krise in Frankreich, 1900-1901). Þá sem nú voru nokkurnveginn sömu rökin færð fyrir þátttöku minnihlutaflokks sósíalista í borgaralegri samsteypustjórn. Það var til að fyrirbyggja annað verra, t. a. m. valdrán hersins, til að koma á félagslegum umbótum og verja ávinninga verkalýðsstéttarinnar, stjórnarþátttakan væri eðlilegt framhald af þingsetu sósíalista og starfi í bæjarstjórnum, o. s.frv. En Lúxembúrg sýndi fram á að þarna væri eðlismunur á, þingið væri baráttuvettvangur, en ríkisstjórn framkvæmdaaðilji, sem hlyti að fylgja samræmdri stefnu. Svigrúm fyrir félagslegar umbætur í auðvaldsþjóðfélagi takmarkist af nauðsyninni á að endurnýja vinnuaflið og af baráttuþreki verkalýðsstéttarinnar. En einmitt þetta baráttuþrek lami stjórnarþátttakan, og þá stóraukist hættan á valdráni því sósíalistar leiðist tilað réttlæta málamiðlanir sínar, þ. e. árásir ríkjandi stéttar á verkalýðinn. M. ö. o. , stjórnarþátttaka þeirra verði til að réttlæta auðvaldskerfið, en stjórnarandstaða sé eina leiðin tilað afhjúpa það kerfi fyrir verkalýðsstéttinni, virkja hana í baráttu gegn því og knýja þannig fram beinar, hagnýtar umbætur.
Meginatriði þessa máls um baráttuaðferðir innan þings og utan, löghelgaðar og aðrar, dregur Lúxembúrg svo saman í greinaflokkinum: Og þriðja sinn um belgísku tilraunina (Und zum dritten Male das belgische Experiment, 1901). Gildi þessara þriggja rita er mikið, en einkum neikvætt, þ.e. þau rífa niður ranghugrnyndir. Með þeim varð Lúxembúrg einn kunnasti leiðtogi vinstraarms þýska sósíalistaflokksins og raunar Alþjóðasambands sósíalista. Þar áttu þau Lenín samleið, þótt þau væru ósammála um ýmis mikilvæg atriði, einsog kemur fram hér á eftir. Hann var þá lítt kunnur.
Þorri sósíalistaflokksins tók afstöðu með Lúxembúrg gegn hægra armi endurskoðunarsinna, þ. á m, öll flokksstjórnin, "miðjan". Luxembúrg þótti þó æ meir sem hún gerði það af vanafestu, íhaldsemi, en ekki af byltingarhugsjón. Uppúr 1910 lenti hún því í miklum ritdeilum við Karl Kautsky, fræðilegan talsmann þessarar miðju (þar má einkum nefna rit hennar: Was weiter, Zeit der Aussaat, Ermattung oder Kampf, Erwiderung, öll frá 1910; Das Offiziösentum der Theorie, 1913). Þau eru afhjúpun á því hvernig flokkurinn sneiði hjá byltingarbaráttu, og á fánýtri réttlætingu Kautskys á því.
Upphaf fyrri heimstyrjaldar, 4. ágúst 1914, hefur verið kallað syndafallið í sögu sósíalismans. Þá kom á daginn, að þótt flestir sósíalistaflokkar hefðu hafnað endurskoðunarstefnunni opinberlega, var hún í rauninni drottnandi í þeim, því nú greiddu flestir þingmenn sósíalista styrjaldarlanda atkvæði með stríðsfjárveitingum.
Gegn þessari samstöðu sósíalista með borgarastétt eigin lands í heimsvaldastefnu skrifaði Lúxembúrg eitt frægasta rit sitt, Júníusbæklinginn, sem svo var kallaður eftir dulnefni höfundar (Junius: Die Krise der Sozialdemokratie ... Zürich 1916). Það er kerfisbundin afhjúpun þess hvílík blekking það væri að sósíalistar væru að verja eigið land, berjast gegn afturhaldinu, taka skárri kostinn o.þ.u.l. Einnig lagði hún línurnar um framtíðarstarf sósíalista. Lenín gagnrýndi þetta rit fyrir að gera ekki nóga grein fyrir orsökum endurskoðunarstefnunnar, og hversu djúptæk hún væri (L. Collected works, 22. bls. 305-19). Gegn þessum svikum hægrisósíalista beindust flest skrif Lúxembúrg 3-4 síðustu æviárin. Það voru stuttar greinar sem birtust í blöðum vinstrisósíalista, ólöglega framanaf (Spartakusbréf). Síðasta ritið hér er gott dæmi um þær greinar.
Um rússnesku byltinguna 1905 fjallar Lúxembúrg í bæklingi sínum: Fjöldaverkföll, flokkur og verkalýðsfélög (Massenstreik, Partei und Gewerkschaften, 1906). Einsog nafnið bendir til, fjallar hún þar um hvernig byltingin gangi fyrir sig, um hlutverk flokks, verkalýðsfélaga og sjálfsprottinna aðgerða alþýðu í henni, hvernig kjarabarátta tvinnast saman við stjórnmálabaráttu og alþýðan virkjast til sjálfskipulagningar. Ekki veit eg merkilegra rit um þetta efni. Trotskí skrifaði líka merkilega bók um þessa byltingu (hún heitir 1905 (í Penguinútgáfu)). En þar er allólíkt tekið á málum. Rit Lúxembúrg hefur verið gagnrýnt af Georg Lukács (Geschichte und Klassenbewusstsein, Luchterhand 1968, bls. 442-3) fyrir að þar komi ekki fram varanleiki andstæðna innan verkalýðsstéttarinnar. Annars ber hann mikið lof á Lúxembúrg, og þetta rit sérstaklega. Það gerir Antonio Gramsci líka (Selections from Prison Notebooks, Lawrence & Wishart 1971, bls. 233), en gagnrýnir það fyrir að gera of lítið úr meðvituðum, skipulegum aðgerðum i byltingunni, en það leiði til nokkurskonar efnahagslegrar nauðhyggju: "aðstæður" skipuleggi verkalýðsstéttina með leifturhraða.
Frægar eru ritdeilur Lúxembúrg og Leníns, og birtist hér eitt slíkt rit hennar: Skipulagsmál rússneskra sósialista (Organisationsfragen der russischen Sozialdemokratie, 1904). Þessi grein Lúxembúrg er skrifuð gegn kenningum Leníns um flokksskipulag, nánar tiltekið gegn bók hans: Eitt skref áfram, tvö afturábak, sem fjallar um þing rússneskra sósialista í London 1903, en þar varð upphaf flokka bolsévíka og mensevika. Lenín svaraði með stuttri grein: Eitt skref áfram, tvö afturábak, svar til R. L. Þar sakar hann Lúxembúrg um misskilning, rangtúlkun og almennt tal, sem snerti ekki viðfangsefnið. Mér sýnist af lestri þessara rita að Lenín hafi þarna á réttu að standa, gegn kenningum hans um gerð sósíalistaflokks sé þessi grein Lúxembúrg hreint vindhögg. Samt fannst mér rétt að birta hana af tveimur ástæðum.
Í greininni er margt merkilegt um endurskoðun og hún er því æskileg til uppfyllingar öðrum ritum í þessari bók.
Ýmsir hafa talið flokksgerð Leníns eina helstu ástæðu útkynjunar Sovétríkjanna, en Lúxembúrg hafi bent á hina réttu leið. Því er ástæða til að bera þetta saman, svo ég get helstu andmæla Leníns í athugasemdum.
Kenningum Lenníns um flokksgerð er helst að kynnast á íslensku í riti hans Hvað ber að gera (MM 1970). Þau tvö rit hans sem hér um ræðir hafa hinsvegar ekki birst á íslensku. Sú útgáfa þeirra, sem flestir munu eiga aðgang að á Íslandi er heildarútgafa verka hans á ensku: Collected works (7. bindi. Hið fyrra á bls. 201-423, en svar við þessari grein Lúxembúrg er á bls. 472-83).
Annað mjög frægt deilurit Lúxembúrg gegn bolsévíkum er: Rússneska byltingin. Gagnrýnin athugun (Die russische Revolution. Eine kritische Wurdigung) skrifað 1918 en birt 1922). Þar deilir hún á Lenín og Trotskí fyrir að afnema stjórnlagaþingið og fyrir hömlur á málfrelsi, fyrir að stórjörðum skyldi skipt upp i kot og fyrir undanlátsemi við (smáborgaralegar) kröfur um sjálfsákvörðunarrétt minnihlutaþjóða i rússneska rikinu. Ýmsir hafa lagt áherslu á að Lúxembúrg hafi skrifað þetta rit af vanþekkingu, einangruð i fangelsi, enda hafi hún ekki birt það sjálf (m. a. Lukács, tilv. rit, bls. 422-451). Lenín (Notes of a Publicist, CW 33, bls. 210) taldi hana hafa nálgast bolsévíka í fyrstnefndu atriðunum, sbr. og G. Badia, Bestimmung,bls. 203-7). Hinsvegar er vandséð hvenær hún hefði getað gengið frá þessu riti til birtingar á því viðburðaríka hálfa ári sem hún átti ólifað, og víst er að þessi viðhorf hafði hún mjög lengi haft. Öðrum þykir öll þessi gagnrýni hennar á bolsévíka mjög spámannleg, þarna hafi hún bent á þau grundvallarmein, sem síðan riðu byltingunni á slig. Enski sagnfræðingurinn E. H. Carr hefur skrifað geysimikla sögu rússnesku byltingarinnar. Þar leiðir hann rök að því, að það hafi verið veigamikill þáttur í sigri bolsévíka í borgarastyrjöldinni 1918-20, að þeir framfylgdu uppskiptingu jarðnæðis og sjálfsákvörðunarrétti minnihlutaþjóða (Carr: The bolchevik revolution I, bls.262-5. Pelican books, London 1966 o.s. Merkasta rit Leníns gegn Lúxembúrg um sjálfsákvörðunarrétt þjóða er frá 1916 (CW 22, bls, 320- 60, The discussion on self-determination summed up).
Ýmsir hafa sagt,að undir forystu Lúxembúrg hafi flokkur hennar (SDKPiL) lotið harðari miðstjórn en bolsévíkaflokkurinn (t.d. Knief: R.L.vivante, bls. 8). En eins og Agnoli segir (Bestimmung, bls.275): Það skiptir okkur minnstu hvaða kenning reyndist réttust við löngu liðnar aðstæður. Spurningin er, hvað er mest vekjandi við aðstæður okkar núna, og hversvegna.
Lúxembúrg hafði vissulega sín sérkenni, einsog aðrir marxískir höfundar, bæði hvað varðar viðfangsefni og viðhorf. En eg get ómögulega séð að þau séu meginatriði í ritum hennar. Rauði þráðurinn í þeim er marxísk byltingarstefna, sem hún beitti á þær aðstæður sem hún þurfti að glíma við. M. ö.o., ég get ómögulega séð að til sé neinn sérstakur "Lúxembúrgismi", sem aðgreinist frá marxismanum. Raunar álít ég hið sama um "Trotskisma" og "maóisma" – fram að 1969 í síðara tilvikinu.
Bæði í Fjöldaverkfall..., en einkum þó i síðasta ritinu, Röð og regla ríkja í Berlín (Die Ordnung herrscht in Berlin, 1919), fjallar Lúxembúrg um sigur og ósigur í baráttu verkalýðsstéttarinnar. Byltingin verði ekki gerð í einni atrennu, fyrstu tilraununum hljóti að lykta með ósigri. En einmitt af þessum misheppnuðu tilraunum læri verkalýðsstéttin, skipuleggist og eflist til lokasigurs. Ósigur sé nauðsynleg forsenda sigurs. Þetta varð síðasta rit Lúxembúrg. Daginn eftir að það birtist var hún handtekin og myrt af sveitum ríkisstjórnar - sósíaldemókrata. Eini þingmaður vinstrisósíalista, Karl Liebknecht, fór sömu för, en Leo Jogiches svo einnig, 10. mars. Þessi grein sýnir slíka sigurvissu í ósigrinum, að hún er hin bestu eftirmæli um Rósu Lúxembúrg sjálfa.

4. VIÐTÖKUR
Lúxembúrg var mjög áberandi og áhrifamikill rithöfundur meðan hún lifði. Ævisöguritari hennar telur að engin rit hafi snúið jafnmörgum til marxisma og hennar – á þeim tímum (Nettl: inngangur). En skjótt eftir dauða hennar var þeim varpað fyrir róða, og má segja að þau hafi legið flestum gleymd í fjörutíu ár. Ekki af því að ritin vörðuðu ekki fólk á þeim tímum, heldur kom annað til að minni hyggju. Heimshreyfing sósialista klofnaði í fyrri heimstyrjöld. Kratar höfðu auðvitað ekki áhuga á að birta afhjúpanir Lúxembúrg á borgaralegri stefnu þeirra. Heimshreyfing kommúnista hóf hana á stall sem píslarvott í baráttunni, en gat hinsvegar ekki fyrirgefið henni margra ára grundvallarandstöðu við Lenín , né áherslu hennar á sjálfsprottnar byltingaraðgerðir alþýðu gagnvart fylgispekt við flokksforystu byltingarsinna. Lenín vildi láta gera heildarútgáfu verka hennar, tilað ala upp kommúnista (CW 33, bls. 210), en reyndin varð sú, at menn töluðu fjálglega um persónuna, en lásu ekki ritin Goðsögnin huldi hugsuðinn. Það var ekki fyrr en byltingarólgan um 1966-9 leitaði valkosta við Stalín, að menn minntust Lúxembúrg, Trotskís og Gramscis. Síðan hafa rit þeirra allra breiðst mikið út, og umræður um þau vaxið að sama skapi. Sami áhugi hefur raunar beinst að ritum Marx, Engels, Lenín s og Maos, fyrir nú utan seinni höfunda, þetta er mjög fjölbreytileg leit

5. UM ÞESSA UTGÁFU
Hvernig á at velja í stutta bók úr aldarfjórðungs skrifum sívirks og víðfeðms höfundar? Úr verkum ljóðskálds er oft tekið sitt lítið af hverju, en það væri yfirborðsleg og því fráleit kynning á stjórnmálahugsuði. Því er þessi bók takmörkuð við eitt svið rita hennar: baráttuaðferðir sósialista í auðvaldsþjóðfélagi. Vonandi eru hér saman komin merkustu rit hennar um það efni, bæði ádeila á hinar þrálátu ranghugmyndir um átakalitla umbyltingu þjóðfélagsins og greining á eðlilegum framgangi byltingarinnar. En hitt ætti líka að hafa komið fram, at það þarf a. m. k. tvö bindi jafnstór þessu til að íslenskir lesendur fái nokkurnveginn fullnægjandi mynd af Rósu Lúxembúrg.
Þessi rit eru, einsog áður segir, á einkar aðgengilegu máli. En til að koma aðgengilegri þýsku yfir á aðgengilega íslensku þarf oft að umbylta málsgreinum. Þessi bók er að því skapi slæm heimild um stíl Lúxembúrg, en að öðru leyti var auðvitað lagt kapp á nákvæmni. Tvennt verður sérstaklega að nefna. Orðið Sozialdemokratie þýði ég: sósíalistar, því merking orðsins sósíaldemókratar hefur breyst svo mjög at villandi væri at nota það. Wissenschaftlicher sozialismus þýði ég: fræðilegur sósialismi, því Íslendingar gera greinarmun á fræðum og vísindum, sem ekki er gerður i daglegu máli þýsku (né heldur ensku, frönsku, o. s. frv.).
Ekki var hægt að gefa skýringar á öllum þeim mönnum, málefnum og atburðum, sem Lúxembúrg talaði um sem alkunn um aldamótin 1900, og eru það ekki lengur. Hið mikilvægasta er skýrt í neðanmálsgreinum, stundum ætti leitarforrit (ctrl F) að duga til að tína saman dreifðar upplýsingar. Ella er bara að fletta upp í alfræðiritum eða sögu þessara tíma. Sérstaklega má benda á kilju Jóhanns Páls Árnasonar: Þættir úr sögu sósíalismans (MM 1970).
Neðanmálsgreinar eru teknar eftir ritsafni Rósu, Gesammelte werke, nema þær séu merktar höfundi (RL) eða þýðanda. Þýðingin er og gerð eftir þeirri útgáfu. Farið er eftir seinni gerð ritanna Félagslegar umbætur... og Fjöldaverkfall.. . en í athugasemdum eru þeir kaflar 1. gerðar, sem sleppt var i 2. gerð. Bæði er það vegna þess hve 1. gerð Félagslegra umbóta er mikið á flugi, og víða í hana vitnað, og vegna þess hve merkileg þróun textans er. Það rit ber uppruna síns merki í því, að hver hluti var sér um kaflatal. En ég setti samfellt kaflatal á allt ritið tilað auðvelda tilvísanir.

6. FREKARI LESNING

Aðalútgáfa rita Rosu Lúxembúrg er
1. Rosa Luxemburg: Gesammelte werke I-V, Dietz Verlag, Berlin 1970-75. Raunar eru þetta sex bindi, því fyrstu tvo eru merkt I1 og I2. Þetta virðist mjög vönduð útgáfa, en gallinn er sá, að hér eru einkum þau rit sem Lúxembúrg frumsamdi á þýsku, fátt eitt er tekið af ritum sem hún samdi á pólsku og rússnesku. Þessi útgáfa er til á Landsbókasafni. Til uppfyllingar eru þá sum rit hennar þýdd úr pólsku:
2. Rosa Luxemburg: Internationalismus und Klassenkampf. Die polnischen Schriften. Neuwied, Berlin 1971. Hér munu vera merkustu rit hennar um þjóðernismál. Auk þess eru ýmis úrvöl á þýsku, en pólsk útgáfa rita hennar er:
3. Rosa Luxemburg: Wybor pism I-II, Varsjá 1959.
Tvær enskar þýðingar ýmissa rita hennar hefi ég haft til hliðsjónar við þessa þýðingu:
4. Rosa Luxemburg speaks. Pathfinder 1970.
5. Rosa Luxemburg: Selected political writings. M.R. Press, New York 1971.
Í báðum þessum útgáfum eru ýmis merk rit, sem hér eru ekki. Þar eru söfn þýðinga ýmissa manna. Því miður reyndust þær víða svo ónákvæmar, að beinlínis er villandi. Að sama skapi var góð reynsla af litlu úrvali á sænsku:
6. Rosa Luxemburg: Jag var, jag är, jag blir. Uddevalla 1966. Til á Landsbókasafni.

Helsta rit um ævi Lúxembúrg og störf (og aðalheimild þessa formála) er:
7. J.P. Nettl: Rosa Luxemburg. I-II, Oxford University Press, 1966.
Þetta rit er um 1000 bls. , geysifróðlegt, og raunar ómissandi þeim sem vilja kynna ser efnið (pólsk stjórnmálabarátta, ritskrár, fyrir nú utan annað. En gallar ritsins eru ekki tilkomuminni en kostirnir. Sum helstu rit Lúxembúrg afgreiðir Nettl röksemdalaust með sleggjudómum, t.d. hefur hann ekki annað að segja um Vandkvæði sósíalista... en að ritið sýni furðulegt þekkingarleysi. En mesta furðan finnst mér hve lítið skynbragð höfundur ber á þær stjórnmálakenningar, sem hann þó einlægt er að fjalla um. Sérstaklega verður þetta stingandi þegar hann fer að bera saman Lúxembúrg og Lenín. Skv. Nettl sjálfum er þýska gerðin af riti hans verulega bætt frá hinni ensku, amk. hvað fróðleik varðar. Enska útgáfan er til á Landsbókasafni.
Miklu merkilegri umfjöllun um stjórnmálahugmyndir Lúxembúrg, samband þeirra við samtíma hennar og nútímann hefi eg fundið í tveimur ritum (fyrir utan þau sem nefnd hafa verið i 3. k. inngangs):
8. Rosa Luxemburg oder die Bestimmung des Sozialismus. Beitrage von: C. Pozzoli, L. Basso, J. Fetscher, A.Cordova, D. Howard, G. Bedeschi, 0. Negt, G. Badia, J. Seifert, G. Haupt, J. Agnoli. M Suhrkamp Verlag, Frankfurt am Main 1974 ( Vitnað er til þessa rits í formála sem Bestimmung). Þetta eru nokkur erindi frá alþjóðlegri ráðstefnu um Luxemburg, sem haldin var i Reggio Emilia á Ítaliu í september 1973.
9. Rosa Luxemburg vivante. Des-jan.hefti tímaritsins Partisans (útgáfu hætt). Maspero, Paris, 1969. Greinar eftir: J. Knief, D. Bensaid, A. Nair, N. Boulte &J. Moiroux, M. Loewy, H. Mehringer & G. Meigner, G. Haupt, auk annars efnis.
Í þessum ritum er að finna tilvísanir i fjölmörg rit sem eg hefi ekki lesið og tel því ekki upp.

Lyon, feb.1980.

Örn Ólafsson.