Tuesday, October 11, 2011

Gegn endurskoðunarstefnunni

Verkalýðssamtök

Fjöldaverkföll, flokkur og verkalýðsfélög.

I

Nær allt sem sósíalistar um víða veröld hafa sagt um fjöldaverkföll í ræðu og riti, er frá því fyrir rússnesku byltinguna. En hún er fyrsta tilraun sögunnar með þetta baráttutæki á stærsta mælikvarða. Því eru þessi ummæli sósíalista mestmegnis úrelt. Þau byggjast í meginatriðum á þeirri skoðun sem Friedrich Engels lét í ljós 1873, þegar hann gagnrýndi byltingarbrölt bakúnínista á Spáni:
"Í stefnuskrá bakúnínista er almennt verkfall sú vogarstöng sem á að hefja félagslega byltingu. Einn góðan veðurdag leggja allir verkamenn allra iðngreina, í einhverju landi eða jafnvel í öllum heiminum, niður vinnu. Á fjórum vikum í mesta lagi neyða þeir þannig eignastéttirnar til þess annað hvort að gefast upp eða ráðast á verkamenn, svo að þeir eigi þá rétt á að verjast, og við það tækifæri bylta öllu gamla samfélaginu. Það er langt frá því að þessi tillaga sé ný. Franskir sósíalistar, og síðan belgískir hafa haft þessa flugu í kollinum síðan 1848, en upphaflega er hún enskrar ættar, frá chartismanum. Hann þróaðist hratt og ákaft eftir kreppuna 1837, og þegar á árinu 1839 var enskum verkamönnum boðaður "helgur mánuður", niðurlagning vinnu um land allt (sbr. Engels: Aðstæður verkalýðsstéttarinnar í Englandi M/E: Werke, 2. bindi, bls. 447). Hugmyndin fékk þvílíkan hljómgrunn að verksmiðjufólk reyndi að framkvæma þetta á Norður-Englandi í júlí 1842. Á Bandalagsþinginu í Genf 1/9 1873 [þingi stjórnleysingja. Þýð.] gegndi almennt verkfall líka miklu hlutverki, en almennt var viðurkennt að til þess þyrfti fullkomið skipulag verkalýðsstéttarinnar og fulla sjóði. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Annarsvegar láta ríkisstjórnirnar hvorki skipulag verkalýðsstéttarinnar né sjóði nokkurntímann þróast svo langt, og þó síst ef þær eru egndar til óbilgirni með pólitísku bindindi hennar. Hinsvegar munu stjórnmálaatburðir og árásir drottnandi stétta leiða til frelsunar verkalýðsins löngu áður en öreigastéttin nær þessu draumaskipulagi og þessum feiknlegu varasjóðum. En hefði hún náð því, þyrfti hún ekki krókaleiðir almenns verkfalls til að ná takmarkinu" (Engels : Bakúnínistar að verki. M/E: Werke, 18. bindi, bls. 479-80).
Þetta er röksemdafærslan sem réði afstöðu sósíalista um allan heim til allsherjarverkfalls næstu áratugi. Hún er algerlega miðuð við kenningar stjórnleysingja um allsherjarverkfall, að það sé tæki til að hefja félagslega byltingu, í andstöðu við daglega stjórnmálabaráttu verkalýðsstéttarinnar, og hún kemur fyllilega fram í þessari einföldu klípu: Annaðhvort á öreigastéttin í heild enn ekki voldugar hreyfingar og sjóði, og getur þá ekki gert allsherjarverkfall, ellegar hún hefur náð nógu öflugu skipulagi, þá þarf hún ekki allsherjarverkfall. Þessi röksemdafærsla er raunar svo einföld, og við fyrstu sýn svo óhrekjandi, að í aldarfjórðung dugði hún verkalýðshreyfingu nútímans prýðilega sem rök gegn heilaspuna stjórnleysingja, og sem aðferð til að boða pólitíska baráttu sem víðast meðal verkalýðsins. Stórfenglegar framfarir verkalýðshreyfingarinnar í öllum nútímalegum löndum undanfarin 25 ár sanna glæsilegast gildi stjórnmálabaráttu, aðferðarinnar sem Marx og Engels börðust fyrir gegn bakúnínismanum. Máttur þýskra sósíalista nú, forystuhlutverk þeirra í verkalýðshreyfingu um heim allan, er ekki síst því að þakka, beinlínis, að þeir hafa lagt mikla samræmda áherslu á þessa baráttuaðferð.
Rússneska byltingin hefur nú leitt til rækilegrar endurskoðunar á ofangreindri röksemdafærslu. Í fyrsta skipti í sögu stéttabaráttu hefur hún leitt til stórkostlegrar framkvæmdar á hugmyndinni um fjöldaverkföll og jafnvel um allsherjarverkfall, einsog ég ræði nánar síðar. Þannig hóf hún nýtt skeið í þróun verkalýðshreyfingarinnar. Vissulega leiðir ekki af því, að stjórnmálabarátta, sú aðferð sem Marx og Engels boðuðu, eða gagnrýni þeirra á stjórnleysingja, hafi verið röng. Þvert á móti, það var sami hugsunarháttur, sama aðferð Marx og Engels, sem var grundvöllur starfs þýskra sósíalista hingað til, og ól nú af sér í rússnesku byltingunni alveg ný stig stéttabaráttunnar og ný skilyrði hennar. Rússneska byltingin, þessi bylting sem er fyrsta dæmi sögunnar um fjöldaverkföll, hún er engin uppreisn æru fyrir stjórnleysisstefnuna, heldur afmáir hana beinlínis sögulega. Hinn mikli vöxtur sósíalismans í Þýskalandi undanfarna áratugi hefur valdið uppdráttarsýki hjá þessari stefnu. Það mátti að vissu leyti skýra með algerri drottnun þingræðislegrar baráttu um langt skeið. Stefna sem beindist öll að "skyndilegri árás" og "beinum aðgerðum", sem er "byltingarsinnuð" í hreinum heykvíslaskilningi , hún gat að sinni aðeins dragnast upp í logni þingræðishversdagsins. En þegar aftur kæmu tímar beinnar, opinnar baráttu, bylting úti á götum, myndi hún lifna við og innri máttur hennar fengi útrás. Sérstaklega virtist Rússland til þess kjörið að verða tilraunasvið hetjudáða stjórnleysingja. Í þessu landi hefur öreigastéttin alls engin pólitísk réttindi og mjög veikburða samtök. Þar ægir saman mismunandi þjóðabrotum með mjög sundurleita hagsmuni sem rekast ýmislega á. Alþýðan hefur litla menntun og stjórnvöld beita valdi sínu af ítrasta skepnuskap. Allt virtist þetta kjörið til að hefja stjórnleysisstefnuna skyndilega til valda, jafnvel þótt þau völd stæðu kannski ekki lengi. Og loks var Rússland fæðingarstaður stjórnleysisstefnunnar. En föðurland Bakúníns átti eftir að verða grafreitur kenninga hans. Stjórnleysingjar voru ekki og eru ekki í forystu fjöldaverkfallanna í Rússlandi. Öll pólitísk forysta byltingaraðgerðanna og fjöldaverkfallanna er í höndum samtaka sósíalista, en rússneskir stjórnleysingjar berjast ákaft gegn þeim sem "borgaralegum flokki". Að hluta er forystan í höndum sósíalískra hreyfinga sem eru undir meiri eða minni áhrifum sósíalistaflokksins og nálgast hann, svosem hryðjuverkaflokkur "sósíalískra byltingarmanna"2) - stjórnleysingjar eru alls ekki til sem marktæk pólitísk stefna í rússnesku byltingunni. Einungis í einni lítáískri smáborg, þar sem aðstæður eru sérstaklega erfiðar, verkalýðurinn samsettur úr ýmiskonar þjóðabrotum og á mjög lágu þroskastigi, atvinnulífið sundrað í smáfyrirtæki, í Bialystok er meðal sjö eða átta mismunandi byltingarhópa einnig smáhópur hálfvaxinna "stjórnleysingja". Þeir auka á rugling verkalýðsstéttarinnar og villuráf eftir mætti. Í Moskvu og e. t. v. tveimur til þremur öðrum borgum verður loks vart við einn hóp af þessu tagi á hverjum stað. En fyrir utan þessa fáeinu hópa "byltingarsinna", hvað hefur þá eiginlega verið hlutverk stjórnleysisstefnunnar í rússnesku byltingunni? Hún er orðin skilti venjulegra þjófa og ræningja. Fyrirtækið "stjórnleysiskommúnismi" stendur fyrir miklum hluta þeirra óteljandi þjófnaða og rána hjá einkaaðiljum, sem rísa einsog gruggug bylgja á hverju lægðarskeiði byltingarinnar, á varnartímum hennar. Í rússnesku byltingunni varð stjórnleysisstefnan ekki fræðikenning öreigastéttarinnar í baráttu, heldur hugmyndafræðilegt skilti gagnbyltingarsinnaðra tötraöreiga, sem synda á eftir orrustuskipi byltingarinnar einsog hákarlahópur. Og þar með er sögulegu skeiði stjórnleysisstefnunnar væntanlega lokið.
Fjöldaverkföll í Rússlandi voru hinsvegar í framkvæmd ekki aðferð til að sneiða hjá pólitískri baráttu verkalýðsstéttarinnar og þingræðisbaráttu sérstaklega og stökkva beint inn í félagslega byltingu með leikhúsbrellu. Þau eru aðferð til að skapa sjálfar forsendurnar fyrir daglegri pólitískri baráttu öreigastéttarinnar og sérstaklega fyrir þingræðisbaráttu. Fjöldaverkföll eru mikilvægasta vopnið í byltingarbaráttunni í Rússlandi. En hana heyr vinnandi alþýða og fyrst og fremst öreigastéttin, einmitt fyrir þeim stjórnmálaréttindum og aðstæðum, sem Marx og Engels sýndu fyrst að væru mikilvæg og beinlínis nauðsynleg í frelsisbaráttu verkalýðsstéttarinnar. Þeir börðust fyrir þeim af alefli gegn stjórnleysingjum innan fyrsta alþjóðasambandsins. Söguleg þráttarhyggja [díalektík] er það bjarg sem öll fræði marxísks sósíalisma byggjast á. Hún hefur nú leitt til þess, að stjórnleysisstefnan sem hugmyndin um fjöldaverkföll var órjúfanlega tengd, er komin í andstöðu við sjálf fjöldaverkföllin í framkvæmd. Barist var gegn fjöldaverkföllum sem andstæðu pólitísks starfs öreigastéttarinnar. En þau eru nú einmitt orðin máttugasta vopnið í baráttu hennar fyrir stjórnmálaréttindum. Þegar því rússneska byltingin útheimtir rækilega endurskoðun á hefðbundinni afstöðu marxismans til fjöldaverkfalla, þá er það hinsvegar einungis marxisminn sem vinnur þar sigur í nýrri mynd með almennum aðferðum sínum og sjónarmiðum. Ástmey márans getur aðeins márinn drepið [vitnað til Othello Shakespeares. Þýðandi].

II

Vegna atburðanna í Rússlandi þarf að endurskoða hugmyndir um fjöldaverkföll. Fyrst er það hvernig almennt er litið á málið. Hingað til hafa allir í rauninni litið á málið frá sama sjónarhóli, þ.e. stjórnleysingja. Þetta gildir bæði um ákafa talsmenn "tilraunar með fjöldaverkfall" í Þýskalandi, svo sem Bernstein, Eisner o. s. frv. , sem og um harða andstæðinga slíkrar tilraunar, en í herbúðum verkalýðsfélaganna er t. d. Bömelburg fulltrúi þeirra. Þetta virðast andstæðir pólar, en þeir útiloka ekki aðeins hvor annan, einsog ævinlega móta þeir jafnframt hvor annan og uppfylla. Því draumurinn um hið "mikla búmsarabúms", félagslega byltingu, er í rauninn aðeins óverulegt ytra einkenni á hugsunarhætti stjórnleysingja. Meginatriði er hinsvegar öll þessi sértæka, ósögulega hugmynd um fjöldaverkfall og yfirleitt um öll skilyrði baráttu öreiganna. Fyrir stjórnleysingja eru efnislegar forsendur "byltingar" hugleiðinga þeirra aðeins tveir hlutir: í fyrsta lagi bláloftið og síðan góður vilji og hugrekki til að bjarga mannkyninu úr táradal auðvaldsins, sem það situr nú í. Út í bláinn var sýnt með rökum, þegar fyrir 60 árum, að fjöldaverkfall væri stysta, öruggasta og auðveldasta leiðin til að stökkva yfir í annan og betri heim félagslega. Sömuleiðis út í bláinn eru nýlegar hugleiðingar um að fagleg barátta sé einu "beinu aðgerðir fjöldans" og þarafleiðandi eina byltingarbaráttan. En þetta er, einsog menn vita, nýjasta grilla franskra og ítalskra "stéttarfélagsmanna". Stjórnleysisstefnan steytti þá jafnan á því skeri að bardagaaðferðir prjónaðar út í bláloftið eru í fyrsta lagi reikningur án þátttöku gestgjafans, þ.e. hreinir draumórar. Í öðru lagi taka þær ekkert mið af raunveruleikanum, ógeðfelldum og fyrirlitnum. Einmitt þessvegna breytast þær oftast í þessum ógeðfellda raunveruleika, óvart úr byltingarhugleiðingum í raunverulega aðstoð við afturhaldið .
Sama sértæka, ósögulega hugsunarhátt hafa þeir líka sem vilja að forystan setji fjöldaverkfall í Þýskalandi niður á ákveðinn mánaðardag á næstunni. Sama gildir um þá sem vilja losna við þetta vandamál með fjöldaverkföll með því að banna "áróður" fyrir því, svo sem þeir er sátu þing verkalýðsfélaganna í Köln. Báðir aðiljar byggja á sömu stjórnleysingjahugmyndinni um fjöldaverkföll, að þau séu bara viss baráttutækni sem megi "ákveða" eða "banna" að vild, eftir bestu vitund og samvisku, einskonar vasahnífur sem menn bera lokaðan á sér "ef með þyrfti", sem þeir geta líka ákveðið að opna og nota. Reyndar telja einmitt andstæðingar fjöldaverkfalla sér það til tekna að þeir taki tillit til sögulegs grundvallar og efnislegra aðstæðna í Þýskalandi núna. En því sé öfugt farið með "byltingarrómantíkusana", sem svífi í loftinu og vilji alls ekki reikna með hörðum raunveruleikanum, hvað sé mögulegt og hvað ómögulegt. "Staðreyndir og tölur, tölur og staðreyndir:" hrópa þeir einsog Mr. Graddgrind í Erfiðum tímum Dickens. Það sem andstæðingar fjöldaverkfalla innan verkalýðsfélaga eiga við með "sögulegum grundvelli" og "efnislegum aðstæðum" er tvennt: annarsvegar að öreigastéttin sé veikburða, hinsvegar að prússnesk-þýski herinn sé máttugur. Ónóg verkalýðsfélög og sjóðir og ógnvekjandi prússneskir byssustingir, það eru "staðreyndirnar og tölurnar" sem þessi verkalýðsforysta byggir hagnýta stefnu sina á í þessu tilviki. Nú er sjóðir verkalýðsfélaga og prússneskir byssustingir vissulega mjög efniskenndir hlutir, mjög sögulegir einnig. En skoðunin sem byggist á þessu, er alls engin söguleg efnishyggja í marxískum skilningi, heldur lögregluleg efnishyggja í skilningi Puttkamers 3). Fulltrúar lögregluríkis auðvaldsins taka líka mikið tillit til raunverulegs máttar skipulagðra öreiga hverju sinni, sem og til efnislegs valds byssustingjanna, raunar taka þeir einvörðungu tillit til þessa. Og samanburður þessara tveggja talnaraða leiðir enn til niðurstöðu sem róar þá: Byltingarsinnuð verkalýðshreyfing er búin til af einstökum undirróðurs- og æsingamönnum, þessvegna eru fangelsin og byssustingirnir fullnægjandi tæki tilað sigrast á þessu ógeðfellda, "tímabundna fyrirbæri".
Stéttvís þýskur verkalýður er löngu búinn að sjá hve spaugileg þessi fræðikenning lögreglunnar er, að öll verkalýðshreyfing nútímans sé tilviljunarkenndur tilbúningur fáeinna samviskulausra "undirróðurs- og æsingamanna".
En nákvæmlega sama skoðun birtist í því þegar nokkrir traustir félagar mynda sjálfboðalið næturvarða til að vara þýskan verkalýð við hættulegum umsvifum fáeinna "byltingarrómantíkusa" og "áróðri þeirra fyrir fjöldaverkfalli". Einnig þegar hinir aðiljanir setja af stað grátbólgna hneykslunarherferð vegna þess að eitthvert "leynilegt" samkomulag flokksforystunnar við verkalýðsforystuna hafi svikið þá um að fjöldaverkfall brytist út í Þýskalandi4). Væri þetta komið undir tendrandi "áróðri" by1tingarrómantíkusa, eða ákvörðunum flokksforystu, leynilegum eða opinberum, þá væri enn ekkert alvarlegt fjöldaverkfall í Rússlandi. Í engu landi datt mönnum síður í hug að "reka áróður" fyrir fjöldaverkfalli, eða einu sinni að "ræða" það, en í Rússlandi. Þetta dró ég fram þegar í mars 1905, í Sächsische Arbeiterzeitung. Og í þau fáu skipti sem rússneska flokksforystan tók raunverulega ákvörðun um að lýsa yfir fjöldaverkfalli, eins og nú síðast í ágúst, þegar þingið var leyst upp, þá mistókst það nær algerlega. Megi því eitthvað læra af rússnesku byltingunni, þá er það einkum að fjöldaverkföll eru ekki "búin til", ekki "ákveðin" útí bláinn, ekki drifin upp "með áróðri", heldur eru þau sögulegt fyrirbæri sem hlýst af félagslegum aðstæðum á ákveðnum tímum, af sögulegri nauðsyn.
Það þarf því ekki sértækar hugleiðingar um hvort fjöldaverkföll séu möguleg eða ómöguleg, gagnleg eða skaðleg, heldur þarf að rannsaka þær stundlegu og félagslegu aðstæður sem fjöldaverkföll hljótast af á núverandi skeiði stéttabaráttunnar. Með öðrum orðum, ekki þarf huglægan dóm um fjöldaverkföll miðað við hvað væri æskilegt, heldur þarf hlutlæga rannsókn á uppsprettum fjöldaverkfalla, frá sjónarmiði sögulegrar nauðsynjar. Aðeins þannig er hægt að skilja viðfangsefnið og ræða það.
Í lausu lofti óhlutbundinnar rökgreiningar er hægt að sanna að fjöldaverkföll séu alveg ómöguleg og leiði áreiðanlega til ósigurs, af jafnmiklum þrótti má sanna að þau séu fullkomlega möguleg og leiði örugglega til sigurs. Og því er gildi sannananna í báðum tilvikum jafnmikið, nefnilega alls ekkert. Og því er sérstaklega óttinn við "áróður" fyrir fjöldaverkföllum, sem leiðir meira að segja til formlegrar bannfæringar á meintum fremjendum þessa glæps, aðeins afleiðing skringilegra mistaka. Það er alveg jafnómögulegt að "reka áróður" fyrir fjöldaverkföllum sem sértækri baráttuaðferð, eins og það er ómögulegt að reka áróður fyrir "byltingunni". "Bylting" og "fjöldaverkfall" eru hugtök, sem tákna sjálf aðeins ytri myndir stéttabaráttunnar, aðeins í samhengi við ákveðnar stjórnmálaaðstæður hafa þau inntak og merkingu.
Vildi einhver taka það að sér að reka reglulegan áróður fyrir fjöldaverkföllum sem æskilegu formi aðgerða öreiganna, falbjóða þessa hugmynd til að fá verkalýðinn smám saman inn á hana, þá væri það jafntilgangslausar athafnir og þær væru innihaldslausar og asnalegar. Sama gildir um það ef einhver vildi reka sérstakan áróður fyrir byltingarhugmyndinni eða baráttu á götuvígjum. Fjöldaverkföll vekja nú ákafan áhuga verkalýðs í Þýskalandi og um heim allan, af því að þau eru ný baráttuaðferð, og því ótvírætt til marks um djúptækar innri breytingar á stéttaafstæðum og skilyrðum stéttabaráttunnar. Það sýnir heilbrigðar byltingarhvatir og góðar gáfur hins þýska öreigafjölda, að hann skuli snúa sér að þessu nýja viðfangsefni af svo vakandi áhuga, þrátt fyrir megna andstöðu verkalýðsforystu sinnar. En þessum áhuga verkalýðsins, göfuga andans þorsta hans og byltingarsinnuðu athafnaþrá, er ekki hægt að svara með sértækri heilaleikfimi um að fjöldaverkföll séu möguleg eða ómöguleg, heldur með því að gera honum ljósa þróun rússnesku byltingarinnar, þýðingu hennar alþjóðlega. Ennfremur verður að skýra fyrir honum hvernig stéttaandstæður í Vesturevrópu skerpast, hvaða horfur séu víðtækt pólitískt fyrir stéttabaráttuna í Þýskalandi, hvert sé hlutverk fjöldans og verkefni hans í komandi baráttu. Aðeins þannig verða umræðurnar um fjöldaverkfall til að víkka andlegan sjóndeildarhring öreigastéttarinnar, skerpa stéttarvitund hennar, dýpka hugsunarhátt og styrkja athafnaþrótthennar. En frá þessu sjónarmiði sést best hve hlægilegur er sá refsiréttur, sem andstæðingar "byltingarrómantíkur" reka, af því að menn haldi sig ekki nákvæmlega við orðalag Jenasamþykktarinnar5), þegar þeir fjalla um málið. Menn "hagnýtra stjórnmála" sætta sig við þá ályktun vegna þess að hún tengir fjöldaverkföll einkum við örlög almenns kosningaréttar. En af því þykjast þeir geta ályktað tvennt: í fyrsta lagi að fjöldaverkföll séu hrein varnaraðgerð, í öðru lagi að þau séu undirskipuð þingræðisbaráttu, einungis taglhnýtingur hennar. En hvað þetta varðar, þá er eiginlegur kjarni Jenaályktunarinnar sá, að við núverandi aðstæður í Þýskalandi yrði árás ríkjandi afturhaldsafla á kosningarétt til ríkisþingsins langsennilegast merki um upphaf tímabils stormasamrar pólitískrar baráttu. En þá yrði fjöldaverkföllum líklega fyrst beitt sem baráttuaðferð í Þýskalandi. En ætli menn að nota orðalag ályktunar flokksþings til að takmarka með tilbúnum skorðum félagslegt áhrifasvæði fjöldaverkfalla og sögulegt athafnasvið, þá jafnaðist slíkt tiltæki á við umræðubann Kölnarþings verkalýðsfélaganna að skammsýni. Í ályktun flokksþingsins í Jena hafa þýskir sósíalistar viðurkennt opinberlega hve djúpum umbreytingum rússneska byltingin olli í alþjóðlegum aðstæðum stéttabaráttu öreiganna. Og jafnframt sýndu þeir byltingarlegan þróunarmátt sinn og hæfni til að aðlagast nýjum kröfum komandi skeiðs stéttabaráttunnar. Þetta er þýðing Jenaályktunarinnar. Hvað varðar beina framkvæmd fjöldaverkfalla í Þýskalandi, þá mun sagan ákvarða hana, einsog hún ákvarðaði hana í Rússlandi. Í þeirri sögu eru sósíalistar og samþykktir þeirra vissulega mikilvægur þáttur, en einungis einn þáttur af mörgum.

III

Í umræðum um fjöldaverkföll í Þýskalandi núna er þau sett fram mjög skýrt og einfalt hugsað, sem skarpt afmarkað, einstakt fyrirbæri. Eingöngu er talað um pólitísk fjöldaverkföll. Þá hugsa menn sér einstakt, stórkostlegt verkfall iðnaðaröreiga sem hefst af áhrifamesta tilefni stjórnmála. Flokksstjórn og verkalýðsforysta hafa tekið sameiginlega ákvörðun um það í tæka tíð, síðan er það framkvæmt af aga í bestu röð og reglu, loks lýkur því með sömu röð og reglu, þegar forystan gefur merki á réttum tíma. Fyrirfram voru teknar nákvæmar ákvarðanir um styrki, kostnað, fórnir, í stuttu máli, allan efnislegan kostnað við fjöldaverkfallið.
Ef við nú berum þetta fræðilega kerfi saman við raunveruleg fjöldaverkföll, svo sem þau hafa orðið í Rússlandi undanfarin fimm ár, þá hljótum við að viðurkenna að hugmyndin, sem umræður Þjóðverja snúast um, samsvarar varla einu einasta af öllum þeim fjöldaverkföllum sem orðið hafa. En hinsvegar hafa fjöldaverkföllin í Rússlandi verið svo fjölbreytileg, að það er ómögulegt að tala um "fjöldaverkfallið" - um sértekið fjöldaverkfall eftir ákveðnum reglum. Eðli fjöldaverkfalla og öll stig þeirra eru mismunandi í mismunandi borgum og héruðum ríkisins, en einkum hefur þó almennt eðli þeirra oft breyst meðan byltingin stóð. Fjöldaverkföll eiga sér ákveðna sögu í Rússlandi, og hún er enn að gerast. Hver sem ræðir um fjöldaverkföll í Rússlandi, verður því umframt allt að líta á þessa sögu.
Rússneska byltingin er talin hefjast opinberlega, ef svo má segja, með uppreisn öreiganna í Pétursborg 22. janúar 1905, þegar 200 þúsund verkamenn gengu fyrir keisarahöllina. Þeirri göngu lauk með hroðalegu blóðbaði. Þessi tímasetning er fullkomlega réttmæt. Einsog alkunna er, urðu fjöldamorðin í Pétursborg til þess að fyrsta mikla keðjan af fjöldaverkföllum braust út. Innan fáeinna daga náðu þau yfir allt Rússland og báru veðurboða byltingarinnar frá Pétursborg inn í hvern kima ríkisins og til öreiganna hvarvetna. En uppreisnin í Pétursborg 22. janúar var hinsvegar aðeins tindur fjöldaverkfalls sem gripið hafði öreigana áður í höfuðborg zarsins, í janúar 1905. Það fjöldaverkfall var nú áreiðanlega tilkomið fyrir bein áhrif allsherjarverkfallsins feiknamikla, sem braust út skömmu áður, í desember 1904, í Bakú í Kákasus, og allt Rússland stóð á öndinni yfir um hríð. En þessir atburðir í Bakú í desember voru hinsvegar síðasti mikli kippurinn í þeim geysilegu fjöldaverkföllum sem gengu einsog jarðskjálfti hvað eftir annað yfir Suður-Rússland á árunum 1903 og 1904. Upphaf þeirra var fjöldaverkfallið í Batum í Kákasus í mars 1902. Þessi fyrsta hreyfing fjöldaverkfalla í samfelldri keðju byltingarumbrotanna núna, er loks aðeins fjórum eða fimm árum eftir hið mikla allsherjarverkfall vefiðjufólks í Pétursborg á árunum 1896-7. Enda þótt sú hreyfing virðist aðskilin frá byltingunni núna af nokkrum árum kyrrstöðu og megns afturhalds, þá munu samt allir sem þekkja innri stjórnmálaþróun rússneskra öreiga fram á núverandi stig stéttarvitundar og byltingarþróttar, vera sammála um að núverandi skeið fjöldabaráttu hefjist með þessum allsherjarverkföllum í Pétursborg. Þau eru mikilvæg þeim sem fást við fjöldaverkföll þegar af þeirri ástæðu að í þeim sjást á frumstigi öll megineinkenni seinni fjöldaverkfalla. Við fyrstu sýn virðist allsherjarverkfallið í Pétursborg 1896 vera hrein kjarabarátta fyrir sérkröfum. Tilefni þess voru óþolandi vinnuaðstæður spunaverksmiðjufólks og vefara í Pétursborg, vinnutíminn var 13, 14 eða 15 stundir, vesælleg ákvæðislaun, og lítilmótlegustu atvinnurekendaárásir af öllu tagi. En þessar aðstæður umbar vefiðjufólk lengi af þolinmæði, uns að því er virtist ómerkilegt atvik fyllti bikarinn, svo útaf flóði. Í maí 1896 fór fram krýning núverandi keisara, Nikulásar II, en henni hafði þá verið frestað í tvö ár af ótta við byltingarmenn. Við þetta tækifæri sýndu atvinnurekendur Pétursborgar ákafa föðurlandsást sína með því að fyrirskipa verkamönnum sínum þriggja daga frí, en þótt undarlegt megi virðast, vildu þeir ekki greiða laun fyrir þessa daga. Vefiðjufólkið æstist við þetta og komst nú á hreyfingu. Um 300 hinna upplýstustu verkamanna ráðguðust um í garði Jekaterinenhof, ákváðu verkfall og settu fram kröfur: 1. Greidd yrðu laun fyrir krýningardagana, 2. Vinnutími yrði tíu og hálf stund. 3. Ákvæðislaun yrðu hækkuð. Þetta var 24. maí. Eftir viku voru allar vefnaðar- og spunaverksmiðjur lamaðar og 40.000 verkamenn í allsherjarverkfalli. Þetta mega virðast smámunir núna, miðað við hin feiknlegu allsherjarverkföll byltingarinnar. En í stjórnmálafrosti Rússlands þá var allsherjarverkfall alveg dæmalaust, það var heil bylting í smáum stíl. Auðvitað hófust hinar ruddalegustu ofsóknir, um 1000 verkamenn voru handteknir og reknir heim, allsherjarverkfallið var bælt niður.
Hér koma þegar fram öll megineinkenni seinni fjöldaverkfalla. Nánasta tilefni hreyfingarinnar var hrein tilviljun, minniháttar atriði, og hún braust útaf frumafli. En hún sýndi ávöxt margra ára áróðurs sósíalista. Og í allsherjarverkfallinu stóðu áróðursmenn sósíalista í fararbroddi, stjórnuðu hreyfingunni og notuðu hana til ákafs byltingaráróðurs. Ennfremur var verkfallið hrein kjarabarátta á ytra borði, en afstaða ríkisstjórnarinnar og áróður sósíalista gerðu það að fyrsta flokks pólitískum viðburði. Og að lokum: Verkfallið var bælt niður, verkalýðurinn beið "ósigur". En þegar í janúar á næsta ári, 1897, endurtóku vefiðjumenn Pétursborgar allsherjarverkfallið og nú náðu þeir frábærum árangri: sett voru lög um ellefu og hálfrar stundar vinnudag um allt Rússland. Annar árangur var þó miklu mikilvægari. Fyrsta allsherjarverkfallið, 1896, var hafið án þess að vottaði fyrir skipulögðum hreyfingum eða verkfallssjóðum. Eftir það hefst í hinu eiginlega Rússlandi áköf, fagleg barátta, sem breiðist skjótt út um landið frá Pétursborg, og opnar áróðri sósíalista og skipulagsstarfi alveg nýjar víddir. Á næsta skeiði virðist ríkja kirkjugarðsfriður, en þá er öreigabyltingin undirbúin af ósýnilegri moldvörpustarfsemi.
Upphaf verkfallsins í Kákasus, í mars 1902 virtist jafntilviljunarkennt og stafa af jafnalgerum sérhagsmunum og 1896, þótt þeir væru nú allt aðrir. Það fylgir hinni djúptæku iðnaðar- og verslunarkreppu í Rússlandi, sem fór á undan stríðinu við Japan, og var, ásamt því, ein öflugasta uppspretta byltingarólgunnar sem nú hófst. Kreppan olli geysimiklu atvinnuleysi, sem gerði öreigafjöldann móttækilegan fyrir áróðri. Til að róa verkalýðsstéttina fór því ríkisstjórnin að flytja "óþarft vinnuafl" með valdi til heimkynna þess. Einmitt ein slík aðgerð, sem beindist að um 400 olíuverkamönnum, vakti fjöldamótmæli í Batum. Þá kom til mótmælaaðgerða sem svarað var með handtökum, fjöldamorðum og loks pólitískum réttarhöldum. Þessi hreina kjarabarátta fyrir sérkröfum varð þá að stjórnmálaatburði og byltingarvaka. Endurómur þessa alveg "árangurslausa" verkfalls, sem var bælt niður í Batum, var svo keðja byltingarsinnaðra andófsaðgerða verkamanna í Nishni-Nowgorod, í Saratow, í fleiri borgum, sem sagt öflug framrás almennrar bylgju byltingarhreyfingarinnar.
Þegar í nóvember 1902 kemur fyrsta sanna byltingarbergmálið, allsherjarverkfall í Rostow við Don. Tilefni þessarar hreyfingar var launadeila á vinnustöðum Wladikákasísku járnbrautarinnar. Framkvæmdastjórnin vildi lækka launin og þá gaf sósíalistafélag Don út ávarp með hvatningu til verkfalls fyrir þessum kröfum: níu stunda vinnudegi, launahækkun, afnámi refsinga, brottrekstri óvinsælla verkfræðinga, o. s. frv. Á öllum vinnustöðum járnbrautanna var hætt störfum. Brátt bættust allar aðrar starfsgreinar við, og skyndilega ríkti alveg nýtt ástand í Rostow, allur iðnaður var lamaður og dag eftir dag voru haldnir geysimiklir útifundir 15.000 til 20.000 verkamanna, sem oft voru umkringdir af kósökkum. Þarna gátu ræðumenn sósíalista í fyrsta skipti komið fram opinberlega, haldið glóandi ræður um sósíalismann og pólitískt frelsi, og dreift byltingarákalli í tugþúsundum eintaka, sem tekið var af geysilegri hrifningu. Mitt í stirðnuðu einveldi Rússlands tekur öreigalýður Rostow sér í fyrsta sinn fundafrelsi og málfrelsi með áhlaupi. Vissulega kostar það fjöldamorð, einnig hér. Launadeilan hjá Wladikákasísku járnbrautinni varð á fáeinum dögum að pólitísku allsherjarverkfalli og byltingarsinnuðum götubardögum. Þetta endurómaði þegar í öðru allsherjarverkfalli í Tichorezk, en það er stöð á sömu járnbraut. Einnig hér kom til fjöldamorða, síðan til réttarhalda, og Tichorezk varð enn einn hlekkurinn í órjúfanlegri keðju byltingarinnar.
Vorið 1903 kom svarið við því að verkföllin í Rostow og Tichorezk voru bæld niður: allur suðurhluti Rússlands stendur í báli í maí, júní og júlí. Í Baku, Tiflis, Batum, Jelisawetgrad, Odessa, Kiew, Nikolajew og Jekaterinoslaw er bókstaflega allsherjarverkfall. En einnig hér verður hreyfingin ekki til eftir einhverri fyrirfram ákveðinni áætlun einhverrar miðstöðvar, hún rennur saman úr einstökum hlutum, sem hver varð af sérstöku tilefni. Upphafið var í Bakú, þar sem sérstök kjarabarátta í ýmsum verksmiðjum og greinum rann loks saman í allsherjarverkfall. Í Tiflis hófu 2000 búðarmenn verkfallið. Vinnutími þeirra var frá kl. 6 á morgnana til 11 á kvöldin. 4. jú1í yfirgáfu þeir allir búðirnar kl. 8 um kvöldið og fóru í göngu um borgina til að hvetja verslunareigendur til að loka búðunum. Þetta varð fullkominn sigur, búðarmenn fengu vinnutíma frá 8 til 8, og allar verksmiðjur, verkstæði og skrifstofur fylgdu þegar á eftir. Blöðin komu ekki út, sporvagna var aðeins hægt að reka með hervernd. Í Jelisawetgrad hófst verkfall fyrir hreinum kjarakröfum í öllum verksmiðjum 10. júli. Mestmegnis var gengið að þeim, og 14. júlí lauk verkfallinu. En tveimur vikum síðar hefst það aftur, og nú hefja bakarar baráttuna, á eftir þeim koma steinhöggvarar, húsgagnasmiðir, litarar, myllustarfsmenn, og loks allt verksmiðjufólkið aftur. Í Odessa hefst hreyfingin á launabaráttu. Í henni lendir "löglegt" verkamannafélag handbenda ríkisstjórnarinnar, sem var stofnað eftir fyrirmynd hins fræga lögreglumanns Subatoff6). Hér fékk söguleg dialektík aftur færi á laglegum hrekkjum. Kjarabarátta hins fyrra skeiðs - þ. á m. allsherjarverkfallið mikla í Pétursborg 1896 hafði leitt sósíalista til öfga svokallaðrar "efnahagshyggju". Þar með höfðu þeir skapað meðal verkalýðsins jarðveg fyrir lýðskrum Subatoffs. En eftir nokkra hríð sneri byltingarstraumurinn mikli þessari kænu undir fölsku flaggi, og neyddi hana tilað sigla beinlínis í broddi skipalestar byltingarsinnaðra öreiga. Subatoff-félögin kvöddu menn til allsherjarverkfallsins mikla í Odessa vorið 1904, og í Pétursborg í janúar 1905. Verkamenn í Odessa voru haldnir þeirri blekkingu að ríkisstjórnin væri í einlægni vinveitt verkalýðnum og hefði samúð með hreinni kjarabaráttu. Nú vildu þeir sannreyna þetta, og neyddu Subatoff-félagið í verksmiðju einni til að lýsa yfir verkfalli vegna hinna hófsamlegustu krafna. Atvinnurekandinnn henti þeim þá einfaldlega út, og þegar þeir kröfðu leiðtoga félags síns um fyrirheitna aðstoð hins opinbera, gufaði sá herra upp og skildi verkamennina eftir í mesta uppnámi. Sósíalistar tóku þegar við forystunni, og verkfallshreyfingin greip aðrar verksmiðjur. Þann 1. júlí fóru 2.500 járnbrautamenn í verkfall, og 4. júlí hafnarverkamenn, til að fá launahækkun úr 80 kópekum í 2 rúblur og vinnudaginn styttan um hálftíma. 6. júlí taka sjómenn þátt í hreyfingunni. 13. júlí hefst verkfall starfsfólks við sporvagna. Nú er haldinn fundur allra verkfallsmanna, 7-8000 manns. Ganga þeirra fer frá einni verksmiðju til annarrar, vex einsog snjóskriða og er orðin 40-50 þúsund manns, þegar hún kemur niður að höfn og stöðvar alla vinnu þar. Brátt er allsherjarverkfall um alla borgina. Í Kiew hefst verkfall starfsfólks járnbrautanna 21. júlí. Hér er nánasta tilefni líka ömurleg vinnuskilyrði, og launakröfur eru settar fram. Næsta dag fylgja málmsteypurnar fordæminu. 23. júlí gerðist svo atvik sem varð kveikjan að allsherjarverkfalli. Um nóttina voru tveir fulltrúar járnbrautarverkamanna handteknir; verkfallsmenn krefjast þess að þeir verði þegar í stað látnir lausir, og þegar ekki er orðið við því, ákveða þeir að hleypa ekki lestunum úr borginni. Við brautarstöðina setjast allir verkfallsmenn á teinana með konum og börnum - heilt haf af mannshöfðum. Hótað er að skjóta. Verkamenn afhjúpa brjóst sín og hrópa: "Skjótið:" Skothríð dynur á varnarlausan, sitjandi mannfjöldann, og 30-40 lík liggja eftir, þ.á m. kvenna og barna. Þegar það fréttist rís öll Kiew til verkfalls samdægurs. Mannfjöldinn hefur á loft lík hinna myrtu og ber þau um í mikilli fjöldagöngu. Fundir, ræður, handtökur, stakir götubardagar - Kiew er mitt í byltingu. Hreyfingunni lýkur skjótt; en bókaprentarar fengu vinnutímann styttan um klukkustund og launin hækkuð um rúblu, átta stunda vinnudegi var komið á í gergerð, járnbrautarsmiðjunum var lokað með tilskipun ráðuneytis; aðrar greinar héldu áfram sérstökum verkföllum fyrir kröfum sínum. - Í Nikolajew brýst út allsherjarverkfall fyrir bein áhrif fréttanna frá Odessa, Baku, Batum og Tiflis, þrátt fyrir andstöðu sósíalistafélagsins, sem vildi fresta því að hreyfingin brytist út þangað til herinn færi til æfinga úr borginni. Fjöldinn lét ekki stöðva sig, ein verksmiðja byrjaði, verkfallsmenn fóru af einum vinnustað á annan, andstaða hersins hellti bara olíu á eldinn. Brátt hófust fjöldagöngur með byltingarsöngvum, þær hrifu með sér alla verkamenn, starfsmenn, starfsfólk við sporvagnana, konur og karla. Verkfallið var algert. – Í Jekaterinoslaw fóru bakarar í verkfall 5. ágúst, verkamenn hjá járnbrautunum þann 7. , en síðan allar aðrar verksmiðjur. 8. ágúst stöðvuðust sporvagnarnir, blöðin komu ekki út. Þannig kom til hins stórkostlega allsherjarverkfalls Suður-Rússlands sumarið 1903. Úr mörgum litlum sprænum sérstakrar kjarabaráttu og af lítilvægum "tilviljunum" rann það hratt saman í geysilegt haf og breytti öllum suðurhluta zarríkisins um nokkurra vikna skeið í furðulegt, byltingarsinnað verkamannalýðveldi. "Bróðurleg faðmlög, hrifningarhróp og ákafa-, frelsissöngvar, ánægjuhlátur, glettni og gleði ómaði í mörgþúsundhöfðaðum fjöldanum, sem vall um borgina frá morgni til kvölds. Menn voru í sjöunda himni, ætla mátti að nú hæfist nýtt og betra líf á jörðu. Þetta snart fólk djúpt að sjá, háalvarlegt og sæluþrungið í senn.” Þannig skrifaði á sinni tíð Peter von Struve, fréttaritari frjálshyggjublaðsins Oswoboshdenije.
Árið 1904 hófst á stríðinu og um hríð varð þá hlé á fjöldaverkföllum. Fyrst helltist aurug alda yfir landið; fundir og aðgerðir "föðurlandsvina", sem lögreglan stóð fyrir. Félag borgaralegra "frjálshyggjumanna" var alveg slegið niður af opinberri, keisaralegri þjóðrembu. En brátt ná sósíalistar vígvellinum aftur, gegn lögregluaðgerðum þjóðhollra tötraöreiga koma byltingarsinnaðar aðgerðir verkamanna. Loks vekja hraksmánarlegar ófarir keisarahersins einnig frjálshyggjufélagið úr rotinu; nú hefst tímaskeið með þingum frjálshyggjumanna og lýðræðissinna, málsverðum þeirra, ræðum, ávörpum og samþykktum. Einveldið er aðþrengt um hríð vegna háðulegra ófara sinna í stríðinu. Því lætur það þessa herra halda áfram rugli sínu og himinninn fyllist af skýjaborgum frjálshyggjunnar. Í hálft ár leggja borgaralegir frjálshyggjumenn undir sig framsvið stjórnmálanna, en öreigastéttin hverfur í skuggann. En eftir langvarandi lægð rífur einveldið sig aftur upp, hirðsnáparnir hressast og eftir að kósakkastígvéli hefur einu sinni verið stappað kröftuglega niður, hverfa allar aðgerðir frjálshyggjumanna inn í músarholurnar í desember. Málsverðirnir, ræðurnar, þingin, eru einfaldlega bönnuð sem "frekjulegur yfirgangur" og frjálshyggjan á ekkert ráð við því. En einmitt þar sem frjálshyggjan missti móðinn, hefjast aðgerðir öreigastéttarinnar. Vegna atvinnuleysis hefst hið tilkomumikla allsherjarverkfall í Bakú í desember 1904, verkalýðsstéttin er aftur á vígvellinum. Þegar skrafið var bannað og hljóðnaði, hófust athafnir aftur. Í Bakú drottnuðu sósíalistar algerlega nokkrar vikur, mitt í allsherjarverkfallinu, og þessir furðulegu atburðir í Kákasus hefðu vakið mjög mikla athygli , hefðu þeir ekki horfið svo skjótt i rísandi öldu byltingarinnar, sem þeir höfðu sjálfir magnað upp. Hinar furðulegu, óljósu fréttir af allsherjarverkfallinu í Bakú höfðu enn ekki náð út í alla króka keisararíkisins, þegar fjöldaverkfallið braust út í Pétursborg í janúar 1905.
Einnig hér var tilefnið mjög smávægilegt, einsog mönnum mun kunnugt. Tveir verkamenn í Putilot-verksmiðjunum voru reknir fyrir að vera í löglegu Subatoff-félagi. Gegn þessum aðgerðum sýndu allir 12.000 verkamenn þessarar verksmiðju samstöðu með verkfalli 16. janúar. Í þessu verkfalli hófu sósíalistar ákafan áróður fyrir því að krefjast meira og náðu fram kröfugerð um átta stunda vinnudag, félagafrelsi, málfrelsi og prentfrelsi, o. s. frv. Ólgan í Putiloff-verksmiðjunum breiddist hratt út meðal öreigastéttarinnar, og innan fárra daga voru 140.000 komnir í verkfall. Samráð þeirra og ákafar umræður ólu af sér lýðréttindaskrá öreiganna, þar sem krafan um átta stunda vinnudag var efst á blaði. Það var plaggið sem 200.000 verkamenn gengu með fyrir höll zarsins, 22. janúar, undir leiðsögn Gapons prests. Átök vegna tveggja verkamanna, sem höfðu verið reknir frá Putiloff, urðu á einni viku að forleik mestu byltingar nútímans.
Næstu atburðir eru alkunnir: Blóðbaðið í Pétursborg kallaði fram hrikaleg fjöldaverkföll og allsherjarverkföll í janúar og febrúar, í öllum iðnaðarsvæðum og borgum Rússlands, Póllands, Litáens, baltnesku héraðanna, Kákasus, Síbiríu, frá norðri til suðurs, frá vestri til austurs. En við nánari athugun reynast fjöldaverkföllin koma fram í öðrum myndum en hingað til. Nú voru félög sósíalista ævinlega í fararbroddi með herhvöt sína. Allsstaðar var yfirlýstur tilgangur allsherjarverkfallsins og tilefni að sýna byltingarsamstöðu með öreigalýð Pétursborgar, allsstaðar voru á sama tíma andófsaðgerðir, ræður, barist við herinn. En heldur ekki nú var um að ræða fyrirfram gerða áætlun, skipulagðar aðgerðir, því áköll flokkanna gátu naumast haft við sjálfsprottnum aðgerðum fjöldans, leiðtogarnir höfðu naumast tíma til að orða vígorð öreigafjöldans, sem geystist fram. Ennfremur er það, að fyrri fjölda- og allsherjarverkföll urðu til við samruna margvíslegrar kjarabaráttu. Í því almenna hugarástandi sem fylgir byltingarástandi, og undir áhrifum áróðurs sósíalista varð kjarabaráttan skjótt að stjórnmálaaðgerðum. Kjaramálin og sundrung verkalýðsfélaga voru upphafið, sameinandi stéttaraðgerðir og pólitísk leiðsögn útkoman. Í hreyfingunni núna var þessu öfugt farið. Verkföllin í janúar og febrúar hófust sem sameinaðar byltingaraðgerðir undir forystu sósíalista, en þessar aðgerðir runnu skjótt sundur í óendanlega keðju staðbundinna, sérstakra verkfalla fyrir kjarabótum í einstökum héruðum, borgum, starfsgreinum og verksmiðjum. Allt vorið 1905 og fram á mitt sumar geisaði um allt þetta mikla ríki óþrotleg kjarabarátta næstum allrar öreigastéttarinnar gegn auðvaldinu, barátta sem náði upp í allar smáborgaralegar og frjálsar starfsgreinar: búðarfólk, bankamenn, tæknimenn, leikara, listamenn, og niður í þjónustufólk, lágt setta lögreglumenn, já alveg niður til tötraöreiganna. Baráttan barst jafnframt úr borgum í sveitir og barði jafnvel á járnhlið herbúðanna. Þetta er risastór, marglit mynd af almennum átökum vinnuafls og auðmagns. Hún speglar allan margbreytileika félagslegrar skiptingar og pólitískrar vitundar hvers lags og kima í samfélaginu. Þarna sést allur langi tröppugangurinn frá reglulegri faglegri baráttu þaulreyndrar úrvalssveitar öreiga í stóriðju til þess er út brýst formlaust andóf hóps af sveitaöreigum, og að fyrstu óljósu hræringum æstrar setuliðssveitar, allt frá siðfágaðri, glæsibúinni uppreisn í manséttum og stífum flibba í bankaskrifstofu, yfir í feimnisfrekt muldur klunnalegs hóps óánægðra lögreglumanna í reykmettaðri, dimmri og skítugri lögregluvarðstofu.
Samkvæmt kenningu þeirra sem vilja "skipulega og agaða" baráttu eftir áætlun og kerfi, sérstaklega þeirra, sem alltaf vita betur úr fjarlægð hvernig "hefði átt að gera þetta", þá voru það sennilega "mikil mistök" að hin miklu pólitísku allsherjarverkföll í janúar 1905, skyldu splundrast í ótal kjarabaráttuaðgerðir. Þannig hafi pólitísku aðgerðirnar"lamast" og breyst í "sinubruna". Sósíalistar í Rússlandi taka vissulega þátt í byltingunni, en "fremja" hana ekki, og lögmál hennar verða þeir að læra af henni sjálfri. Þeir voru líka nokkuð ráðvilltir framanaf, þegar fyrsta stórflóði allsherjarverkfallsins slotaði, og virtist árangurslaust. En sagan, sem gerði þessi "miklu mistök" lét sig engu varða röksemdafærslu ótilkvaddra kennara sinna og vann þarna feiknalegt byltingarstarf, jafnóhjákvæmilegt, sem afleiðingar þess eru óútreiknanlegar.
Skyndileg almenn uppreisn öreiganna í janúar, við hina miklu örvun frá atburðunum í Pétursborg, var pólitísk athöfn út á við, yfirlýsing um byltingarstríð gegn einveldinu. En þessar fyrstu almennu, beinu stéttaraðgerðir höfðu einmitt sem slíkar þeim mun meiri áhrif inn á við, því þær vöktu í fyrsta skipti stéttartilfinningu og stéttarvitund milljóna og aftur milljóna eins og með raflosti. Þegar stéttartilfinningin vaknaði, hafði það þegar þau áhrif að milljónafjöldi öreigalýðsins áttaði sig skyndilega skarpt á því, hve óþolandi voru þær félagslegu og efnahagslegu aðstæður, sem hann hafði umborið þolinmóður áratugum saman í hlekkjum auðvaldsins. Það kemur því af sjálfu sér að almennt er farið að toga og kippa í þessar keðjur. Þúsundfaldar þjáningar nútímaöreiga minna þá á gömul, blæðandi sár. Hér er barist fyrir átta stunda vinnudegi, þar gegn ákvæðisvinnu, á einum stað er ruddalegum yfirmönnum stungið í poka og ekið út á handkerru, annars staðar er barist gegn níðingslegu refsikerfi, allsstaðar er barist fyrir betri launum, hér og þar fyrir afnámi framleiðslu á heimilum. Fólk í vanþróuðum, lítilsmetnum störfum í stórborgum, íbúar lítilla borga úti á landi, sem móktu í kyrrðinni, þorpsbúar með arfleifð bændaánauðarinnar - allir fara nú skyndilega að hugsa til réttinda sinna, þegar þeir vöknuðu við janúareldinguna, og reyna nú ákaft að bæta úr því sem vanrækt var. Í rauninni var því kjarabaráttan ekki sundrung aðgerðanna, heldur einungis breyting víglínunnar, skyndileg og eðlileg umskipti frá fyrstu allsherjarorrustunni við einveldið til almenns uppgjörs við auðvaldið. Það hlaut samkvæmt eðli sínu að koma fram í mynd einstakra, aðskilinna kjarabaráttuaðgerða. Það var ekki svo að pólitískar stéttaraðgerðir í janúar hafi verið brotnar niður er allsherjarverkfallið rann sundur í verkföll kjarabaráttu, heldur þvert á móti: eftir að tæmt var það inntak stjórnmálaaðgerðanna sem var mögulegt við þessar aðstæður og á þessu stigi byltingarinnar, runnu þær sundur, eða öllu heldur breyttust í kjarabaráttu.
Því þegar betur er að gáð, hverju gat allsherjarverkfallið í janúar áorkað frekar? Það þarf fullkomið umhugsunarleysi til að vænta þess að einveldið yrði eyðilagt með einu höggi, með einu einasta "langvarandi" allsherjarverkfalli að fyrirmynd stjórnleysingja. Í Rússlandi verður öreigastéttin að steypa einveldinu. En til þess þarf öreigastéttin pólitíska skólun, stéttarvitund og skipulag, allt þetta á háu stigi. En þetta getur hún ekki öðlast af bæklingum og dreifiritum, heldur aðeins úr hinum lifandi stjórnmálaskóla sínum, af baráttu og í baráttu, í áframhaldandi gangi byltingarinnar. Ennfremur er ekki hægt að steypa einveldinu hvenær sem vera skal, bara með nægjanlegu "átaki" og "þolgæði". Fall einveldisins er einungis ytri merki um innri þróun rússnesks samfélags, stétta þess og félagslega. Til þess að einveldinu verði steypt, þarf komandi, borgaralegt Rússland fyrst að mótast hið innra, stéttir nútímans að aðgreinast. Til þess þarf sundurgreiningu mismunandi laga samfélagsins og hagsmuna, myndun stjórnmálaflokka, bæði byltingarsinnaðra öreiga, en ekki síður flokka frjálshyggjumanna, róttækra, smáborgaralegra, íhaldsmanna og afturhaldsins. Til þess þarf sjálfsvitund, sjálfsþekkingu og stéttarvitund, ekki bara alþýðunnar, heldur líka borgaralegra hópa. En þeir geta heldur ekki myndast og þroskast nema í baráttu, í byltingarferlinu sjálfu, í lifandi skóla atburðanna, í árekstri við öreigastéttina og hver við annan, í sífelldum gagnkvæmum átökum. Þessi aðgreining stétta og þroski í borgaralegu samfélagi, sem og barátta þess gegn einveldinu, verður annarsvegar örðugri vegna hins einkennilega forystuhlutverks öreigastéttarinnar og aðgerða hennar, sem þó hinsvegar örva þetta líka og hraða því. Djúpstraumar samfélagsbreytinga byltingarinnar rekast á hver annan og stöðva, magna innri andstæður byltingarinnar, en útkoman verður sú að þeir hraða sinni óskaplegu útrás og magna hana.
Þetta viðfangsefni, að steypa einveldinu, virðist svo einfalt og bert, alveg vélrænt. En það krefst langrar samfélagsþróunar, að samfélagsgrunnurinn verði alveg grafinn upp, hið neðsta verður að færast upp, hið efsta niður. Það sem virðist "samræmi" verður glundroði, og úr því sem virðist "stjórnleysisglundroði", verður að skapa nýtt samræmi. Og í þessari félagslegu uppstokkun gamla Rússlands var ekki bara janúarelding fyrsta allsherjarverkfallsins ómissandi, heldur enn frekar hið mikla þrumuveður verkfalla kjarabaráttu um vorið og sumarið. Bitur almenn átök launavinnu við auðmagn leiddu í jafnríkum mæli til að greina sundur mismunandi þjóðfélagshópa, til að þroska stéttarvitund byltingarsinnaðra öreiga og einnig frjálslyndrar og íhaldssamrar borgarastéttar. Og eins og launabaráttan í borgum stuðlaði að myndun hins sterka konungssinnaflokks iðnjöfranna í Moskvu, þannig leiddi hinn rauði hani sveitauppreisnarinnar miklu í Líflandi til bráðs bana hinnar frægu Semstwo-frjálshyggju aðalslandeigenda. En jafnframt gaf tímabil kjarabaráttu, vorið og sumarið 1905, borgaöreigum færi á að tileinka sér alla lærdóma janúarforleiksins eftir á, í mynd ákafs áróðurs og leiðsagnar sósíalista. Þannig áttuðu þeir sig á frekari verkefnum byltingarinnar. En því tengist annar varanlegur félagslegur ávinningur: afkoma öreigastéttarinnar batnaði almennt, efnahagslega, félagslega og andlega. Verkföllum vorsins 1905 lauk næstum öllum með sigri. Hér eru dæmi úr geysilegu staðreyndaflóðinu, sem enn er að mestu ómögulegt að sjá yfir, það eru nokkur helstu verkföll í Varsjá einni sem sósíalistaflokkur Póllands og Litáens stýrði. Eftir fjögurra til fimm vikna verkfall sem hófst 25. og 26. janúar, í mestu málmiðjum Varsjár7), alls 22 verksmiðjum, náðu allir verkamenn fram níu stunda vinnudegi, 15-25% launahækkun og ýmsum minniháttar kröfum. Á stærstu vinnustöðum timburiðju Varsjár náðu verkfallsmenn fram níu stunda vinnudegi þegar 23. febrúar. En þeir létu sér það ekki nægja og stóðu fast á átta stunda vinnudegi, sem þeir komu á eftir vikuverkfall í viðbót, ásamt launahækkun. Múrarar hófu í heild verkfall 27. febrúar, kröfðust átta stunda vinnudags skv. vígorði sósíalista, og 11. mars náðu þeir fram níu stunda vinnudegi, launahækkun fyrir alla flokka, reglubundnum vikulegum útborgunum, o. s. frv., o. s. frv. Málarar, vagnasmiðir, söðlasmiðir og járnsmiðir náðu allir fram átta stunda vinnudegi án launalækkunar. Á símanum var verkfall í tíu daga, þar fékkst átta stunda vinnudagur og launahækkun um 10 til 15%. Í línvefiðjunni miklu Hielle & Dietrich (10.000 verkamenn) náðist eftir níu vikna verkfall stytting vinnutíma um klukkustund og 5-10% launahækkun. Og sami árangur sést í ótal tilbrigðum í öllum öðrum starfsgreinum Varsjár, einnig í Lodz og í Sosnowiec.
Í Rússlandi sjálfu náðist fram átta stunda vinnudagur: í desember 1904 hjá ýmsum flokkum olíuverkamanna í Bakú, í maí 1905 hjá sykurverkamönnum umhverfis Kiew, í janúar 1905 í öllum bókaprentsmiðjum Samara (þar voru ákvæðislaun jafnframt hækkuð og refsiákvæði afnumin), í febrúar í verksmiðju fyrir herlæknistæki, húsgagnasmiðju og skothylkjaverksmiðju í Pétursborg. Ennfremur voru teknar upp átta tíma vaktir í námunum við Wladiwostok. Í mars komst á átta stunda vinnudagur í vélsmiðjum Stofnunar ríkisskuldabréfa, í apríl hjá smiðum Bobruisk-borgar, í maí hjá starfsmönnum rafbrautarinnar í Tiflis, þá komst á átta og hálfrar stundar vinnudagur í bómullarvefiðjunni miklu í Morosoff (jafnframt var næturvinna afnumin og laun hækkuð um 8%). Í júní komst átta stunda vinnudagur á í fáeinum olíuvinnslustöðvum í Pétursborg og Moskvu, í júlí átta og hálfrar stundar vinnudagur hjá smiðum Pétursborgarhafnar, í nóvember í öllum prentsmiðjum í einkaeign í Orelborg (jafnframt var tímakaup hækkað um 20%, ákvæðislaun um 100% og komið á gerðardómi).
Níu stunda vinnudegi var komið á allsstaðar hjá járnbrautunum (í febrúar), á mörgum opinberum vinnustöðum hjá her og flota, í flestum verksmiðjum Berdjansk-borgar, í öllum prentsmiðjum borganna Poltawa og Minsk, níu og hálfur tími á skipasmíðastöðinni, vélaverkstæðinu ogmálmsteypunni í borginni Nikolajew, og í júní á mörgum veitingastöðum og kaffihúsum Varsjár, eftir almennt verkfall þjóna þar (einnig fengu þeir launahækkun um 20-40% og tveggja vikna orlof árlega).
Tíu stunda vinnudagur náðist fram í nær öllum verksmiðjum borganna Lodz, Sosnowiec, Riga, Kowno, Reval, Dorpat, Minsk, Hvarkoff, hjá bökurum í Odessa, á handverkstæðum í Kisjinjoff, nokkrum hattagerðum í Pétursborg, eldspýtnaverksmiðjunum í Kowno (og laun jafnframt hækkuð um 10%), á öllum opinberum vinnustöðum hjá flotanum og hjá öllum hafnarverkamönnum. Launahækkun er almennt minni en stytting vinnutíma, en samt veruleg Þannig komst verksmiðjuráð Varsjárborgar að þeirri niðurstöðu í mars 1905, að laun hefðu almennt hækkað um 15%. Í vefiðjukjarnanum Iwanowo-Wosnessensk nam launahækkunin 7-15%, í Kowno fengu 73% allra verkamanna hlut í launahækkuninni. Föstum lágmarkslaunum var komið á, í nokkrum bökunarhúsanna í Odessa, í skipasmíðastöðinni við Newa í Pétursborg, o. s. frv. Vissulega eru þessar tilslakanir víða teknar aftur á ýmsan hátt. En það verður aðeins tilefni til nýrrar hefndarbaráttu, enn biturri en áður. Þannig varð verkfallsskeiðið vorið 1905 af sjálfu sér forleikur óendanlegrar keðju sífellt víðtækari kjarabaráttu, þar sem hvað greip inn í annað, og það stendur fram á þennan dag. Á tímum ytri kyrrstöðu byltingarinna þegar símskeytin fluttu engar æsifréttir frá rússnesku vígstöðvunum, þegar vesturevrópskir lesendur lögðu vonsviknir frá sér morgunblaðið með þeim orðum að "ekkert gerðist" í Rússlandi, þá hélt í rauninni áfram hið mikla moldvörpustarf byltingarinnar, hvíldarlaust, dag eftir dag, stund fyrir stund. Óþrotleg, áköf kjarabaráttan rekur auðvaldið æ hraðar af stigi frumupphleðslu, gerræðislegrar rányrkju, á hánútímalegt stig tæknimenningar. Nú er raunverulegur vinnutími í rússneskum iðnaði ekki aðeins styttri en rússnesk verksmiðjulög kveða á um, þ.e. ellefu og hálfrar stundar vinnudagur, heldur hefur þróunin farið framúr raunverulegum aðstæðum í Þýskalandi. Á flestum sviðum rússneskrar stóriðju er nú tíu stunda vinnudagur, í Þýskalandi er það álitið markmið sem verði ekki náð í félagsmálalöggjöf. Já, ekki nóg með það. Þessi "efnahagslögstjórn”8), sem menn eru svo hrifnir af í Þýskalandi að hennar vegna vilja fylgjendur endurskoðunarstefnunnar halda hverjum hressandi gusti frá stöðupolli þingræðisins sem eitt er þeim hjálpræði; hún fæðist í Rússlandi mitt í byltingarstorminum, af byltingunni, ásamt með pólitískri "lögstjórn". Reyndar er það ekki bara afkoma verkalýðsins sem hefur almennt batnað, eða öllu heldur menningarstig hans. Í byltingunni er ekkert rúm fyrir efnislega afkomu í mynd varanlegrar vellíðanar. Hún er full af mótsögnum og andstæðum. Í senn leiðir hún til furðulegs sigurs í kjarabaráttunni og grófustu hefndaraðgerða auðvaldsins. Einn daginn leiðir hún til átta stunda vinnudags, annan dag til fjöldaverkbanns og hungurs hundraða þúsunda. Dýrmætast við þetta krappa ris og hnig byltingaröldunnar, er það sem varir, andleg áhrif hennar, stökkþróun öreiganna að viti og menningu.Það er varanleg trygging fyrir óstöðvandi framþróun þeirra í kjara- og stjórnmálabaráttu. En ekki nóg með það. Sjálft samband verkamanna og atvinnurekenda breytist algerlega, eftir allsherjarverkfallið í janúar og verkföllin þar á eftir 1905, er "húsbóndaregla" auðvaldsins í rauninni afnumin. Í stærstu verksmiðjum allra helstu iðnaðarsvæða hafa verkamannanefndir myndast einsog af sjálfu sér. Atvinnurekendur semja aðeins við þær, þær skera úr öllum deilum. Og enn eitt að lokum: Verkföllin sem virtust alger glundroði og byltingaraðgerðirnar sem virtust "óskipulegar" eftir janúarverkfallið, þau eru upphaf ákafs skipulagsstarfs. Frú Saga ullar hlæjandi að kerfisbundnum skriffinnunum langt í burtu, sem grimmúðugir verja hlið stéttarfélagasælu Þýskalands. Styrk samtök áttu að vera óhjákvæmileg forsenda þess að einhverntíma yrði reynt að gera allsherjarverkfall í Þýskalandi, þau þurfti því að víggirða einsog ósigranlegt virki. En í Rússlandi fæddust þessi samtök þvert á móti af fjöldaverkfalli: Varðmenn þýskra verkalýðsfélaga óttast það mest að í umróti byltingarinnar mölvist samtökin einsog dýrmætt postulín. En rússneska byltingin sýnir algera andstæðu þessa: úr umróti og stormi, eldi og glóð fjöldaverkfalla og götubardaga, rísa einsog Venus úr öldufroðunni: fersk, ung, öflug og lífsglöð verkalýðsfélög.
Hér er nú aftur eitt lítið dæmi, sem er einkennandi fyrir allt ríkið. Á öðru þingi verkalýðsfélaga Rússlands, sem var haldið í Pétursborg í febrúar 1906, sagði fulltrúi verkalýðsfélaga í Pétursborg í skýrslu um þróun þeirra:
"Þann 22. janúar 1905, sem skolaði Gapons-félaginu burt, urðu skil. Verkalýðsfjöldinn lærði af atburðunum að meta mikilvægi skipulagðra samtaka, og skildi, að hann einn gat skapað þessi samtök. Í beinum tengslum við janúarhreyfinguna verður til fyrsta verkalýðsfélagið í Pétursborg, félag bókprentara. Nefndin sem kosin var til að ákvarða taxtann, samdi lög félagsins og 19. júní varð verkalýðsfélagið til. Um svipað leyti var stofnað stéttarfélag skrifstofufólks og bókhaldara. Auk þessara félaga, sem voru nánast opinber (lögleg), urðu einnig til hálflögleg og ólögleg félög frá janúar til október 1905. Meðal hinna fyrrnefndu var félag starfsfólks í lyfjaverslunum. Af ólöglegum verkalýðsfélögum verður sérstaklega að nefna félag úrsmiða, en fyrsti fundur þess var leynilegur, haldinn 24. apríl. Allar tilraunir til að kalla saman almennan, opinberan fund, strönduðu á harðsvíraðri mótspyrnu lögreglunnar og atvinnurekenda, þ.e. verslunarráðs. Þessi ósigur kom ekki í veg fyrir tilveru verkalýðsfélagsins. Það hélt leynilega fundi 9. júní og 14. ágúst, auk stjórnarfunda. Félag klæðskera, kvenna og karla, var stofnað vorið 1905 á fundi 70 klæðskera úti í skógi. Eftir að rætt hafði verið um félagsstofnun var kosin nefnd til að semja félagslög. Allar tilraunir nefndarinnar til að tryggja verkalýðsfélaginu löglega tilveru, reyndust árangurslausar. Starf þess takmarkast við áróður og að fá inn félagsmenn á einstökum vinnustöðum. Ámóta örlög hlaut félag skósmiða. Í júlí var haldinn leynilegur næturfundur í skógi utanvið borgina. Meira en 100 skósmiðir komu saman, haldin var ræða um mikilvægi verkalýðsfélaga, sögu þeirra í Vestur-Evrópu og hlutverk í Rússlandi. Síðan var samþykkt að stofna verkalýðsfélag, 12 manns voru kjörnir í nefnd til að semja lög og boða almennan fund skósmiða. Lögin voru samin, en að sinni tókst hvorki að prenta þau né að kalla saman almennan fund".
Þetta voru fyrstu, erfiðu sporin. Síðan komu októberdagarnir, annað almennt allsherjarverkfall, yfirlýsing zarsins 30. Október9) og"stjórnarskrárskeiðið" stutta. Brennandi af ákafa köstuðu verkamenn sér út í bylgjur stjórnmálafrelsis til að nota það strax í skipulagsstarfinu. Auk daglegra stjórnmálafunda, umræðna og félagsstofnana, er strax farið að útbreiða verkaiýðshreyfinguna. Í október og nóvember verða til fjörutíu ný verkalýðsfélög í Pétursborg. Þar er stofnuð "miðnefnd", þ.e. samband verkalýðsfélaga, ýmis blöð verkalýðsfélaga fara að birtast, og frá því í nóvember kemur út sameiginlegt blað þeirra: Verkalýðsfélagið. Það sem hér á undan var sagt um Pétursborg, gildir í stórum dráttum um Moskvu og Odessa, Kiew og Nikolajew, Saratow og Woronesh, Samara og Nishni Nowgorod, um allar stórar borgir í Rússlandi, og enn frekar í Póllandi. Verkalýðsfélög einstakra borga tóku upp samband sín í milli, haldnar voru ráðstefnur. Lok "stjórnarskrártímans" og hvörfin til afturhalds í desember 1905 leiða til þess að um sinn lýkur opnu, víðtæku starfi verkalýðsfélaganna, þótt þau deyji ekki. Þau starfa sem leynileg samtök og heyja jafnframt opinbera kjarabaráttu. Til verður undarleg blanda af löglegu og ólöglegu ástandi faglegrar baráttu, þetta samsvarar mótsagnakenndum byltingaraðstæðunum. En mitt í baráttunni heldur skipulagsstarfið áfram af fullri nákvæmni, já af smámunasemi. Verkalýðsfélög Sósíalistaflokks Póllands og Litáens, t. d. sem áttu fimm fulltrúa 10. 000 fullgildra félagsmanna á síðasta flokksþingi ( í júni 1906), þau hafa frágengin félagslög, prentuð félagsskírteini, límmiða, o. s. frv. Og sömu bakarar, skósmiðir, málmsmiðir og bókaprentarar í Varsjá og Lódz, sem í júní 1905 stóðu á götuvígjunum og í desember biðu bara eftir vígorði frá Pétursborg, til að fara út í götubardaga, þeir finna sér tíma á milli allsherjarverkfalla, milli fangelsa og verkbanna, við umsátursástand ræða þeir félagslög sín nákvæmlega og af heilagri alvöru. Já, þessir götuvígjaliðar gærdagsins og morgundagsins hafa oftar en einu sinni hundskammað leiðtoga sína á fundum og hótað að ganga úr flokkinum, af því að það gekk ekki nógu fljótt að prenta þessi árans félagsskírteini verkalýðsfélaga í leynilegum prentsmiðjum, undir stöðugum lögregluofsóknum. Þessi ákafi og þessi alvara ríkja enn. Tvær fyrstu vikurnar í júlí 1906 urðu t.d. til í Jekaterinoslaw 15 ný verkalýðsfélög; 6 í Kostroma, mörg í Kiew, Poltawa, Smolensk, Tsjerkassy, Proskuroff - allt niður í minnstu krummaskuð. Á fundi sambands verkalýðsfélaga í Moskvu, 4. júní þ. á. , var ákveðið, eftir að einstakir fulltrúar höfðu flutt skýrslur sínar, "að verkalýðsfélögin ættu að aga félagsmenn sína, og halda þeim frá götuóeirðum, því nú væri ekki rétti tíminn fyrir fjöldaverkfall. Hæfi ríkisstjórnin ögranir, áttu verkalýðsfélögin að halda mannfjöldanum frá því að streyma út á götu. Loks ákvað sambandið að þegar eitt verkalýðsfélag er í verkfalli, skuli önnur halda sig frá kjarabaráttu. Kjarabaráttunni er nú oftast stýrt af verkalýðsfélögum10).
Kjarabaráttan mikla sem fylgdi janúarverkfallinu, stendur enn. Hún myndar breiðan bakgrunn byltingarinnar og hefur sífellt gagnvirk áhrif á pólitískan áróður og ytri atburði byltingarinnar. Af þessu kemur sífellt til einstakra sprenginga og almennra stóraðgerða öreigastéttarinnar. Af þessum grundvelli rísa bálin: 1. maí 1905 er haldið upp á dag verkalýðsins með dæmalausu algjöru allsherjarverkfalli í Varsjá, alveg friðsamlegar fjöldaaðgerðir sem lyktaði með blóðugum átökum varnarlauss mannfjöldans við hermenn. - Í júní dreifðu hermenn fjöldaútifundí í Lodz. Það leiddi til mótmælaaðgerða 100.000 verkamannavið jarðarför nokkurra fórnarlamba hermannaskrílsins, nýrra átaka við herinn og loks allsherjarverkfalls, sem þróaðist yfir í fyrstu götuvirkjabardagana í keisararíkinu þann 23., 24. og 25. Og í júní varð líka sprengingin í Odessahöfn: lítilfjörlegt atvik um borð í beitiskipinu Potjomkín varð að fyrstu miklu sjóliðauppreisn Svartahafsflotans. Hún kallaði þegar fram feiknalegt fjöldaverkfall í Odessa og Nikolajew. Ennfremur leiðir af þessu fjöldaverkfall og sjóliðauppreisn í Kronstadt, Libau og Wladiwostok.
Í október kemur hin stórfenglega tilraun með að koma á átta stunda vinnudegi í Pétursborg. Fulltrúaráð verkalýðsins ákveður að koma á átta stunda vinnudegi í Pétursborg á byltingarhátt. Það merkir að á tilteknum degi tilkynna allir verkamenn Pétursborgar atvinnurekendum sínum, að þeir vilji ekki vinna lengur en átta stundir á dag, og yfirgefa svo vinnusali þegar þær eru liðnar. Þessi hugmynd gefur tilefni til ákafs áróðurs. Öreigarnir taka henni með fögnuði og framkvæma, þótt það kosti miklar fórnir. Þannig kostaði t.d. átta stunda vinnudagur vefiðjufólk mikinn launamissi, því það hafði þangað til unnið ellefu tíma, og það í ákvæðisvinnu. En það tók þessu með glöðu geði. Innan viku ríkti átta stunda vinnudagur í öllum verksmiðjum og vinnustöðum Pétursborgar, og fögnuður verkalýðsins er takmarkalaus. Vinnuveitendur urðu klumsa, en brátt rísa þeir til varnar, alls staðar er hótað að loka verksmiðjunum. Hluti verkalýðsins gengur til samninga og nær ýmist fram tíu eða níu stunda vinnudegi. En úrvalssveitir öreiganna í Pétursborg, verkamenn í hinum miklu málmiðjum ríkisins, láta ekki bifast, og nú kemur verkbann sem setur 45.000 til 50.000 manns út á gaddinn í mánuð. Með þessum endalokum rann átta stunda hreyfingin yfir í almennt fjöldaverkfall í desember, en verkbannið mikla hindraði það að verulegu leyti.
En í október kom svarið við tillögum Bulygins um dúmuna11), annað, geysilegt fjöldaverkfall um allt keisararíkið. Nú áttu járnbrautamenn frumkvæðið. Þessar aðrar meginbyltingaraðgerðir öreigastéttarinnar eru nú allt annars eðlis en þær fyrstu, í janúar. Pólitísk vitund gegndi miklu meira hlutverki. Nú var reyndar líka næsta tilefni upphafs fjöldaverkfallsins lítilfjörlegt og að því er virtist tilviljunarkennt: járnbrautarmenn deildu við framkvæmdastjórnina um eftirlaunasjóð. En á eftir fylgdi almenn uppreisn iðnaðaröreiganna, og hún var borin uppi af skýrri pólitískri hugmynd. Forleikur janúarverkfallsins var bón til zarsins um stjórnmálafrelsi, en í októberverkfallinu var kjörorðið: Burt með stjórnarskrárskrípaleik zarsins: Og vegna umsvifalauss árangurs allsherjarverkfallsins, en hann var tilskipun zarsins 30. október, rennur hreyfingin nú ekki aftur inn á við, einsog í janúar, til að heyja efnahagslega stéttarbaráttu frá upphafi, heldur rennur hún nú út á við í að beita ákaft nýunnu stjórnmálafrelsi. Andófsaðgerðir, fundir, ný blöð, opinberar umræður og lokapunkturinn: blóðbað, fjöldamorð. Því fylgja ný fjöldaverkföll og andófsaðgerðir, þannig liðu nóvember og desember í stormi. Að frumkvæði sósíalista er í nóvember í Pétursborg fyrsta fjöldaverkfall sem mótmælaaðgerð gegn blóðbaðinu og gegn yfirlýsingu um neyðarástand í Líflandi og Póllandi. Ólgan eftir að menn vöknuðu hrottalega af stuttum stjórnarskrárdraumi, leiðir loks til þess í desember, að þriðja almenna fjöldaverkfallið brýst út um allt keisararíkið. Núna er gangur þess og lok allt öðruvísi en í fyrri tvö skiptin. Stjórnmálaaðgerðir breytast ekki lengur í kjarabaráttu eins og í janúar, en þær leiða heldur ekki til skjóts sigurs eins og í október. Hirðsnápar keisarans gera ekki fleiri tilraunir með raunverulegt stjórnmálafrelsi, og byltingaraðgerðirnar rekast því fyrsta sinni á fastan vegg efnislegs valds einveldisins, yfir alla línuna. Vegna rökréttrar innri þróunar atburðarásarinnar breytist fjöldaverkfallið nú í opinbera uppreisn, í vopnaða baráttu á götum og götuvirkjum í Moskvu. Desemberdagarnir í Moskvu eru hápunkturinn á rísandi öldu stjórnmálaaðgerða og hreyfingar fjöldaverkfalla. Þannig lauk fyrsta mikla starfsári byltingarinnar. Atburðirnir í Moskvu sýna líka í smáum mælikvarða rökrétta þróun og framtíð byltingarhreyfingarinnar í heild. Henni hlýtur að lykta með almennri, opinberri uppreisn. Hún getur hinsvegar fyrir sitt leyti ekki komið til nema eftir skóla heillar keðju af takmörkuðum uppreisnum. Þær eru undirbúningurinn, og einmitt þessvegna getur þeim ekki lyktað öðruvísi en með takmörkuðum ytri "ósigrum". Sé litið á hverja fyrir sig, munu þær því virðast "ótímabærar". Árið 1906 koma dúmukosningar og dúmumálið. Af öflugri byltingarvitund og glöggum skilningi á aðstæðum hunsar öreigastéttin allan stjórnarskrárskrípaleik zarsins, og frjálshyggjumenn taka aftur framsvið stjórnmálanna í nokkra mánuði. Ástand ársins 1904 virðist koma aftur. Tímaskeið ræðuhalda kemur í stað framkvæmda og öreigastéttin hverfur um tíma í skuggann, en er þá þeim mun ötulli við faglega baráttu og skipulagsstarf. Fjöldaverkföllin hverfa, en snarkandi flugeldum málskrúðs frjálslyndra er skotið upp, dag eftir dag. Að lokum skellur járntjaldið skyndilega niður, leikurunum er þeytt í burtu, af flugeldum frjálslyndra er ekkert eftir nema reykur og svæla. Tilraun miðstjórnar rússneska sósíalistaflokksins til að kalla fram fjórða allsherjarverkfallið um allt Rússland, til að krefjast þings og hefja aftur tímaskeið frjálslyndra ræðuhalda, mistekst algerlega. Pólitísk fjöldaverkföll ein saman hafa lokið hlutverki sínu, enn er ekki komið að því að fjöldaverkföll geti þróast yfir í almenna alþýðuuppreisn og í götubardaga. Þætti frjálslyndra er lokið, þáttur öreiganna enn ekki hafinn að nýju. Sviðið stendur autt að sinni.


IV

Hér að framan hefi ég reynt að draga upp sögu fjöldaverkfalla í Rússlandi í fáeinum dráttum. Fljótlegt yfirlit um þessa sögu sýnir þegar í stað mynd sem líkist ekki í minnsta drætti þeirri sem menn hafa gert sér, þegar fjöldaverkföll eru rædd í Þýskalandi. Í staðinn fyrir stífar innantómar útlínur þurra pólitískra "aðgerða", sem eru framkvæmdar að ákvörðun æðstu yfirstjórnar, eftir áætlun og af gætni, birtist okkur bráðlifandi lífvera af holdi og blóði, og hana er allsekki hægt að skera úr stórum ramma byltingarinnar, hún er tengd öllum hlutum byltingarinnar með þúsund æðum.
Fjöldaverkföll, einsog þau birtast í rússnesku byltingunni, eru svo breytileg fyrirbæri, að í þeim birtast öll skeið pólitískrar baráttu og faglegrar, öll stig byltingarinnar og stundir. Nothæfni þeirra, áhrifamáttur og uppsprettur breytast sífellt. Þau opna byltingunni skyndilega nýjar víddir, þegar hún virðist komin í ógöngur, og þau bregðast óðar þegar menn þykjast geta treyst alveg á þau. Ýmist flæða þau um allt ríkið sem breið hafalda eða greinast í feiknalegt net mjórra strauma, ýmist gjósa þau upp úr undirdjúpunum sem fersk uppspretta eða leka alveg niður í jörðina. Verkföll í stjórnmála- og kjarabaráttu, fjöldaverkföll og takmörkuð, verkföll sem andófsaðgerð og baráttuverkföll, allsherjarverkföll í einstökum greinum og í einstökum borgum, róleg launabarátta og orrustur á götum úti, barátta á götuvígjum allt rennur þetta hvað innan um annað, hlið við hlið, þvert á hvað annað, yfir hvað annað. Þetta er síhvikult, breytilegt haf fyrirbæra. Og hreyfilögmál þessara fyrirbæra verður ljóst: Það felst ekki í fjöldaverkföllunum sjálfum, ekki í tæknilegum sérkennum þeirra, heldur í afstæðum pólitískra og félagslegra afla byltingarinnar. Fjöldaverkföll eru aðeins form byltingarbaráttunnar, og hver breyting á afstæðum stríðandi afla, í þróun flokka og aðgreiningu stétta, á stöðu gagnbyltingaraflanna, allt hefur þetta þegar áhrif á verkfallsaðgerðir, eftir þúsund ósýnilegum leiðum, sem varla er hægt að fylgjast með. En þó stöðvast verkfallsaðgerðirnar varla eitt andartak. Form þeirra breytist aðeins, hve vítt þær ná, áhrif þeirra. Þær eru lifandi púls byltingarinnar, og jafnframt máttugasta hreyfiafl hennar. Í stuttu máli: fjöldaverkföll, einsog þau birtast í rússnesku byltingunni, eru ekki sniðug aðferð sem hugsuð var upp til að gera baráttu öreiganna öflugri, heldur eru þau hreyfingarháttur öreigafjöldans, birtingarmynd baráttu öreigastéttarinnar í byltingu. Af þessu má leiða nokkur almenn sjónarmið til að dæma um fjöldaverkföll.
1. Það er alrangt að hugsa sér fjöldaverkföll sem athöfn, einstaka framkvæmd. Fjöldaverkföll eru öllu heldur nafn, safnheiti á skeiði stéttabaráttunnar sem stendur árum saman, e.t.v. áratugum saman. Af öllum þeim óteljandi mismunandi fjöldaverkföllum, sem orðið hafa í Rússlandi undanfarin fjögur ár, á fyrirmyndin: einstök stutt athöfn, einvörðungu pólitísk, kölluð fram og lokið eftir áætlun og ásetningi, aðeins við eina tegund, og hana minniháttar: verkfall sem hreina andófsaðgerð. Á öllu fimm ára skeiðinu eru aðeins fáein verkföll af þessu tagi í Rússlandi, og vel að merkja eru þau venjulega takmörkuð við einstakar borgir. Þar má nefna árlegt allsherjarverkfall 1. maí í Varsjá og í Lódz - í Rússlandi sjálfu hefur vinna hingað til ekki verið lögð niður 1. maí svo heitið geti. Ennfremur er fjöldaverkfallið í Varsjá 11. september 1905 til að minnast Marcin Kasprzak, sem tekinn hafði verið af lífi, í nóvember 1905 í Pétursborg til að mótmæla því að neyðarástandi hafði verið lýst yfir í Póllandi og Líflandi, 22. janúar 1906 í Varsjá, Lodz, Czpstochowa og á kolasvæðinu við Dabrov og að hluta í nokkrum rússneskum borgum til að minnast þess að ár var liðið frá blóðbaðinu í Pétursborg; ennfremur var allsherjarverkfall í Tiflis í júlí 1906 til að lýsa yfir samstöðu með hermönnunum sem voru dæmdir af herrétti fyrir uppreisn, loks af samskonar tilefni í september í ár meðan herrétturinn sat í Reval. Öll önnur fjöldaverkföll og allsherjarverkföll, víðtæk eða takmörkuð, voru ekki andófsaðgerðir, heldur baráttuverkföll. Því voru þau mestmegnis sjálfsprottin, ævinlega af sérstöku, staðbundnu tilefni, eftir því sem vildi til hverju sinni, án áætlunar eða ásetnings. Þau uxu af frumafli upp í miklar hreyfingar, síðan kom ekki "skipulegt undanhald", heldur breyttust þau ýmist í kjarabaráttu eða götubardaga, eða duttu niður af sjálfum sér.
Í þessari almennu mynd eru hrein pólitisk andófsverkföll mjög þýðingarlítil - einstakir, litlir deplar undir afarmiklum flötum. Í tímarásinni má greina þennan drátt: Ólíkt baráttuverkföllunum einkennast andófsverkföllin í mestum mæli af flokksaga, meðvitaðri stjórn og pólitískum hugmyndum. Samkvæmt kerfinu mættu þau virðast æðsta og þroskaðasta form fjöldaverkfalla. En í rauninni eru þau mikilvægust í upphafi hreyfingarinnar. Þannig var t.d. algert verkfall í Varsjá, 1. maí 1905, afar þýðingarmikið fyrir öreigahreyfinguna í Póllandi, því þetta var í fyrsta skipti sem ákvörðun sósíalistaflokksins var framkvæmd á svo undraverðan hátt. Sömuleiðis hafði samúðarverkfallið í Pétursborg í nóvember sama ár mikil áhrif sem fyrsta dæmið um meðvitaðar, skipulagðar fjöldaaðgerðir í Rússlandi. Alveg á sama hátt verður "fjöldaverkfallstilraun" félaga okkar í Hamborg, 17. janúar 190612), sérlega mikilvæg í sögu komandi þýskra fjöldaverkfalla, sem fyrsta ferska tilraunin með svo umdeilt vopn. Einkum verður það vegna þess hve vel hún tókst, hve vel hún sýndi baráttuanda og baráttugleði verkalýðsins í Hamborg. Og þegar tímaskeið fjöldaverkfalla í Þýskalandi verður einu sinni hafið af alvöru, leiðir það jafnörugglega af sjálfu sér til þess að vinna verði í alvöru almennt lögð niður 1. maí. Hátíðahöldunum 1. maí ber eðlilega heiðurinn af því að verða fyrstu miklu andófsaðgerðirnar í fjöldabaráttunni. Í þessum skilningi á þessi "halta bikkja", einsog hátíðahöldin voru kölluð á þingi verkalýðsfélaganna í Köln, enn mikla framtíð og mikið hlutverk fyrir sér í stéttabaráttu öreiganna í Þýskalandi. En með þróun alvarlegrar byltingarbaráttu rénar mikilvægi slíks andófs ört. Þau atriði sem gerðu það hlutlægt mögulegt að skipuleggja andófsverkföll skv. fyrirfram gerðri áætlun og vígorðum flokkanna, voru vöxtur pólitískrar vitundar og skólunar öreigastéttarinnar. En einmitt sömu atriði útiloka nú þessháttar fjöldaverkföll; nú vill öreigastéttin í Rússlandi og sér í lagi hinn dugmesti framvörður fjöldans, ekkert af andófsverkföllum vita. Verkamenn eru ekkert upplagðir fyrir spaug lengur, og vilja nú bara hugsa um alvarlega baráttu með öllu því sem af henni leiðir. Þáttur andófsaðgerða skipti enn miklu máli í fyrsta mikla fjöldaverkfallinu, í janúar 1905, að vísu ekki að yfirlögðu ráði, heldur fremur í ómeðvituðu, sjálfsprottnu formi. Hinsvegar mistókst tilraun miðstjórnar rússneska sósíalistaflokksins að kalla fram fjöldaverkfall til að mótmæla upplausn þingsins. Ástæðan var m. a. eindregin andúð skólaðra öreiganna á veiklulegum hálfverkum og tómum sýningum.
2. Ef við nú hverfum frá þessari minniháttar tegund verkfalla, hreinum andófsaðgerðum, og lítum á baráttuverkföll, sem bera í rauninni uppi aðgerðir öreiga í Rússlandi núna, þá stingur það ennfremur í augun, að hér er ógerlegt að aðgreina stjórnmálabaráttu og efnahagslega. Einnig hér víkur veruleikinn mjög frá hinu fræðilega kerfi. Það er smásmuguleg hugmynd að fjöldaverkfall sem sé eingöngu pólitískt, sé þróaðasta og æðsta stig faglegra allsherjarverkfalla, og því beri að aðgreina það skarpt frá verkföllum kjarabaráttu. Þetta afsannast rækilega af reynslu rússnesku byltingarinnar. Þetta kemur ekki aðeins sögulega fram í því, allt frá fyrstu miklu launabaráttu vefiðjufólks í Pétursborg til síðasta mikla allsherjarverkfallsins í desember 1905, að fjöldaverkföllin breytast ómerkjanlega úr kjarabaráttu í stjórnmálabaráttu, svo að nær ógerlegt er að draga markalínu milli þeirra. Einnig má segja að hvert einstakt hinna miklu fjöldaverkfalla enduspegli í smáu almenna sögu rússneskra fjöldaverkfalla. Þau hófust á hreinni kjarabaráttu eða allavega takmörkuðum stéttarfélagsátökum, og fóru svo allan tröppuganginn upp í stjórnmálaaðgerðir. Hið mikla þrumuveður fjöldaverkfalla í Suður-Rússlandi 1902 og 1903 hófst, einsog við sáum, í Bakú vegna aðgerða gegn atvinnuleysingjum, í Rostow vegna launadeilu hjá járnbrautinni, í Tiflis úr baráttu búðarmanna fyrir styttri vinnutíma, í Odessa úr launabaráttu í einni, lítilli verksmiðju. Fjöldaverkfallið í janúar 1905 þróaðist uppúr innri átökum í Putiloffverksmiðjunum, októberverkfallið úr baráttu járnbrautarmanna fyrir eftirlaunasjóði, desemberverkfallið loks úr baráttu póst- og símamanna fyrir félagafrelsi. Þróun hreyfingarinnar í heild kemur ekki fram í því að upphafsstig kjarabaráttunnar falli brott, heldur miklu fremur í þeim hraða sem menn fara tröppurnar til pólitískra aðgerða, og í því hve langt fjöldaverkfallið gengur.
En hreyfingin í heild færist ekki bara frá kjarabaráttu til stjórnmálabaráttu, heldur líka öfugt. Eftir að hinar miklu pólitísku fjöldaaðgerðir hafa náð hámarki stjórnmálalega, breytast þær allar í urmul verkfalla kjarabaráttu. Og þetta á ekki einungis við um hvert einstakt hinna miklu fjöldaverkfalla, heldur líka byltinguna í heild. Eftir því sem stjórnmálabarátta verður útbreiddari, skýrari og öflugri, víkur kjarabarátta hreint ekki, heldur útbreiðist hún, skipuleggst og eflist í sama mæli fyrir sitt leyti. Fullkomin víxlverkan er á milli þessarar tvennskonar baráttu. Sérhvert nýtt áhlaup og nýr sigur í stjórnmálabaráttu verður öflugur hvati kjarabaráttu, því þetta víkkar í senn ytri möguleika hennar og hneigð verkamannanna til að bæta stöðu sina, eykur baráttuvilja þeirra. Eftir hverja freyðandi bylgju stjórnmálaaðgerða liggur frjóvgandi leir, og úr honum spretta óðar þúsund grös kjarabaráttu. Og öfugt. Stöðugt styrjaldarástand milli verkamanna og auðvaldsins í kjarabaráttu heldur uppi baráttuþrekinu í öllum hléum stjórnmálabaráttu, það myndar síferskt forðabúr stéttarmáttar öreiganna, ef svo mætti segja. Í það sækir stjórnmálabarátta mátt sinn æ að nýju. Óþrotleg kjarabarátta öreigalýðsins leiðir jafnframt hér og þar til einstakra, skarpra átaka, allar stundir, óvart springa út úr þeim stjórnmálaátök í mesta mæli.
Í stuttu máli sagt: Kjarabaráttan tengir miðpunkta stjórnmálabaráttu, en hún frjóvgar jarðveg kjarabaráttu, hvað eftir annað. Orsök og afleiðing skiptast á sætum öllum stundum. Þessvegna fer því fjarri að efnahagslegur og stjórnmálalegur þáttur tímaskeiðs fjöldaverkfalla aðgreinist skýrt eða útiloki jafnvel hver annan, einsog smásmuguleg fyrirmyndin gerir ráð fyrir. Öllu heldur tvinnast þessir þættir, þetta eru tvær hliðar á stéttabaráttu öreiganna í Rússlandi. Og eining þeirra er fjöldaverkföllin. Til að úthugsuð kenning nái fram "hreinu pólitísku fjöldaverkfalli", þarf hún að skera þvert á fjöldaverkfallið. En þegar svona er skorið, þá leiðir það einsog ævinlega á rannsóknarstofu, ekki til þekkingar á fyrirbærinu í lífi og starfi, heldur aðeins til dauða þess.
3. Loks sjáum við af atburðunum í Rússlandi að fjöldaverkföll eru óaðskiljanleg frá byltingunni. Saga rússneskra fjöldaverkfalla er saga rússnesku byltingarinnar. Heyri nú þýsku endurskoðunarsinnarnir okkar talað um "byltingu", þá hugsa þeir þegar til blóðbaðs, götubardaga, púðurs og blýs, og rökrétt niðurstaða verður: fjöldaverkföll leiða óhjákvæmilega til byltingar, þar af leiðandi megum við ekki gera þau. Vissulega sést í Rússlandi, að næstum hvert fjöldaverkfall leiðir loks til átaka við vopnaða verði stjórnskipanar zarsins, í þessu eru svokölluð pólitísk verkföll alveg eins og meiriháttar kjarabarátta. En byltingin er annað og meira en blóðbað. Ólíkt skoðun lögreglunnar sem sér byltinguna aðeins sem götuóeirðir og læti, þ.e. sem "óreiðu", lítur fræðilegur sósíalismi á byltinguna fyrst og fremst sem djúptækar innri umbyltingar á félagslegum afstæðum stétta. Og frá þessu sjónarmiði er líka allt annað samhengi milli byltingar og fjöldaverkfalla í Rússlandi, en kemur fram í þeirri lítilfjörlegu uppgötvun að fjöldaverkföllum lýkur venjulega með blóðbaði.
Við höfum hér að framan séð innra kerfi rússnesku fjöldaverkfallanna, sem byggist á sífelldri víxlverkan stjórnmálabaráttu og efnahagslegrar. En þessi víxlverkan ræðst einmitt af byltingarskeiðinu. Því einungis í rafmögnuðu lofti byltingartíma geta hver takmörkuð, lítilvæg átök launavinnu og auðmagns orðið að almennri sprengingu. Í Þýskalandi verða árlega og daglega hinir áköfustu, þjösnalegustu árekstrar milli verkamanna og atvinnurekenda, án þess að baráttan fari út fyrir mörk einstakrar greinar eða borgar, eða jafnvel verksmiðju. Árásir á skipulagða verkamenn eins og í Pétursborg, atvinnuleysi einsog í Bakú, launadeila einsog í Odessa, barátta fyrir félagafrelsi eins og í Moskvu, eru daglegt brauð í Þýskalandi. En í ekkert einasta skipti breiðist þessi barátta út í sameiginlegar aðgerðir stéttarinnar. Og jafnvel þegar hún breiðist út í einstök fjöldaverkföll, sem hafa tvímælalaust pólitískan blæ, jafnvel þá vekja þau ekki almennt þrumuveður. Sláandi sönnun þessa er allsherjarverkfall hollenskra járnbrautarmanna. Þótt það mætti mikilli samúð, blæddi því út þannig að öreigalýður landsins hreyfði sig ekki.
Á byltingarskeiði losnar hinsvegar um félagslegan grundvöll stéttasamfélagsins og múra þess, þetta færist stöðugt til. Aðeins þá geta sérhverjar stjórnmálaaðgerðir öreigastéttarinnar á fáeinum klukkustundum komið hreyfingu á þangað til ósnortna hluta verkalýðsstéttarinnar. Eðlilega brýst það umsvifalaust út í kjarabaráttustormi. Verkamenn sem vakna skyndilega við raflost stjórnmálaaðgerða, grípa í næstu anddrá umfram allt til þess sem næst liggur: til varnar gegn efnahagslegum þrældómi sínum. Stormasamar aðgerðir stjórnmálabaráttu koma þeim skyndilega til að finna fyrir því, dýpra en nokkurn hefði grunað, hve þungt hinir efnahagslegu hlekkir þrýsta þeim niður. Og á sama tíma og t.d. hin ákafasta stjórnmálabarátta í Þýskalandi, kosningabarátta eða þingleg barátta um tollamál, hefur varla greinanleg áhrif á hvernig launabaráttan fer fram, sem rekin er á sama tíma í Þýskalandi, né hve áköf hún verður, þá hafa sérhverjar stjórnmálaaðgerðir öreigastéttarinnar í Rússlandi umsvifalaust þau áhrif að svið kjarabaráttunnar víkkar og dýpkar.
Þannig skapar byltingin fyrst þær félagslegu aðstæður, sem gera það mögulegt að kjarabaráttu slái beint yfir í stjórnmálabaráttu og öfugt, en það kemur fram í fjöldaverkfalli. Og þegar lágkúran sér samband fjöldaverkfalla og byltingar aðeins í blóðugum götubardögum, endalokum fjöldaverkfalla, þá sýnir svolítið dýpri skoðun atburðanna í Rússlandi þveröfugt samhengi: í rauninni leiða ekki fjöldaverkföll til byltingar, heldur elur byltingin af sér fjöldaverkföll.
4. Það nægir að draga saman það sem hér er komið, til að skilja hvert er hlutverk meðvitaðrar forystu og frumkvæðis í fjöldaverkföllum. Fyrst fjöldaverkföll eru ekki einstakar athafnir, heldur heilt skeið stéttabaráttunnar, og þetta skeið er sama og byltingarskeið, þá er ljóst, að fjöldaverkföll er ekki hægt að kalla fram að vild, ekki heldur þótt ákvörðun um það komi frá æðstu yfirstjórn hins öflugasta sósíalistaflokks. Á meðan sósíalistar hafa það ekki í hendi sér að setja byltingar á svið eða aflýsa þeim að eigin mati, þá nægir ekki einu sinni hin mesta hrifning liðssveita sósíalista og óþolinmæði til að kalla fram raunverulegt skeið fjöldaverkfalla, lifandi, öfluga alþýðuhreyfingu. Á grundvelli ákveðinnar afstöðu flokksstjórnar og flokksaga sósíalísks verkalýðs má mætavel skipuleggja stuttar andófsaðgerðir svosem fjöldaverkfallið í Svíþjóð, eða nýverið í Austurríki14) eða þá í Hamborg 17. janúar. En það er sami munur á þessum andófsaðgerðum annarsvegar og raunverulegu skeiði byltingarsinnaðra fjöldaverkfalla hinsvegar, og er á flotaheimsóknum í fjarlægum höfnum þegar ástandið í alþjóðamálum er erfitt og svo hinsvegar sjóorrustu. Fjöldaverkfall sem borið er uppi af tómum aga og hrifningu, verður í besta tilviki stundarfrávik, dæmi um baráttuanda verkalýðsins. En síðan falla aðstæður aftur í hversdagsskorður. Vissulega falla fjöldaverkföll ekki heldur á byltingartímum beinlínis af himnum ofan.Verkamenn verða að gera þau á einn eða annan veg. Ákvarðanir verkalýðsins og einbeitni skipta þar máli og vissulega fellur frumkvæði og frekari forysta eðlilega í skaut hins skipulagða, upplýsta, sósíalíska kjarna öreigastéttarinnar. En þetta frumkvæði og þessi forysta fær svigrúm nær eingöngu hvað varðar einstakar aðgerðir, einstök verkföll; þegar byltingarástandið ríkir fyrir, og raunar oftast innan marka einstakrar borgar. Þannig hafa t.d. sósíalistar oft kvatt menn beinlínis til fjöldaverkfalls í Bakú, Varsjá, Lódz og Pétursborg, og það hefur borið árangur einsog við sáum. En þetta tekst miklu síður gagnvart almennum hreyfingum öreigastéttarinnar í heild. Ennfremur eru frumkvæði og meðvitaðri leiðsögn sett skýr mörk þar. Einmitt meðan byltingin stendur er afar erfitt fyrir stjórn öreigahreyfingar að sjá fyrir og reikna út hvaða tilefni og atriði geti leitt til sprengingar, og hver ekki. Einnig hér felst frumkvæði og stjórn ekki í því að skipa fyrir einsog manni dettur í hug, heldur í því að aðlaga sig sem allra best aðstæðum og vera í sem nánustu sambandi við hugarástand fjöldans. Einsog við sáum, eru sjálfsprottnar aðgerðir mjög mikilvægar í öllum rússneskum fjöldaverkföllum án undantekningar, hvort sem þær voru hreyfiafl eða hamla. En þetta er ekki af því að sósíalistaflokkurinn sé enn ungur eða veikburða í Rússlandi, heldur af því, að í hverri einustu athöfn baráttunnar hafa svo margir óyfirsjáanlegir þættir áhrif, efnahagslegir, pólitískir og félagslegir, almennir og staðbundnir, efnislegir og andlegir, að enga einustu athöfn er hægt að ákvarða og leysa eins og reikningsdæmi. Jafnvel þótt öreigastéttin, með sósíalista í broddi fylkingar, sé leiðandi í byltingunni, þá er byltingin ekki athafnir hennar á frjálsum vettvangi, heldur barátta við aðstæður, þar sem allur hinn félagslegi grundvöllur er sífellt að bresta, brotna og færast til. Í stuttu máli sagt, hlutur hins sjálfsprottna er svo yfirgnæfandi í Rússlandi, ekki af því að rússnesk öreigastétt sé "óskóluð", heldur af því að byltingar lúta ekki skólastjórn.
Hinsvegar sjáum við í Rússlandi, að byltingin sem gerir sósíalistum svo óskaplega erfitt að stjórna fjöldaverkföllum, er svo dyntótt að vera alltaf ýmist að slá sprotann úr höndum þeirra, eða stinga honum í hendur þeirra aftur, þessi sama bylting leysir í staðinn sjálf öll þau vandamál fjöldaverkfalla sem áttu að verða helsta viðfangsefni "stjórnarinnar" skv. fræðilegri fyrirmynd í umræðunum í Þýskalandi. En það er að annast "birgðasöfnun", "kostnað" og "fórnarlömbin". Vissulega leysir hún þau alls ekki einsog gert er á rólegri, leynilegri ráðstefnu æðstu stjórna verkalýðshreyfingarinnar, með blýant í hendi. "Lausn" allra þessara mála felst í því að byltingin kemur einmitt svo óskaplegum alþýðufjölda á sviðið, að það er alveg vonlaust fyrirtæki að ætla að reikna út og annast kostnað hreyfingarinnar, einsog kostnaður við málaferli er reiknaður út fyrir fram. Vissulega reyna leiðandi samtök í Rússlandi að styðja bein fórnarlömb baráttunnar eftir mætti. Þannig hlutu t.d. hin hughraustu fórnarlömb verkbannsins mikla í átta stunda herferðinni í Pétursborg stuðning vikum saman. En þegar litið er á hinar hrikalegu sviptingar byltingarinnar, þá eru allar þessar aðgerðir dropi í hafið. Á sömu stundu og raunverulegt skeið fjöldaverkfalla hefst fyrir alvöru, verða allir "kostnaðarútreikningar" að áætlunum um að þurrausa úthafið með vatnsglasi. Það þarf nefnilega heilt úthaf hræðilegs skorts og þjáninga til að kaupa öreigafjöldanum hverja byltingu. Og lausnin sem byltingarskeið finnur á þessum örðugleikum, sem virðast óyfirstíganlegir, felst í því að jafnframt leysir hún svo feiknalegan eldmóð úr læðingi hjá fjöldanum, að hann verður ónæmur fyrir hinum mestu þjáningum. Það er hvorki hægt að gera byltingu né fjöldaverkfall með hugarfari verkalýðsleiðtoga, sem fer ekki út í neinar 1. maí aðgerðir fyrr en búið er að tryggja honum fyrirfram nákvæmlega tiltekinn stuðning, verði hann fyrir refsiaðgerðum. En í stormi byltingarskeiðs breytast öreigar einmitt úr fyrirhyggjusömum fjölskyldufeðrum, sem heimta stuðning, í "byltingarrómantíkusa", sem eru jafnvel hin æðstu gæði, þ.e. lífið, lítils virði miðað við hugsjónir baráttunnar, hvað þá efnaleg vellíðan.
En sé stjórn fjöldaverkfalla, í merkingunni ákvörðun um tilurð þeirra, útreikningur og umsjón kostnaðar, mál byltingarskeiðsins sjálfs, þá hljóta sósíalistar og forysta þeirra að annast leiðsögn fjöldaverkfalla í allt öðrum skilningi. Í stað þess að brjóta heilann um tæknilega hlið fjöldaverkfalla, gangvirki þeirra, þá er það hlutverk sósíalista að taka að sér pólitíska forystu, einnig mitt á byltingarskeiði. Mikilvægasta hlutverk "forystunnar" á tímum fjöldaverkfalla er að veita baráttunni vígorð og stefnu, að móta aðferð stjórnmálabaráttu þannig, að á hverju skeiði og andartaki baráttunnar komi fram allt það afl sem öreigastéttin býr yfir, það afl sem þegar hefur verið leyst úr læðingi. Þetta afl þarf að koma fram í baráttuskipan flokksins, og einbeitni og skerpa baráttuaðferðar sósíalista má aldrei vera á lægra stigi en afstæður styrks segja raunverulega fyrir um; öllu heldur á hærra stigi. Og þessi forysta verður af sjálfri sér á vissan hátt tæknileg forysta. Samræmd og ákveðin, framsækin baráttuaðferð sósíalista vekur fjöldanum öryggiskennd, sjálfstraust og baráttulöngun. En reikul baráttuaðferð og veikluleg, sem byggist á því að vanmeta öreigastéttina, orkar lamandi á fjöldann og gerir hann ringlaðan. Í fyrra tilvikinu brjótast fjöldaverkföll út "sjálfkrafa" og alltaf "á réttum tíma". En í seinna tilvikinu verða jafnvel bein tilmæli forystunnar um að gera fjöldaverkföll, árangurslaus. Hvort tveggja þetta sannar rússneska byltingin rækilega.


V.

Nú mætti spyrja að hve miklu leyti allir þessir lærdómar, sem draga má af rússnesku byltingunni, eigi við Þýskaland. Félagslegar aðstæður og stjórnmálalegar, saga verkalýðshreyfingarinnar og staða eru gerólík í Þýskalandi og Rússlandi. Við fyrstu sýn mega líka ofanskráð innri lögmál rússneskra fjöldaverkfalla virðast vera sköpun rússneskra aðstæðna eingöngu, og að þau komi alls ekki til álita fyrir þýska öreigastétt. Í rússnesku byltingunni er mjög náið innra samhengi stjórnmálabaráttu og efnahagslegrar, eining þeirra kemur fram á skeiði fjöldaverkfalla. En leiðir það ekki einfaldlega af rússneska einveldinu? Í ríki þar sem öll form verkalýðshreyfingar og allar hræringar hennar eru bannaðar, þar sem einfaldasta verkfall er pólitískt afbrot, þar hlýtur þá öll kjarabarátta að verða pólitísk.
Þegar hinsvegar fyrstu umbrot pólitískrar byltingar leiddu til almenns uppgjörs rússnesks verkalýðs við atvinnurekendur, þá er það aftur einföld afleiðing þess, að rússneskir verkamenn stóðu þangað til á hinu lægsta afkomustigi, og höfðu eiginlega aldrei háð reglulega kjarabaráttu fyrir bættri stöðu sinni. Öreigastéttin rússneska þurfti á vissan hátt að vinna sig uppúr skítnum, engin furða þótt hún réðist í það af æskuþori, óðar en byltingin hafði borið fyrsta ferska andblæinn inní staðnað loft einveldisins. Og byltingarstormur rússnesku fjöldaverkfallanna, og að þau skuli aðallega vera sjálfsprottin, útrás frumafla, skýrist loks annarsvegar af pólitískri vanþróun Rússlands, af nauðsyninni á að steypa fyrst austrænu einræðinu, hinsvegar af skorti á skipulagningu rússneskrar öreigastéttar og skólun hennar. Í landi þar sem verkalýðsstéttin hefur 30 ára reynslu af stjórnmálalífi, sósíalistaflokk með 3 milljónir félaga og 11/4 milljón manna er í skipulögðum kjarnsveitum verkalýðsfélaganna, þar geta fjöldaverkföll ómögulega fengið þetta sama stormasama frumaflseðli eins og þau hafa í ríki á hálfgerðu villimannastigi, sem er núna fyrst að taka stökkið úr miðöldum inn í borgaralega skipan nýaldar. Þetta er almenn skoðun þeirra, sem vilja lesa þroskastig félagslegra aðstæðna lands úr orðalagi skrifaðra laga þess.
Athugum málin, eitt af öðru. Í fyrsta lagi er rangt að telja að kjarabaráttan í Rússlandi hefjist ekki fyrr en byltingin braust út. Í rauninni urðu verkföll sífellt algengari, í hinu eiginlega Rússlandi var launabarátta frá upphafi tíunda áratugsins, í hinum rússneska hluta Póllands meira að segja frá lokum níunda áratugsins. Loks unnu verkföll sér raunverulegan þegnrétt. Vissulega fylgdu þeim oft grófar hefndaraðgerðir lögreglunnar, en samt voru þau hversdagslegir viðburðir. T.d. var verulegur almennur verkfallssjóður til í Varsjá og Lódz þegar árið 1891, og um skamma hríð ól hrifningin af verkalýðsfélögum af sér á þessum árum í Póllandi meira að segja þær blekkingar "efnahagshyggju" sem herjuðu nokkrum árum síðar í Pétursborg og annars staðar í Rússlandi15).
Því er sú hugmynd mjög ýkt, að fyrir byltingu hafi öreigalýðurinn i Zarríkinu almennt verið á afkomustigi örsnauðra manna. Einmitt sá hluti verkamanna í stóriðnaði og stórborgum sem ákafastur og virkastur var i kjara- og stjórnmálabaráttu, stóð naumast mikið lægra, hvað efnalega afkomu varðaði, en samsvarandi hluti þýskrar öreigastéttar, og í mörgum starfsgreinum voru sömu laun í Rússlandi og Þýskalandi, hér og þar jafnvel hærri. Á vinnutíma mun heldur ekki vera verulegur munur á stórfyrirtækjum í þessum tveimur löndum. Þannig eru hugmyndirnar um efnislegan og menningarlegan þrældóm rússnesks verkalýðs mestmegnis úr lausu lofti gripnar. Við nokkra umhugsun mælir þegar sú staðreynd gegn þessum hugmyndum að þarna kom til byltingar og að öreigastéttin skaraði framúr í henni. Með örsnauðum mönnum verða ekki gerðar byltingar af þvílíkum stjórnmálaþroska og hugsanaskýrleika. Og framverðir baráttunnar, iðnverkalýður Pétursborgar og Varsjár, Moskvu og Odessa, standa miklu nær Vesturevrópumönnum, menningarlega og andlega, en þeir halda sem líta á borgaralegt þingræði og reglulega starfsemi verkalýðsfélaga sem hinn eina og ómissandi menningarskóla öreigastéttarinnar. Þróun nútímalegs stórauðvalds í Rússlandi og andleg áhrif sósíalista í hálfan annan áratug, en þeir hafa örvað kjarabaráttuna og leitt, hvort tveggja hefur valdið mikilli menningarþróun án ytri tryggingar borgaralegs réttarríkis.
En munurinn verður enn minni, ef við hinsvegar skoðum svolítið nánar raunverulega afkomu þýsks verkalýðs. Pólitísku verkföllin miklu í Rússlandi hrifu öreigastéttina vítt og breitt, frá fyrstu stundu, og steyptu henni í ákafa kjarabaráttu. En eru ekki í Þýskalandi koldimmir afkimar í stöðu verkalýðsins, sem vermandi ljós verkalýðsfélaga hefur lítt borist til enn, mjög stórir hópar sem enn hafa alls ekki reynt eða hefur mistekist að hefja sig með daglegri launabaráttu upp úr félagslegum þrældómi? Nefnum eymd námamanna. Bara hversdagslega, í svölu andrúmslofti þingræðiseinhæfni Þýskalands kemur launabarátta námamanna varla öðruvísi fram en í ægilegum sprengingum annað veifið, í dæmigerðum fjöldaverkföllum, sem brjótast út af frumafli. Sama gildir um önnur lönd, jafnvel um gósenland verkalýðsfélaga, England. Þetta sýnir einmitt, að andstæðurnar milli launavinnu og auðmagns eru hér of skarpar og miklar tilað hægt sé að mola þær niður í mynd rólegrar, takmarkaðrar baráttu verkalýðsfélaga, sem færi eftir áætlun. En þessi eymd námamanna og eldvirkur grundvöllur hennar, sem jafnvel á "eðlilegum" tímum myndar sérlega heiftúðugt veðravíti, ætti umsvifalaust að brjótast út í geysiharða baráttu, efnahagslega og félagslega, hvenær sem kemur til mikilla pólitískra fjöldaaðgerða verkalýðsstéttarinnar, við hvern sterkan kipp sem breytir tímabundnu jafnvægi hversdagsástands í félagsmálum. Nefnum ennfremur eymd vefiðjufólks. Launabaráttan, sem brýst út og geisar um Vogtland á svo sem tveggja ára fresti, bitur og oftast árangurslaus, gefur okkur veika hugmynd um af hvílíku afli mikill, samþjappaður fjöldi þræla samsteypts vefiðjuauðmagnsins myndi brjótast fram við öflugar og djarfar fjöldaaðgerðir þýskrar öreigastéttar. Lítum ennfremur á eymd verkafólksins sem framleiðir heima hjá sér, eymd fatasaumaranna, rafiðjufólksins. Allt eru þetta veðravíti þar sem geysileg kjarabarátta mun brjótast út við hverja breytingu á loftþrýstingi stjórnmála í Þýskalandi. Það er þeim mun öruggara því sjaldnar sem öreigastéttin tekur hér upp baráttu ella, á rólegum tímum, og því minni sem árangurinn verður af baráttu hennar hverju sinni, því þjösnalegar sem auðvaldið neyðir hana tilað snúa aftur í þrældóminn, gnístandi tönnum.
En nú er að líta á mjög stóra hópa öreiga, sem við "eðlilegan" gang atburða í Þýskalandi eru sviptir öllum möguleikum á rólegri kjarabaráttu fyrir að bæta stöðu sina, og á því að bindast samtökum í því skyni. Nefnum öðru fremur áberandi eymd járnbrautar- og póstmanna. Fyrir þessa ríkisstarfsmenn ríkja rússneskar aðstæður mitt í þingræðislegu réttarríkinu þýska. En vel að merkja, þetta eru rússneskar aðstæður eins og þær gátu aðeins verið fyrir byltinguna, meðan dýrð einveldisins stóð óhögguð. Þegar í októberverkfallinu mikla, 1905, stóðu rússneskir járnbrautarmenn fjallhátt yfir þýskum starfsbræðrum sínum, hvað varðaði efnahagslegt og félagslegt svigrúm, þótt enn væri formlegt einveldi í Rússlandi. Rússneskir járnbrautar- og póstmenn náðu samtakafrelsi í reynd með áhlaupi, og enda þótt um sinn rigni niður réttarhöldum og refsiaðgerðum, þá getur ekkert skert innri samheldni þeirra. Það sýndi hinsvegar algera vanþekkingu á sálarlífi að halda, eins og þýska afturhaldið gerir, að þessi hlýðni púlshross muni að eilífu einkenna þýska járnbrautar- og póstmenn, þarna sé það bjarg sem aldrei bifist. Þýskir verkalýðsleiðtogar hafa vanist ríkjandi ástandi í þeim mæli að þeir geta litið hjá þessari smán sem á varla sinn líka í Evrópu, og lýst yfir nokkurri ánægju yfir árangri verkalýðsbaráttu í Þýskalandi. En þegar iðnverkamenn rísa almennt upp, þá mun óhjákvæmilega brjótast fram uppsöfnuð djúp, dulin gremja einkennisklæddra ríkisþræla. Og þegar iðnverkalýðurinn, framvörður öreigalýðsins, beitir fjöldaverkföllum til að seilast eftir nýjum stjórnmálaréttindum eða til að verja forn, þá hlýtur hið mikla lið járnbrautar- og póstmanna eðlilega að minnast sinnar sérstöku smánar, og rísa loks til að frelsa sig undan þeim aukaskammti af rússnesku einveldi sem þeim hefur verið ætlaður sérstaklega í Þýskalandi. Hin smásmugulega hugmynd um að miklar alþýðuhreyfingar þróist eftir fyrirmynd og uppskrift, felur í sér að járnbrautarmenn þurfi að ná samtakarétti, til þess að yfirleitt "megi hugsa" til fjöldaverkfalls í Þýskalandi. En raunverulegur og eðlilegur gangur atburðanna getur aðeins verið þveröfugur: Samtakaréttur þýskra járnbrautar- og póstmanna getur aðeins skapast í öflugu, sjálfsprottnu fjöldaverkfalli. Og verkefnið sem er óleysanlegt við ríkjandi aðstæður í Þýskalandi, það mun skyndilega leysast við almennar stjórnmálaaðgerðir öreigafjöldans.
Og loks er það sem mest er og mikilvægast: eymd vinnufólksins. Ensk verkalýðsfélög eru eingöngu miðuð við iðnverkalýð. Það er skiljanlegt, svo sérstæður sem enskur þjóðarbúskapur er, þar sem landbúnaður skiptir litlu máli í efnahagslífinu í heild. Nái hinsvegar verkalýðssamband í Þýskalandi eingöngu til iðnverkalýðs, en sé lokað öllum hinum mikla her verkafólks í sveitum, þá er sama hversu glæsileg uppbygging þess er, það gefur aðeins veika mynd af hluta stöðu öreigastéttarinnar í heild. En aftur væri örlagarík blekking að halda að ástandið í sveitum sé óbreytanlegt og óhreyfanlegt. Óþreytandi upplýsingarstarf þýskra sósíalista, og enn fremur öll innri stéttastjórnmál Þýskalands eru sífellt að grafa undan ytri óvirkni sveitaverkalýðs. Við einhverjar miklar almennar stéttaaðgerðir þýskra iðnaðaröreiga, að hverju sem þær svo beinast, hlýtur uppnámið líka að grípa öreigalýðinn í sveitum. En þetta getur eðlilega ekki komið öðruvísi fram fyrst en í ákafri, almennri kjarabaráttu, í óskaplegum fjöldaverkföllum vinnufólks.
Þannig breytist mjög myndin af ætluðum efnahagslegum yfirburðum þýskrar öreigastéttar yfir rússneska, ef við lítum af töflunni um útbreiðslu verkalýðsfélaga í iðnaðar- og handverksgreinum, á þá miklu hluta öreigastéttarinnar sem standa alveg utan við baráttu verkalýðsfélaga. Einnig kemur til, að sérstakri efnahagsstöðu þeirra verði ekki þrýst inní þröngan ramma hversdagslegs skæruhernaðar verkalýðsfélaga. Þá sjáum við eitt geysistórt svið eftir annað, þar sem andstæður hafa skerpst til hins ítrasta, þar sem sprengiefni hefur haugast upp, þar sem afar mikið er um "rússneskt einveldi" af óduldasta tagi, og þar sem frumstæðasta efnahagslegt uppgjör við auðvaldið er ógert.
Við almennar pólitískar fjöldaaðgerða öreigastéttarinnar yrðu allir þessir gömlu reikningar óhjákvæmilega lagðir fyrir ríkjandi kerfi. Þótt búnar yrðu til einstakar andófsaðgerðir borgaröreiga, fjöldaverkfall framkvæmt af tómum aga, eftir sprota flokksstjórnar, þá gæti það vissulega látið breiðari hópa alþýðunnar kalda og ósnortna. En raunverulegar baráttuaðgerðir iðnaðaröreiga, öflugar og tillitslausar, til orðnar við byltingaraðstæður, hlytu örugglega að grípa neðri lög alþýðunnar, og einmitt allir þeir, sem standa utan við dægurbaráttu verkalýðsfélaga á rólegum, venjulegum tímum, hlytu að hrífast með í ákafa, almenna kjarabaráttu.
En snúum okkur aftur að skipulögðum framverði þýskra iðnaðaröreiga og lítum jafnframt á þau markmið sem rússneskur verkalýður heyr nú kjarabaráttu fyrir. Mér sýnist þá hreint ekki að þetta séu markmið sem þýsk verkalýðsfélög, eldri að árum en rússnesk, geti litið á sem útslitna barnsskó sína. Þannig er mikilvægasta, almenna krafan í rússnesku verkföllunum allt frá 22/1 1905, átta stunda vinnudagur. Það er alls ekki unninn áfangi fyrir þýska öreiga, heldur í langflestum tilvikum fjarlægur, fagur draumur. Sama gildir um baráttuna gegn "húsbóndavaldinu", um baráttuna fyrir að koma á verkamannanefndum í öllum verksmiðjum, fyrir að afnema ákvæðisvinnu og heimaframleiðslu í handverki, fyrir að sunnudagur verði allsstaðar hvíldardagur, fyrir viðurkenningu samtakaréttar. Já, nánar að gáð eru öll markmið kjarabaráttu rússneskrar öreigastéttar í byltingunni núna líka í fyllsta mæli á dagskrá fyrir þýska öreiga og snerta eintóma auma bletti lífs verkalýðsins.
En af þessu leiðir einkanlega, að hrein pólitísk fjöldaverkföll, sem menn tala umfram allt um, eru einnig í Þýskalandi bara innantómir fræðilegir uppdrættir. Hljótist fjöldaverkföll eðlilega af mikilli byltingarólgu, sem einbeitt stjórnmálabarátta verkalýðs í borgum, þá munu þau jafneðlilega breytast í heilt skeið frumvakinnar kjarabaráttu, alveg einsog í Rússlandi. Verkalýðsleiðtogar óttast að á skeiði ákafrar stjórnmálabaráttu, skeiði fjöldaverkfalla, yrði kjarabaráttu einfaldlega ýtt til hliðar og hún bæld niður. Sá ótti hvílir á hugmynd sem er alveg út í bláinn, byrjandahugmynd um gang hlutanna. Þvert á móti myndi byltingarskeið, einnig í Þýskalandi, breyta eðli verkalýðsbaráttu og magna hana svo að skæruhernaður verkalýðsfélaganna núna mun þá virðast barnaleikir. Og í þessu þrumuveðri kjarabaráttu, átökum frumafla, myndi hinsvegar einnig stjórnmálabarátta sækja stöðugt nýjan mátt, verða hrundið af stað, aftur og aftur. Víxlverkan stjórnmála- og kjarabaráttu, sem er innri driffjöður fjöldaverkfallanna í Rússlandi núna, og jafnframt svo að segja stýrivél byltingaraðgerða öreiganna, hlytist jafneðlilega af aðstæðunum í Þýskalandi líka.


VI.

Út frá þessu líta skipulagsmálin allt öðruvísi út, en talið hefur verið, hvað varðar fjöldaverkföll í Þýskalandi. Afstaða margra verkalýðsleiðtoga til málsins kemur venjulega öll fram í fullyrðingunni: "Við erum enn ekki nógu öflug til að leggja út í svo dirfskufulla þrekraun sem fjöldaverkföll eru". Nú er þetta sjónarmið að því leyti ótækt, að það er óleysanlegt verkefni að komast að því með rólegum talnareikningi, hvenær öreigastéttin "sé nógu sterk" fyrir einhverja baráttu. Fyrir 30 árum voru 50.000 manns í þýsku verkalýðsfélögunum Samkvæmt ofangreindum mælikvarða var greinilega ekki hægt að hugsa til fjöldaverkfalla við þá tölu. 15 árum síðar voru verkalýðsfélögin fjórum sinnum sterkari, og töldu 237.000 félagsmenn, En hefðu menn þá spurt núverandi verkalýðsleiðtoga, hvort skipulagning öreigastéttarinnar væri nógu þroskuð fyrir fjöldaverkföll, þá hefðu þeir áreiðanlega svarað, að því færi víðsfjarri og fyrst þyrfti að telja í milljónum þá sem skipulagðir væru í verkalýðsfélögum. Þeir eru nú komnir á aðra milljón, en skoðun leiðtoga þeirra er nákvæmlega hin sama, svona getur þetta greinilega gengið óendanlega. Þá er þegjandi gengið útfrá þeirri forsendu, að nokkurnveginn öll verkalýðsstétt Þýskalands, til síðasta karls og konu, þurfi að vera skipulögð áður en menn "séu nógu sterkir" til að voga sér út í fjöldaaðgerðir, sem myndu þá sennilega reynast "óþarfar" eftir gömlu formúlunni. En þessi kenning er hrein draumsýn af þeirri einföldu ástæðu, að hún er hrjáð af innri mótsögnum, fer vítahring. Verkalýðurinn á allur að vera skipulagður áður en hann getur farið út í nokkra beina stéttarbaráttu. En aðstæðurnar, skilyrði þróunar auðvaldsins og borgaralegs ríkis, hafa það í för með sér, að við "eðlilegan" gang atburðanna, án ákafrar stéttabaráttu, er einmitt alls ekki hægt að skipuleggja vissa þjóðfélagshópa. Og það á einmitt við um þá stærstu, mikilvægustu, þá sem lægst standa, þá hópa öreigastéttarinnar sem mest eru kúgaðir af auðvaldi og ríki. Það sést jafnvel í Englandi, að heil öld þrotlauss faglegs starfs hefur ekki náð lengra en að skipuleggja minnihluta hins betur setta hluta öreigastéttarinnar. Og þó hafa ekki orðið neinar "truflanir" á því starfi nema í upphafi, á tímum Chartistahreyfingarinnar, engar villur né freistingar "byltingarrómantíkur".
En hinsvegar geta verkalýðsfélögin ekki, fremur en önnur baráttusamtök öreigastéttarinnar, haldist við til lengdar nema einmitt í baráttu. Og þá er ekki bara átt við stríð froska og músa í stöðupolli tímaskeiðs borgaralegs þingræðis, heldur ákafa fjöldabaráttu byltingartíma. Stirðnuð, vélræn skoðun skriffinna er að baráttan sé bara afurð samtakanna, þegar þau hafi náð ákveðnu afli. Hin lifandi díalektíska þróun skapar hins vegar samtökin úr baráttunni. Við höfum þegar séð stórkostlegt dæmi þessa í Rússlandi, þar sem óskipulögð öreigastétt, að heita mátti, skapaði sér víðáttumikið net samtaka á frumstigi á hálfu öðru ári ákafrar byltingarbaráttu. Annað dæmi af þessu tagi sést á sögu þýsku verkalýðsfélaganna sjálfra. Árið 1878 voru félagsmenn þeirra 50.000. Samkvæmt kenningu núverandi verkalýðsforingja voru þessi samtök, einsog áður sagði, langt frá því "nógu sterk" til að taka upp ákafa, pólitíska baráttu. En þýsku verkalýðsfélögin tóku upp baráttu, svo veik sem þau þá voru, nefnilega baráttuna gegn sósíalistalögunum. Og þau reyndust ekki aðeins "nógu sterk" til að sigra í þeirri baráttu, heldur fimmfölduðu þau afl sitt í baráttunni; eftir fall sósíalistalaganna, 1891, voru félagsmenn þeirra 277.659. Aðferðin sem dugði verkalýðsfélögunum til sigurs í þessari baráttu samsvarar raunar ekki hugsjón friðsamlegrar, stöðugrar uppbyggingar að hætti býflugna. Í upphafi baráttunnar hrundu þau öll í rúst, en risu svo upp á næstu bylgju og endurfæddust. En þetta er einmitt hin sérstaka vaxtaraðferð stéttarsamtaka öreiganna: þau reynast í baráttu og eru sköpuð að nýju í baráttu.
Við nánari athugun þýskra aðstæðna og stöðu hinna ýmsu hluta verkalýðsins er ljóst, að einnig komandi skeið ákafrar, pólitískrar fjöldabaráttu myndi ekki leiða þýsk verkalýðsfélög til þess endanlega ósigurs, sem menn óttast, heldur þvert á móti opna víddir sem þá grunaði ekki, til stökkhraðrar útvíkkunar valdasviðs þeirra. En önnur hlið er á málinu. Hugmyndin um að ráðast í fjöldaverkföll, sem alvarlegar pólitískar stéttaraðgerðir, með skipulögðum verkalýð einum saman, er alveg vonlaus. Eigi fjöldaverkfall, eða öllu heldur, eigi fjöldaverkföllin, eigi fjöldabaráttan að bera árangur, þá verður hún að verða raunveruleg alþýðuhreyfing, þ.e. að draga breiðustu hópa öreigastéttarinnar með í baráttuna. Þegar í þingræðismynd hvílir máttur stéttabaráttu öreiganna ekki á hinum litla, skipulagða kjarna, heldur á hinu víða umhverfi hans, byltingarsinnuðum öreigum. Ætluðu sósíalistar að heyja kosningabaráttu sína með sínum tvöhundruð þúsund skipulögðu félagsmönnum einum saman, myndu þeir skjótt dæma sjálfa sig til áhrifaleysis. Og þótt sósíalistar hneigist til þess að draga nær allan kjósendaskara sinn inn í flokksfélögin, eftir því sem mögulegt er, þá sýnir þó 30 ára reynsla sósíalista að kjósendafjöldinn vex ekki við eflingu flokksvélarinnar, heldur þvert á móti, nýir hópar verkalýðsins,sem vinnast í kosningabaráttu hverju sinni, mynda akurinn fyrir sáðkorn skipulagningarinnar á eftir. Einnig hér leggja samtökin að vísu til baráttusveitir, en baráttan leggur í enn ríkara mæli til nýliðasveitir fyrir samtökin. Hið sama gildir nú greinilega um beinar pólitískar fjöldaaðgerðir í miklu ríkara mæli en um þingræðislega baráttu. Sósíalistar, skipulagður kjarni verkalýðsstéttarinnar eru vissulega forystusveit allrar vinnandi alþýðu. Pólitískur skýrleiki, máttur og eining verkalýðsstéttarinnar kemur beinlínis frá þessum samtökum. En samt má aldrei skilja stéttarhreyfingu öreiganna sem hreyfingu hins skipulagða minnihluta. Sérhver raunverulega mikil stéttabarátta verður að hvíla á stuðningi og þátttöku hins víðtækasta fjölda, og herstjórnarlist stéttabaráttu, sem reiknaði ekki með þessari þátttöku, sem miðaðist bara við fallega skipulagðar göngur hins litla hluta öreigastéttarinnar sem er í herbúðunum, væri fyrirfram dæmd til hraklegustu ófara.
Fjöldaverkföll, pólitísk fjöldabarátta, getur því ómögulega byggst á skipulögðum félagsmönnum einum í Þyskalandi, og á reglulegri "leiðsögn"flokksstjórnar. Það sem hér skiptir máli er aftur alveg eins og í Rússlandi ekki bara "agi", "skólun" og sem vandaðastar áætlanir um stuðning og kostnað, heldur miklu fremur raunverulega byltingarsinnaðar, eindregnar stéttaraðgerðir, sem geta unnið og hrifið sem víðtækasta hópa öreigafjöldans sem að vísu eru óskipulagðir, en byltingarsinnaðir í afstöðu og aðstæðum.
Ofmati og rangmati á hlutverki skipulagningar í stéttarbaráttu öreiganna fylgir venjulega að lítið er gert úr óskipulögðum öreigafjöldanum og stjórnmálaþroska hans. Á byltingarskeiði, í stormi mikilla hræringa stéttabaráttu koma fyrst í ljós hin miklu uppeldisáhrif örrar auðvaldsþróunar og áhrifa sósíalista á alþýðuna vítt og breitt. Á rólegum tímum gefa töflur samtaka og jafnvel kosningatölur einungis mjög veika hugmynd um þetta.
Við höfum séð að undanfarin tvö ár í Rússlandi hafa hin minnstu, takmörkuðu átök verkamanna við atvinnurekendur, hinn minnsti staðbundni yfirgangur stjórnarstofnana þegar leitt til mikilla, almennra aðgerða öreigastéttarinnar. Þetta sjá allir, og finnst eðlilegt, af því að það er einmitt "bylting" í Rússlandi. En hvað þýðir þetta? Það þýðir að stéttarvitund, stéttarkennd rússneskra öreiga er í mesta mæli lifandi, svo að þeir skynja hvert sérhagsmunamál einhvers lítils verkamannahóps beint sem almennt mál, sem almenna stéttarhagsmuni, og bregðast við því í heild sem elding. Í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Hollandi kalla hin áköfustu átök verkalýðsfélaga alls engar almennar aðgerðir verkalýðsstéttarinnar fram, ekki einu sinni hins skipulagða hluta hennar. En í Rússlandi vekur hið minnsta tilefni heilan storm. En það merkir ekkert annað, svo mótsagnakennt sem það má hljóma, en að nú er stéttarkenndin óendanlega miklu sterkari hjá hinni ungu, óskóluðu, illa upplýstu, rússnesku öreigastétt sem ennþá er tiltölulega illa skipulögð, en hjá skipulögðum, skóluðum og upplýstum verkalýð Þýskalands eða annarra vesturevrópskra landa. Og það er ekki nein sérstök dyggð hins "unga, óþreytta Austurs", samanborið við hið "lata Vestur", heldur er það einfaldlega afleiðing beinna byltingaraðgerða fjöldans. Með þýskum upplýstum verkamönnum er stéttarvitundin, sem sósíalistar hafa fært þeim, fræðileg, óvirk. Á því skeiði þegar borgaralegt þingræði ríkir, getur hún venjulega ekki komið fram í beinum fjöldaaðgerðum, hún er hugsuð samlagning fjögur hundruð hliðstæðra aðgerða kjördæmanna í kosningabaráttunni, hinna margvíslegu, takmörkuðu kjarabaráttuaðgerða og því um líkt. Í byltingunni, þegar fjöldinn kemur sjálfur fram á svið stjórnmálanna, verður stéttarvitundin raunhæf, virk. Eitt byltingarár gaf rússneska byltingin fjöldanum þá "skólun", sem 30 ára þingræðisleg og fagleg barátta gat ekki skapað þýskri öreigastétt. Vissulega hlýtur þessi lifandi, virka stéttartilfinning öreiganna að réna verulega, einnig í Rússlandi, eða öllu heldur verður hún dulin, óvirk, eftir að byltingarskeiðinu lýkur, og réttarríki borgaralegs þingræðis verður komið á. En jafnvíst er hitt, að þegar skeið öflugra, pólitískra aðgerða hefst í Þýskalandi, mun lifandi, starfshæf, byltingarsinnuð stéttarvitund grípa öreigastéttina, breitt og djúpt, og það þeim mun örar og öflugar, sem uppeldisstarf sósíalista þangað til hefur verið mikilfenglegra. Þetta uppeldisstarf, ásamt með tendrandi byltingaráhrifum þýskra stjórnmála í heild núna, mun birtast í því, að á raunverulegum byltingartímum flykkjast skyndilega um fána sósíalista allir þeir skarar, sem hingað til hafa verið ónæmir fyrir öllum skipulagningartilraunum sósíalista og verkalýðsfélaga, af pólitískri heimsku, að því er virtist. Sex mánaða byltingarskeið mun fullkomna það verk í skólun þessa nú óskipulagða fjölda, sem tíu ár almennra funda og dreifirita gátu ekki fullkomnað. Og þegar aðstæður í Þýskalandi hafa þroskast nægilega fyrir það skeið, þá verða þeir hópar, sem nú eru óskipulagðir og vanþróaðastir, eðlilega róttækastir í baráttu, óstýrilátastir, en ekki dragbítar. Komi til fjöldaverkfalla í Þýskalandi, þá verða það nær örugglega ekki hinir best skipulögðu, áreiðanlega ekki bókaprentarar, heldur hinir, sem lítt eða ekki eru skipulagðir, námumenn, vefiðjufólk, e.t.v. jafnvel vinnufólk, sem mestan munu sýna aðgerðamáttinn.
En þannig komumst við að sömu niðurstöðum um Þýskaland, hvað varðar eiginleg verkefni forystunnar, hlutverk sósíalista gagnvart fjöldaverkföllum, og kom út úr greiningunni á atburðarásinni í Rússlandi. Því sé horfið frá smásmugulegri hugmynd um tilbúið fjöldaverkfall sem andófsaðgerð, sem flokkur og verkalýðsfélög fyrirskipa hinum skipulagða minnihluta, snúum við okkur þess í stað að lifandi mynd raunverulegrar alþýðuhreyfingar, sem sprettur upp af frumafli, þegar andstæður stétta og stjórnmálaástandið skerpast til hins ítrasta; hreyfingar sem brýst út bæði í kjara- og stjórnmálabaráttu, í stormum fjöldabaráttu, fjöldaverkfalla þá getur hlutverk sósíalista greinilega ekki verið tæknilegur undirbúningur og stjórn fjöldaverkfalls, heldur felst það umfram allt í stjórnmálaleiðsögn allrar hreyfingarinnar.
Hreyfing sósíalista er upplýstasti framvörður öreigastéttarinnar, og sá sem mesta hefur stéttarvitundina. Hún getur ekki, og má ekki bíða með krosslagða arma í örlagatrú eftir því að "byltingaraðstæður " komi, eftir því að þessi sjálfsprottna alþýðuhreyfing falli af himnum ofan. Þvert á móti, eins og ævinlega verður hún að æða á undan þróun aðstæðna, reyna að hraða henni. En það getur hún ekki með því að gefa skyndilega frá sér "slagorðið" um fjöldaverkfall út í bláinn á réttum tíma og röngum, heldur umfram allt með því að gera öreigastéttinni vítt og breitt ljóst að þetta byltingarskeið hlýtur óhjákvæmilega að koma, útskýra hvaða innri félagslegir þættir leiða til þess, og hverjar verða pólitískar afleiðingar þess. Til að vinna sem mestan hluta öreigastéttarinnar fyrir pólitískar fjöldaaðgerðir sósíalista, og eigi sósíalistar, þegar fjöldahreyfing hefst, að ná raunverulegri forystu fyrir henni og halda, eigi þeir að drottna yfir allri hreyfingunni í pólitískum skilningi, þá verða þeir af fullkomnum skýrleika, samkvæmni og einbeitni að kunna að setja þýskum öreigalýð baráttuaðferð og markmið fyrir skeið komandi baráttu.


VII.

Við höfum séð að fjöldaverkföllin i Rússlandi voru ekki eitthvað sem sósíalistar bjuggu til með meðvitaðri baráttuaðferð, heldur voru þau eðlilegt, sögulegt fyrirbæri á grundvelli núverandi byltingar. En hvaða þættir leiddu til þessarar nýju birtingarmyndar byltingarinnar í Rússlandi?
Fyrsta verkefni rússnesku byltingarinnar er að afnema einveldið og koma á nútímalegu réttarríki borgaralegs þingræðis. Formlega er þetta nákvæmlega sama verkefni og beið marsbyltingarinnar í Þýskalandi [1848, þýð.] og byltingarinnar miklu í Frakklandi í lok 18. aldar. En aðstæðurnar, sögulegt umhverfi þessara formlega hliðstæðu byltinga, voru gerólíkar því sem nú er í Rússlandi. Úrslitum ræður, að milli þessara borgaralegu byltinga í vestri og núverandi borgaralegrar byltingar í austri, hefur liðið heilt skeið auðvaldsþróunar. Og raunar varð þessi þróun ekki aðeins í löndum Vestur-Evrópu, heldur greip hún einnig rússneska einveldið. Stóriðnaður og allt sem honum fylgir, nútímaleg aðgreining stétta, skarpar félagslegar andstæður, nútíma stórborgalíf og nútíma öreigastétt, er orðið ríkjandi mynd framleiðslunnar i Rússlandi, þ.e. ræður úrslitum um félagsleg þróun. En af því hafa hlotist þær þverstæðukenndu sögulegu aðstæður, að byltingin, sem er borgaraleg hvað varðar formleg verkefni, verður framkvæmd fyrst og fremst af stéttvísum öreigum nútímans. Og það verður í alþjóðlegu umhverfi, sem einkennist af hnignun borgaralegs lýðræðis. Nú er ekki borgarastéttin leiðandi byltingarafl einsog í fyrri byltingum vesturlanda, þegar öreigafjöldinn, samrunninn smáborgurum, gegndi herþjónustu hjá henni. Þessu er nú öfugt farið, stéttvísir öreigar eru leiðandi afl, driffjöður byltingarinnar, en stórborgararnir eru ýmist beinlínis gagnbyltingarsinnaðir, eða hálfvolgir frjálslyndir. Aðeins smáborgarastétt til sveita og menntamenn úr smáborgarastétt í borgum eru í einbeittri andstöðu, jafnvel byltingarsinnaðir. En rússnesk öreigastétt, sem hlýtur þvílíkt forystuhlutverk í borgaralegri byltingu, hún er sjálf laus við allar tálsýnir borgaralegs lýðræðis. Þess í stað leggur hún í baráttu með vel þroskaða vitund um sína eigin sérstöku stéttarhagsmuni, enda hafa andstæður auðmagns og vinnuafls skerpst mjög. Þetta mótsagnakennda samband kemur fram í því, að í þessari byltingu, sem formlega er borgaraleg, hverfa andstæður borgaralegs samfélags og einveldisins í skuggann af andstæðum öreigastéttar og borgaralegs samfélags. Því beinist barátta öreigastéttarinnar í senn og af sama afli gegn einveldinu og auðvaldsarðráni, og stefnuskrá byltingarbaráttunnar leggur sömu áherslu á að ná pólitísku frelsi og átta stunda vinnudegi, sem og mannsæmandi, efnislegri afkomu fyrir öreigastéttina. Þetta tvíeðli rússnesku byltingarinnar kemur fram í þessu innilega sambandi og víxlverkan kjara- og stjórnmálabaráttu, sem við höfum kynnst í atburðunum í Rússlandi og kemur einmitt fram í fjöldaverkföllum.
Í hinum fyrri borgaralegu byltingum önnuðust borgaralegir flokkar pólitíska skólun byltingarsinnaðs fjöldans og leiðsögn hans. Þar var líka um það eitt að ræða að steypa fyrri ríkisstjórn, og af þessum tveimur ástæðum var skammvinn orrusta á götuvígjum viðeigandi mynd byltingarbaráttunnar. Nú verður verkalýðsstéttin sjálf að upplýsa sig, safnast saman, og leiða sig í rás byltingarbaráttunnar. Einnig beinist byltingin jafnt gegn ríkisvaldinu gamla sem auðvaldsarðráninu. Því verður fjöldaverkfall eðlileg aðferð til að draga öreigastéttina sjálfa á sem breiðustum grundvelli í aðgerðir, til að gera hana byltingarsinnaða og skipuleggja hana. Jafnframt er það tæki til að grafa undan rikisvaldinu gamla og steypa því, og að reisa skorður við auðvaldsarðráninu. Iðnaðaröreigar í borgum eru nú lífið og sálin í rússnesku byltingunni. En til að fjöldinn geti framkvæmt einhverjar beinar pólitískar aðgerðir, þarf öreigastéttin fyrst að safnast saman í fjölda, og þá þarf hún öðru fremur að fara út úr verksmiðjum og vinnustöðum, námugöngum og málmbræðslum, verður að yfirvinna sundrungina og einangrunina á einstökum vinnustöðum, sem hún er dæmd til daglega undir oki auðvaldsins. Fjöldaverkföll eru því fyrsta, eðlilega, sjálfsagða mynd allra mikilla byltingaraðgerða öreigastéttarinnar, og því meir sem iðnaður verður ríkjandi mynd efnahagslífs samfélagsins, því þýðingarmeiri verður hlutur öreigalýðsins í byltingunni. Því meir sem andstæður vinnuafls og auðmagns þróast, þeim mun öflugri hljóta fjöldaverkföll að verða, og þeim mun fremur ráða þau úrslitum. Það sem áður var helsta form borgaralegra byltinga, orrusta um götuvirki, bein átök við vopnavald ríkisins, er í núverandi byltingu aðeins hápunktur, eitt stig í öllu ferli fjöldabaráttu öreiganna.
Og þannig hefur það orðið í nýju formi byltingarinnar, að stéttabaráttan siðmenntaðist og mildaðist, eins og hentistefnumenn meðal þýskra sósíalista, Bernstein, David o. fl. spáðu. Í anda smáborgaralegra lýðræðisblekkinga töldu þessir menn reyndar að stéttabaráttan mildaðist og siðmenntaðist á þann hátt, að hún yrði bundin við þingræðisbaráttu einvörðungu og byltingin úti á götum yrði einfaldlega afnumin. En sagan fann lausnina á nokkuð dýpri og fínlegri hátt: í tilkomu byltingarsinnaðra fjöldaverkfalla. Vissulega koma þau alls ekki í stað beinna götubardaga með öllum þeirra hrottaskap, gera þá ekki óþarfa, en þau gera þá bara að einu skeiði á löngum tíma pólitískrar baráttu. Jafnframt tengja þau við byltingarskeiðið geysilegt menningarstarf í nákvæmustu merkinu þess orðs: öll verkalýðsstéttin hefst upp efnislega og andlega, þegar villimannlegar myndir arðráns auðvaldsins "siðmenntast".
Þannig reynast fjöldaverkföll ekki vera sérstaklega rússnesk, afkvæmi einveldisins, heldur eru þau almenn mynd stéttabaráttu öreiganna, sem hlýst af núverandi stigi auðvaldsþróunar og stéttaafstæðna. Borgaralegu byltingarnar þrjár: franska byltingin mikla, marsbyltingin þýska og rússneska byltingin núna, mynda frá þessu sjónarmiði keðju stöðugrar þróunar, í henni speglast uppgangur auðvaldsskeiðsins og endalok. Í frönsku byltingunni miklu voru innri andstæður borgaralegs samfélags enn allsendis vanþróaðar. Um langt skeið veittu þær því feiknlegri baráttu rúm. Allar andstæðurnar, sem í hita byltingarinnar spruttu hratt upp og þroskuðust, geisuðu þá óhindraðar, af skefjalausri róttækni. Hálfri öld síðar, á miðri leið auðvaldsþróunar, braust út bylting þýskrar borgarastéttar. En hún stöðvast á miðri leið vegna andstæðra hagsmuna en jafnra krafta auðmagns og vinnuafls, hún er kæfð með málamiðlun lénskra aðilja og borgaralegra. Hún er þannig stytt niður í örstutt, vesældarlegt skeið, sem hljóðnar í miðju orði. Hálf öld enn, og rússneska byltingin núna stendur þar í sögulegri þróun, sem komið er yfir hjallann, yfir hámark auðvaldssamfélagsins, þar sem borgaraleg bylting verður ekki lengur kæfð í andstæðum borgarastéttar og öreigastéttar, heldur þróast þvert á móti til nýs, langs skeiðs feikilegrar samfélagsbaráttu. Í henni verða gamlir reikningar gerðir upp við einveldið, en það verða smámunir hjá hinum mörgu nýju reikningum, sem byltingin gerir sjálf. Byltingin núna afgreiðir því, ekki aðeins sérstakar aðstæður rússneska einveldisins, heldur jafnframt almennar niðurstöður alþjóðlegrar auðvaldsþróunar. Hún virðist því síður hinsti arftaki gömlu borgaralegu byltinganna en undanfari nýrrar keðju byltinga öreigastéttarinnar á vesturlöndum. Einmitt vegna þess hve óafsakanlega seint á ferðinni þetta vanþróaðasta land er með sína borgaralegu byltingu, sýnir það öreigastétt Þýskalands og þróuðustu auðvaldsríkja leiðir og aðferðir frekari stéttabaráttu.
Því virðist það alrangt, einnig fra þessari hlið, að horfa á rússnesku byltinguna úr fjarlægð sem fallega sýningu, eitthvað sérstaklega "rússneskt" og í mesta lagi að dást að hetjuskap baráttumannanna, þ. e. ytri sérkennum baráttunnar. Miklu mikilsverðara er að þýskir verkamenn læri að líta á rússnesku byltinguna sem sitt eigið mál, ekki aðeins í skilningi alþjóðlegrar stéttarsamstöðu með rússneskum öreigum, heldur umfram allt sem kafla í sögu sjálfra sín, félagslega og pólitískt. Þeir verkalýðsleiðtogar og þingmenn, sem álíta þýskan öreigalýð "of veikburða” og þýskar aðstæður ekki nógu þroskaðar fyrir byltingarlega fjöldabaráttu, hafa greinilega ekki hugmynd um, að mælikvarðinn á þroska stéttaaðstæðna í Þýskalandi og á mátt öreigastéttarinnar er ekki staðtölur um þýsk verkalýðsfélög, né kosningatölur, heldur atburðir rússnesku byltingarinnar. Alveg einsog þroski franskra stéttaandstæðna undir júlíkonungdæminu og júlíorrustunni í París speglaðist í marsbyltingunni þýsku, gangi hennar og óförum, þannig speglast nú þroski stéttaandstæðna Þýskalands í atburðum.rússnesku byltingarinnar og mætti. Skriffinnar þýskrar verkalýðshreyfingar draga framúr skúffum sínum sannanir fyrir mætti hennar og þroska, en sjá ekki að það sem þeir leita, stendur beint fyrir augum þeirra sem mikil, söguleg opinberun. Því sögulega séð er rússneska byltingin endurskin máttar og þroska alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar, þ.e.umfram allt þýskrar.
Það væri því alltof vesældarleg, afkáralega lítil útkoma úr rússnesku byltingunni, ef þýskur öreigalýður ætlaði bara að draga þá lærdóma af henni, sem félagar Frohme, Elm og aðrir vilja. Það er, ef þeir tækju ytri baráttuaðferð rússnesku byltingunnar, fjöldaverkföll, og geltu hana, svo að þau yrðu bara varafallbyssa, ef kosningaréttur til ríkisþings yrði afnuminn, þ.e. sem óvirkt varnartæki þingræðis. Verði kosningaréttur til ríkisþings tekinn af okkur, þá verjumst við. Það er augljós ákvörðun. En til að taka þá ákvörðun þarf ekki að setja sig í hetjulega stellingu Dantons, einsog t. d. félagi Elm gerði í Jena [á þingi þýska sósíalistaflokksins, 17. -23. sept. 1905. Þýð]. Því vörn þeirra litlu lýðræðisréttinda sem við nú þegar höfum, er ekki sú himinhrópandi nýjung, að hræðilegar fjöldafórnir rússnesku byltingarinnar hafi þurft til að örva menn til hennar. Slík vörn er öllu heldur einfaldasta, fyrsta skylda sérhvers andstöðuflokks. En stefna öreigalýðsins á byltingartímum má aldrei verða tóm vörn. Og þótt annarsvegar sé erfitt að segja fyrir um það með vissu, hvort afnám almenns kosningaréttar í Þýskalandi verði við aðstæður sem kalli skilyrðislaust fram fjöldaverkfall, þá er hinsvegar vist, að þegar skeið stormasamra fjöldaaðgerða hefst í Þýskalandi, geta sósíalistar ómögulega bundið baráttuaðferð sína við tóma þingræðisvörn. Það er utan við valdsvið sósíalista að ákveða fyrirfram af hvaða tilefni fjöldaverkföll muni brjótast út í Þýskalandi og hvenær, því það er utan valdsviðs þeirra að koma á sögulegum aðstæðum með ákvörðunum flokksþinga. En það sem þeir geta gert og verða að gera, er að skýra pólitíska stefnu þessarar baráttu, þegar hún hefst, og móta hana í einbeittri, samræmdri baráttuaðferð. Það er ekki hægt að halda sögulegum viðburðum í taumi með því að gera þeim uppskriftir, heldur með því að átta sig fyrirfram á líklegum afleiðingum þeirra, hverju reikna má með, og haga sínum eigin aðgerðum eftir því. Sú stjórnmálahætta sem mest ógn stendur nú af, sem þýsk verkalýðshreyfing hefur séð fram á árum saman, er valdrán afturhaldsins, sem myndi vilja ræna alþýðu manna mikilvægustu stjórnmálaréttindum hennar, kosningarétti til ríkisþings. Þótt þessi atburður yrði óskaplega áhrifamikill, er eins og ég sagði, ómögulegt að fullyrða, að eftir valdrán kæmi þegar í stað breið alþýðuhreyfing í formi fjöldaverkfalla, því nú þekkjum við ekki alla þá óteljandi þætti og aðstæður sem orka á ástandið við fjöldahreyfingu. En þegar litið er á hve magnaðar aðstæður eru nú í Þýskalandi, og hve margvísleg áhrif rússneska byltingin hefur alþjóðlega, og sem endurnýjað Rússland framtíðarinnar mun hafa, þá er ljóst, að sú kollsteypa sem yrði í þýsku stjórnmálalífi við það að kosningaréttur til ríkisþings yrði afnuminn, gæti ekki stöðvast við baráttu fyrir þessum kosningarétti eingöngu. Öllu heldur myndi slíkt valdrán fyrr eða síðar espa alþýðufjöldann til að brjótast fram af frumafli og gera afturhaldinu pólitisk reikningsskil; fyrir brauðokrið, fyrir að búa til hækkun á kjöti, fyrir að mergsjúga fólk með takmarkalausum fjáraustri í her og flota, fyrir spillingu nýlendustefnu, fyrir þjóðarsmán réttarhaldanna í Königsberg16), fyrir kyrrstöðuna í félagslegum umbótum, fyrir réttarskerðingu járnbrautarmanna, póstmanna og vinnufólks, fyrir háðuleg svik við námumenn, fyrir dóminn í Löbtau og allt hið stéttarlega réttarkerfi, fyrir hin grófu verkbönn – í stuttu máli, fyrir alla tuttugu ára kúgun sameinaðs drottinvalds júnkara austan Elbu og samsteypts stórauðvaldsins.
En sé steinninn einu sinni oltinn af stað, þá er ekki hægt að stöðva hann lengur, hvort sem sósíalistar vilja eða ekki. Andstæðingar fjöldaverkfalla eru vanir að segja að lærdómar rússnesku byltingarinnar og fordæmi gildi alls ekki fyrir Þýskaland, vegna þess, fyrst og fremst, að í Rússlandi þurfti fyrst að taka hið feiknalega stökk frá austrænu einræði til nútímalegs, borgaralegs réttarkerfis. Formleg fjarlægðin milli hinnar gömlu stjórnmálaskipanar og nýju á að vera fullnægjandi skýring á ofsa og afli byltingarinnar í Rússlandi. Í Þýskalandi séu nauðsynlegustu form réttarríkis og öryggi löngu fengin, því geti félagslegar andstæður ómögulega brotist út af þvílíku frumafli hér. Þeir sem þannig hugsa, gleyma því, að þegar opin pólitísk barátta brýst út í Þýskalandi, verður sögulega ákvarðað markmiðið einmitt þessvegna allt annað en nú er í Rússlandi. Einmitt vegna þess að borgaralegu réttarkerfi er löngu á komið í Þýskalandi, það hefur fengið tíma til að tæma möguleika sína gjörsamlega, og því er tekið að halla undan fæti, vegna þess að borgaralegt lýðræði og frjálshyggja höfðu tíma til að deyja út, einmitt þessvegna getur ekki lengur verið um borgaralega byltingu að ræða í Þýskalandi. Og á tímum beinnar, pólitískrar baráttu alþýðunnar í Þýskalandi getur hið sögulega nauðsynlega lokatakmark því einungis verið alræði öreiganna. En þetta verkefni er miklu fjarlægara ástandinu í Þýskalandi núna en borgaralegt réttarkerfi er austrænu einræði, og því er ekki hægt að leysa þetta verkefni í einni atrennu, heldur sömuleiðis aðeins á löngu skeiði óskaplegrar félagslegrar baráttu.
En eru ekki æpandi mótsagnir í þessum framtíðarhorfum, sem ég hefi hér dregið upp? Á mögulegum, komandi tímum pólitískra fjöldaaðgerða eiga annarsvegar fyrst og fremst vanþróuðustu hlutar þýskrar öreigastéttar, vinnufólk, járnbrautarmenn, póstþrælar, að byrja á því að fá samtakarétt, fyrst á að útrýma verstu vanköntunum á arðráninu. Hinsvegar á stjórnmálaverkefni þessa skeiðs að vera pólitísk valdataka öreigastéttarinnar. Annarsvegar er kjarabarátta verkalýðsfélaga fyrir nærtækustu hagsmunum, fyrir að bæta efnislega stöðu verkalýðsstéttarinnar, hinsvegar er endanlegt lokamarkmið sósialista! Vissulega eru þetta æpandi mótsagnir. En þessar mótsagnir eru ekki í röksemdafærslu minni, heldur í auðvaldsþróuninni sjálfri. Hún gengur ekki eftir snyrtilegri beinni línu, heldur í skörpum sveiflum, líkum eldingu. Rétt eins og mismunandi auðvaldslönd sýna hin sundurleitustu þróunarstig, þannig gildir sama um mismunandi hópa verkalýðsstéttar innan hvers lands. En sagan bíður ekki þolinmóð eftir því að vanþróuð lönd og hópar nái hinum þróuðustu, svo að allt geti síðan gengið skipulega fram í réttri röð. Fremstu hlutana leiðir hún til sprengingar um leið og aðstæður hafa þróast til þess, og í stormi byltingarskeiðsins næst á fáeinum dögum og mánuðum það sem vanrækt hafði verið, ójafnt jafnast, félagslegar framfarir í heild taka skyndilega stökk fram á við.
Í rússnesku byltingunni sameinuðust öll stig þróunar og hagsmuna mismunandi verkalýðshópa í stefnuskrá sósialista, og sérstök barátta ótal hópa í sameiginlegar miklar stéttaraðgerðir öreigalýðsins. Þannig verður þetta líka í Þýskalandi, þegar aðstæður hafa þróast nóg. Og verkefni sósíalista verður þá að miða baráttuaðferð sína ekki við vanþroskuðustu stig þróunarinnar heldur við hin þróuðustu.


VIII.

Mikilvægasta krafan sem uppfylla þarf fyrir baráttuskeiðið mikla sem bíður þýskrar öreigastéttar fyrr eða síðar, er - auk fullrar einbeitni og samræmdrar baráttuaðferðar - hin mesta baráttuhæfni. En þá þarf sem mesta einingu hins sósíalíska, leiðandi hluta öreigafjöldans. Hinsvegar hafa fyrstu veikburða tilraunirnar til að undirbúa miklar fjöldaaðgerðir afhjúpað verulegan ágalla hvað þetta varðar, samtök verkalýðshreyfingarinnar tvö, sósíalistaflokkurinn og verkalýðsfélögin, eru algerlega aðskilin og sjálfstæð.
Við nánari skoðun fjöldaverkfalla í Rússlandi, sem og aðstæðna í Þýskalandi sjálfu, verður ljóst, að meiriháttar fjöldaaðgerðir er ómögulegt að hugsa sér sem svokölluð pólitísk fjöldaverkföll, eigi þau ekki bara að takmarkast við einstaka andófsaðgerð, heldur verða að raunverulegum baráttuaðgerðum. Verkalýðsfélögin myndu eiga alveg jafnmikinn hlut og sósíalistar í slíkum aðgerðum í Þýskalandi. Ástæðan er ekki sú, eins og leiðtogar verkalýðsfélaganna ímynda sér, að sósíalistar ráði svo miklu smærri samtökum og geti því ekkert gert "án þeirra", þar verði 1¼ milljón félagsmanna verkalýðssamtakanna að koma til. Hér valda miklu dýpri ástæður, þ.e. að hverjar beinar fjöldaaðgerðir eða skeið beinnar fjöldabaráttu yrðu í senn stjórnmála- og kjarabarátta. Komi af einhverju tilefni einhverntímann til mikillar stjórnmálabaráttu í Þýskalandi, til fjöldaverkfalla, þá upphefst um leið skeið mikillar baráttu verkalýðsfélaga í Þýskalandi. Og þá munu atburðirnir ekkert spyrja um það, hvort verkalýðsforystan hafi veitt hreyfingunni blessun sína eða ekki. Standi hún hjá, eða reyni jafnvel að setja sig gegn hreyfingunni, þá leiðir það bara til þess að bylgja atburðanna skolar verkalýðsforystunni til hliðar17), og kjara- og stjórnmálabarátta fjöldans yrði háð án þeirra.
Svo sannarlega. Skiptingin í stjórnmálabaráttu og kjarabaráttu, og að hvor um sig skuli vera sjálfstæð, er eingöngu tilbúningur þingræðisskeiðsins, þótt hann sé skilyrtur af sögunni. Við rólegan,"eðlilegan" gang borgaralegs samfélags er kjarabaráttan sundruð, leyst upp í fjölda átaka í hverju fyrirtæki og í hverri grein fyrir sig. Hinsvegar er pólitísk barátta ekki háð af fjöldanum sjálfum í beinum aðgerðum, heldur samkvæmt formum borgaralegs ríkis eftir fulltrúakerfi, með þrýstingi á löggjafarvaldið. Um leið og skeið byltingarbaráttu hefst, þ. e. um leið og fjöldinn birtist á vígvellinum, lýkur sundrungu kjarabaráttunnar og óbeinu þingræðisformi pólitískrar baráttu. Í byltingarlegum fjöldaaðgerðum eru kjara- og stjórnmálabarátta eitt, og tilbúinn veggurinn milli verkalýðsfélaga og sósíalistaflokks, sem tveggja aðskilinna, alveg sjálfstæðra forma verkalýðshreyfingarinnar, sópast einfaldlega burtu. En það sem kemur svo augsýnilega fram í fjöldahreyfingu byltingarinnar, er líka raunveruleiki á þingræðisskeiðinu. Það er ekki til tvennskonar mismunandi stéttabarátta verkalýðsstéttarinnar, ein efnahagsleg og önnur pólitísk, heldur er aðeins til ein stéttabarátta, sem í senn beinist að því að takmarka auðvaldsarðránið innan borgaralegs samfélags og að afnámi arðránsins og þar með að afnema borgaralegt samfélag.
Enda þótt þessar tvær hliðar stéttabaráttunnar aðgreinist af tæknilegum ástæðum á þingræðisskeiðinu, þá eru þær þó alls ekki tvennar hliðstæðar aðgerðir, heldur einungis tvö skeið, tvö stig frelsisbaráttu verkalýðsstéttarinnar. Barátta verkalýðsfélaganna nær til nútímahagsmuna verkalýðshreyfingarinnar en sósíalísk barátta til framtíðarhagsmuna. Í Kommúnistaávarpinu segir: Gagnvart ýmsum sérhagsmunum hópa innan öreigalýðsins (þjóðlegum, staðbundnum) eru kommúnistar fulltrúar sameiginlegra hagsmuna öreigastéttarinnar í heild, og á mismunandi þróunarstigum stéttabaráttunnar eru þeir fulltrúar heildarhreyfingarinnar, þ.e. lokamarkmiðs frelsunar öreigastéttarinnar. Verkalýðsfélögin koma fram fyrir hönd einstakra hópa og tiltekins þroskastigs verkalýðshreyfingarinnar. Sósíalistaflokkurinn kemur fram fyrir hönd verkalýðsstéttarinnar og frelsunar hennar í heild. Samband verkalýðsfélaga við sósíalistaflokkinn er samkvæmt þessu samband hluta við heild, og það að kenningin um "jafnrétti" verkalýðsfélaga og sósíalistaflokks skuli fá svo mikinn hljómgrunn meðal verkalýðsforystunnar, sýnir verulegan misskilning á sjálfu eðli verkalýðsfélaga og á hlutverki þeirra í almennri frelsisbaráttu verkalýðsstéttarinnar.
Þessi kenning um hliðstæðar aðgerðir sósíalistaflokks og verkalýðsfélaga og um "jafnrétti" þeirra er þó ekki með öllu gripin úr lausu lofti, heldur á hún sér sögulegar rætur. Hún byggist nefnilega á blekkingu rólegra, "eðlilegra" tíma borgaralegs samfélags, um að pólitísk barátta sósíalista sé bundin við þingræðisbaráttu. En þingræðisleg barátta er til uppfyllingar baráttu verkalýðsfélaga og samsvarar henni, því hvort tveggja er barátta á grundvelli borgaralegrar samfélagsgerðar eingöngu. Þingræðisbarátta er í eðli sínu pólitískt umbótastarf, einsog verkalýðsfélög stunda efnahagslegt umbótastarf. Hún er pólitískt stundarstarf, hliðstætt efnahagslegu stundarstarfi verkalýðsfélaga. Og hvort tveggja er einungis skeið, visst þróunarstig í heild stéttarbaráttu öreiganna, en lokamarkmið hennar ná út yfir þingræðisbaráttu og baráttu verkalýðsfélaga í jafnríkum mæli. Þingræðisbarátta er gagnvart stefnu sósíalista líka einsog hluti gagnvart heild, rétt einsog barátta verkalýðsfélaga. En hreyfing sósíalista dregur bæði þingræðisbaráttu og baráttu verkalýðsfélaga saman í stéttarbaráttu sem beinist að afnámi borgaralegrar samfélagsskipunar.
Kenningin um "jafnrétti" verkalýðsfélaga og sósíalistaflokks er því ekki bara fræðilegur misskilningur, ekki tóm misgrip, heldur kemur hér fram hin alkunna hneigð hentistefnuarms sósíalistaflokksins til að skera pólitíska baráttu verkalýðsstéttarinnar raunverulega niður í þingræðisbaráttu, og breyta sósíalist flokknum úr byltingarflokki öreiganna í smáborgaralegan umbótaflokk18). Féllust sósíalistar á kenninguna um "jafnrétti" verkalýðsfélaga og flokksins, þá myndu þeir þar með óbeint og umyrðalaust fallast á þá breytingu, sem fulltrúar hentistefnumanna hafa svo lengi stefnt að.
Hinsvegar er slík breyting á afstæðum innan verkalýðshreyfingarinnar ómögulegri í Þýskalandi en í nokkru öðru landi. Samkvæmt fræðikenningunni eru verkalýðsfélög aðeins hluti hreyfingar sósialista. Einmitt í Þýskalandi kemur þetta fram á sígildan hátt í reynd, í lifandi starfi, og raunar á þrjá vegu. Í fyrsta lagi eru þýsk verkalýðsfélög beinlínis sköpunarverk sósialistaflokksins, hann annaðist fyrsta upphaf faglegrar hreyfingar í Þýskalandi, hann ól hana upp, hann sér henni enn fyrir leiðtogum og virkustu starfsmönnunum. Í öðru lagi eru þýsk verkalýðsfélög sköpunarverk sósíalista einnig í þeim skilningi að kenningar sósíalista eru sálin í starfi verkalýðsfélaga, þau bera af öllum borgaralegum og trúarlegum verkalýðsfélögum vegna hugmyndarinnar um stéttabaráttu. Hagnýtur árangur stéttarfélaganna og vald þeirra er afleiðing þess að starf þeirra er í skæru ljósi kenninga fræðilegs sósíalisma, það er hafið yfir lágkúrulega reynslustefnu. Styrkur "hagnýtrar stefnu" þýskra verkalýðsfélaga felst í skilningi þeirra á djúpstæðu samhengi auðvaldskerfisins, félagslega og efnahagslega. En þennan skilning eiga þau engu öðru að þakka en kenningum fræðilegs sósíalisma, sem starf þeirra byggist á. Í ljósi þessa er leitin eftir frelsun verkalýðsfélaga undan kenningum sósialista, leitin eftir annarri "faglegri fræðikenningu" en sósíalískri, ekkert annað en sjálfsmorðstilraun með tilliti til verkalýðsfélaganna sjálfra og framtíðar þeirra. Yrði faglegt starf losað frá kenningum fræðilegs sósíalisma, myndu þýsk verkalýðsfélög óðar glata öllum yfirburðum sínum gagnvart hverskyns borgaralegum verkalýðsfélögum. Þau myndu hrapa af því stigi sem þau hafa hingað til verið á, niður á svið stefnulausra þreifinga og hreinnar flatneskjulegrar reynslustefnu.
Í þriðja lagi loks eru verkalýðsfélögin einnig beinlínis, í tölulegum styrk, sköpunarverk hreyfingar sósíalista og áróðurs þeirra. En raunar er verkalýðsforystan smámsaman farin að gleyma þessu19). Ýmsir verkalýðsleiðtogar horfa gjarnan í sigurstolti og af nokkurri illkvittni, af tignarlegri hæð 11/4 milljóna félagsmanna niður á vesællega tæpa hálfa milljón flokksbundinna sósialista. Þeir rifja þá upp fyrir þeim síðarnefndu tímana fyrir 10 til 12 árum, þegar sósíalistar voru enn svartsýnir á þróun verkalýðsfélaga. Þeir taka þá alls ekki eftir því, að á vissan hátt er beint orsakasamband á milli þessara tveggja staðreynda: margir félagsmenn verkalýðsfélaga, fáir flokksbundir sósíalistar. Þúsundir og aftur þúsundir verkamanna ganga ekki í flokkinn, einmitt vegna þess að þeir ganga í verkalýðsfélögin. Samkvæmt kenningunni ættu allir verkamenn að vera skipulagðir tvöfalt: fara á tvennskonar fundi, borga tvennskonar félagsgjöld, lesa tvennskonar verkalýðsblöð, o. s. frv. En til þess að gera þetta, þarf gáfur á háu stigi og þvílíka hugsjónamennsku, að af hreinni skyldutilfinningu við verkalýðshreyfinguna komi menn sér ekki hjá daglegum fórnum í tíma og fé. Loks þarf þann brennandi áhuga á hreinu innra flokksstarfi, sem það eitt getur svalað að ganga í flokksfélag. Allt á þetta við um upplýstasta og gáfaðasta hluta sósíalísks verkalýðs í stórborgum. Þar er flokkslífið innihaldsríkt og lokkandi, þar eru kjör verkalýðsins betri en annars staðar. En hjá öllum þorra verkalýðs í stórborgum og úti á landi, í smáborgum og smábæjum er pólitískt líf á staðnum ósjálfstætt, tóm endurspeglun atburða í höfuðborginni. Því er flokkslífið þar líka fátæklegt og einhæft. Ennfremur eru kjör verkalýðsins þar oftast mjög vesæl, og vegna alls þessa er mjög erfitt að koma á tvöföldu skipulagi.
Fyrir verkalýðsfjöldann sem hlynntur er sósíalisma, leysist þá málið af sjálfu sér með því einmitt að ganga í viðeigandi verkalýðsfélag. Því það liggur í eðli kjarabaráttunnar að verkalýðurinn getur ekki gætt beinna hagsmuna sinna nema með því að ganga í starfsgreinarfélag. Gjaldið sem hann greiðir, oft með verulegum fórnum í lífskjörum, færir honum bein, augsýnileg gæði. En sósíaliska afstöðu sína getur hann sýnt í verki án þess að ganga í sérstakt flokksfélag, með því að kjósa í þingkosningum, með því að sækja almenna fundi sósíalista, fylgjast með ræðum sósíalista í fulltrúasamkomum, með því að lesa flokksblöðin. Menn beri t.d. saman kjósendafjölda sósíalista og áskrifendafjölda "Vorwärts" við tölu flokksfélaga í Berlín. Og það sem ræður úrslitum:Venjulegir verkamenn úr fjöldanum, hlynntir sósíalisma, hafa, sem einfaldir menn, engan skilning á hinni flóknu og fíngerðu tveggjasálakenningu verkalýðsforystunnar. Með því að ganga í verkalýðsfélagið finnst þeim þeir líka vera skipulagðir sem sósíalistar. Enda þótt sambönd verkalýðsfélaganna séu ekkimeð neitt flokksmerki, þá sjá verkamenn almennt í hverri borg og bæ, að í forystu verkalýðsfélags þeirra eru virkustu leiðtogarnir sömu starfsbræður og þeir þekkja einnig sem félaga, sem sósíalista í opinberu lífi. Ýmist eru þetta fulltrúar sósíalista á ríkisþingi, landsþingi eða bæjarstjórn, eða þá trúnaðarmenn sósíalista, forstöðumenn kjörnefnda, ritstjórar sósíalista, ritarar, eða bara ræðumenn og áróðursmenn. Í áróðri verkalýðsfélagssins heyra þeir ennfremur þau hugtök sem þeim eru orðin kær og skiljanleg, um auðvaldsarðrán, um stéttaafstæður, hugtök sem þeir þekkja líka úr áróðri sósíalista. Já, flestir ræðumenn á fundum verkalýðsfélaga, og hinir vinsælustu, þeir einu sem "koma lífi í tuskurnar", og draga að fundum verkalýðsfélaga, sem ella eru illa sóttir og syfjulegir, það eru einmitt kunnir sósíalistar.
Þannig orkar allt til þess, að venjulegum stéttvísum verkamönnum finnist, að með því að ganga í verkalýðsfélag, verði þeir einnig í verkamannaflokki sínum, skipuleggist sem sósíalistar. Og í þessu felst eiginlegt aðdráttarafl þýskra verkalýðsfélaga. Ekki með því að virðast hlutlaus, heldur með því að vera í rauninni sósíalísk, náðu Miðsambönd verkalýðsfélaganna núverandi styrk sínum. Í Þýskalandi lætur nú í rauninni enginn blekkjast af þessu yfirborðshlutleysi. Það er einfaldlega ómögulegt vegna þess að einnig eru til verkalýðsfélög borgaralegra flokka; kaþólsk, félög Hirsch-Dunkers o. s. frv. En það átti einmitt að vera rök fyrir nauðsyninni á þessu sýndarhlutleysi". Þegar þýskir verkamenn, sem eiga fullkomlega frjálst val um að ganga í kristilegt, kaþólskt, lútherskt eða frjálshyggjuverkalýðsfélag, velja ekkert af þessu, heldur hin"frjálsu verkalýðsfélög" eða ganga jafnvel í þau úr hinum, þá gera þeir það bara af því að í Miðsamböndunum sjá þeir eindregin samtök nútímastéttabaráttu, eða, sem kemur í sama stað niður í Þýskalandi, sósíalísk verkalýðsfélög. Í stuttu máli, "hlutleysið" sem verkalýðsforystunni virðist vera, er alls ekki til fyrir fjöldanum í verkalýðsfélögunum. Og í því liggur öll gæfa Miðsambanda verkalýðsfélaga. Yrði þetta sýndar"hlutleysi" nokkurn tímann í raun, ef verkalýðsfélög firrtust hreyfingu sósíalista og losnuðu £rá henni, sérstaklega ef þetta yrði í augum öreigafjöldans, þá myndu verkalýðsfélögin þegar missa alla yfirburði sína gagnvart borgaralegum samkeppnisaðiljum, og þarmeð einnig aðdráttarafl sitt, lífsglóðina. Þetta sannast sláandi á alkunnum staðreyndum. Það gæti nefnilega dregið menn frábærlega vel að verkalýðsfélögum, að þau virtust flokkspólitískt "hlutlaus" í landi þar sem sósíalistar njóta sjálfir einskis trausts hjá fjöldanum, þar sem það skaðar þá fremur en gagnar í augum fjöldans að vera verkamannasamtök, í stuttu máli, þar sem verkalýðsfélögin þurfa að vinna liðssveitir sínar úr alveg óupplýstum, borgaralegum alþýðufjölda.
Slíkt land var alla síðustu öld, og er enn að miklu leyti, England. En í Þýskalandi eru flokkshlutföllin allt önnur. Í landi þar sem sósíalistar eru öflugasti stjórnmálaflokkurinn, og meira en þriggja milljón manna öreigaher ber vitni um aðdráttarafl hans, þar er hlægilegt að tala um að sósíalisminn fæli fólk frá og hræði, og að baráttusamtök verkalýðsins verði að þykjast hlutlaus pólitískt. Það nægir að bera saman tölur um kjósendur sósíalista og félagsmenn í verkalýðsfélögum í Þýskalandi, til að hverju barni verði ljóst, að þýsk verkalýðsfélög sækja liðsmenn sína ekki í óupplýstan, borgaralega hugsandi múg, einsog í Englandi, heldur í öreigafjölda, sem sósíalistar hafa þegar vakið og unnið til fylgis við stéttabaráttu, þ. e. í kjósendafjölda sósíalista. Það fylgir kenningunni um "hlutleysi”, að verkalýðsforystan neitar því hneyksluð, að líta megi á verkalýðsfélögin sem undirbúningsskóla fyrir inngöngu í sósíalistaflokkinn. Þeim finnst móðgun að gera ráð fyrir þessu, en í rauninni er það hinn mesti heiður. En því miður eru þetta hugarórar hvað Þýskaland varðar, vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þessu er þveröfugt farið. Í Þýskalandi er sósíalistaflokkurinn undirbúningsskóli fyrir verkalýðsfélögin. Skipulagsstarf verkalýðsfélaganna er oftast mjög erfitt amstur. Því vekur það þá blekkingu hjá verkalýðsleiðtogum, að það séu þeir, sem dragi fyrstu plógförin um nýrækt öreigastéttarinnar, og kasti fyrsta sáðkorninu. En í rauninni er plógur sósíalista þegar búinn að gera jarðveginn ræktanlegan, og ekki nóg með það, sjálft sáðkorn verkalýðsfélaganna og sáðmaðurinn verða líka að vera "rauð", sósíalísk, til þess að uppskeran dafni. En ef við þá berum tölur um styrk verkalýðsfélaga saman við - ekki samtök sósíalista - heldur hið eina rétta, kjósendafjölda sósíalista, þá komumst við að niðurstöðu sem stingur töluvert í stúf við sigurgleði verkalýðsforystunnar. Þá kemur nefnilega í ljós, að hin "frjálsu verkalýðsfélög" ná nú aðeins til minnihluta stéttvíss verkalýðs í Þýskalandi. Því með þessari milljón félagsmanna sinna hafa þau ekki einu sinni náð helmingnum af þeim fjölda sem sósíalistar hafa unnið handa þeim fyrir stéttabaráttu.
Mikilvægasta ályktunin af þessum staðreyndum er, að sú fullkomna eining faglegrar og sósíalískrar verkalýðshreyfingar sem er skilyrðislaus nauðsyn í komandi fjöldabaráttu í Þýskalandi, er í rauninni til nú þegar. En það er hinn mikli fjöldi, sem í senn er grundvöllur sósíalista og verkalýðsfélaga. Í vitund hans eru báðar hliðar hreyfingarinnar samrunnar í andlega einingu. Við þessar aðstæður reynast þær andstæður, sem menn ætla vera milli sósíalista og verkalýðsfélaga, aðeins vera á milli sósíalista og efsta lags starfsmanna verkalýðsfélaga, en jafnframt eru þessar andstæður innan verkalýðsfélaganna milli hluta verkalýðsforystunnar og faglega skipulagðs öreigafjöldans Mikill vöxtur stéttarfélaga í Þýskalandi undanfarin 15 ár, sérstaklega á skeiði mikillar þenslu í efnahagslífinu, 1895-1900, leiddi af sjálfum sér til þess að þau urðu mjög sjálfstæð, baráttuaðferðir þeirra og forysta urðu sérhæfð og leiddi loks til þess að upp kom hrein og bein starfsmannastétt verkalýðsfélaganna. Allt er þetta fullkomlega skiljanlegt og eðlilegt, söguleg afleiðing af fimmtán ára vexti verkalýðsfélaganna, afleiðing efnahagslegs uppgangs og pólitísks logns í Þýskalandi. Þessi fyrirbæri eru sögulega nauðsynlegir ágallar, sérstaklega á það við um starfsmannastétt verkalýðsfélaganna. En díalektík þróunarinnar hefur það einmitt í för með sér, að þessi fyrirbæri, sem eru nauðsynleg til að efla vöxt verkalýðsfélaga, umbreytast þegar skipulagningin hefur náð vissu hámarki og aðstæður vissum þroska. Þá umhverfast þau í andstæðu sína, og verða frekari vexti fjötur um fót.
Verkalýðsleiðtogar sérhæfast í starfi, og eðlilega verður sjóndeildarhringur þeirra þröngur við sundraðar baráttuaðgerðir á rólegu skeiði. Þetta leiðir þá alltof auðveldlega til skriffinnsku og þröngsýni. En hvorttveggja kemur fram í heilu kerfi tilhneiginga, sem gætu orðið mjög örlagaríkar fyrir framtíð stéttarfélaganna sjálfra. Þar er umfram allt að nefna ofmat á skipulagi. Það breytist smámsaman úr tæki tilgangs - í tilgang í sjálfu sér, hin æðstu gæði, sem hagsmunir baráttunnar sjálfrar eru oft undirskipaðir. Þetta er skýringin á því að menn skuli lýsa sig opinberlega hvíldarþurfi, forðast meiri háttar áhættu og meintan háska fyrir tilveru verkalýðsfélaga, og að þeir vilja forðast óvissu meiriháttar fjöldaaðgerða. Ennfremur er ofmat á sjálfum hinum faglegu baráttuháttum, horfum þeirra og árangri. Verkalýðsleiðtogarnir eru sífellt uppteknir af smáskærum kjarabaráttunnar. Hlutverk þeirra er að fá verkalýðsfjöldann tilað trúa á mikið gildi hvaða smáárangurs í kjarabaráttunni sem vera skal, launahækkunar eða styttingu vinnutíma. Því leiðast þeir smám saman til að missa sjálfir yfirsýn yfir víðara samhengi og ástandið í heild. Aðeins þannig verður skiljanlegt að þýskir verkalýðsleiðtogar skuli t.d. benda með svo mikilli ánægju á árangur síðustu 15 ára, á milljón marka launahækkun, í stað þess þvert á móti að leggja áherslu á hina hlið málsins: hve geysilega afkomu öreiganna hefur samtímis verið þrýst niður, með brauðokri, með allri skatta- og tollastefnunni, með lóðaokrinu, sem hefur hækkað húsaleigu svo óskaplega, í stuttu máli, með öllum hlutlægum tilhneigingum borgaralegrar stefnu, sem gerir mikinn hluta árangurs þessara 15 ára faglegrar baráttu að blekkingu. Heildarsannindi sósíalista leggja ekki aðeins áherslu á samtímastarf og algera nauðsyn þess, heldur leggja þau jafnframt megináherslu á gagnrýni og takmarkanir þessa starfs. Úr þeim eru þannig sniðin hálfsannindi verkalýðsfélaganna, sem draga einungis fram hið jákvæða í dægurbaráttunni. Og þögnin um þær hlutlægu skorður, sem borgaraleg samfélagsskipan setur faglegri baráttu, verður loks að beinum fjandskap við alla fræðilega gagnrýni, sem bendir á þessar skorður í samhengi við lokatakmörk verkalýðshreyfingarinnar. Skilmálalaust smjaður, takmarkalaus bjartsýni eru gerð að skyldu hvers "vinar verkalýðshreyfingarinnar". En þar sem sósíalísk viðhorf felast einmitt í því að berjast gegn gagnrýnislausri faglegri bjartsýni, alveg eins og gegn gagnrýnislausri þingræðisbjartsýni, þá er loks snúist gegn sjálfri fræðikenningu sósíalismans; starfsmenn verkalýðsfélaganna þreifa fyrir sér eftir "nýrri fræðikenningu" sem gæti samræmst þörfum þeirra og viðhorfum þeirra, þ. e. eftir fræðikenningu, sem andstætt kenningum sósíalista, gerði ráð fyrir takmarkalausum efnahagslegum framgangi við faglega baráttu á grundvelli auðvaldsskipulagsins. Slík fræðikenning hefur raunar lengi verið til. Það eru kenningar Sombarts prófessors, sem voru settar fram í þeim yfirlýsta tilgangi að reka fleyg á milli verkalýðsfélaga og sósialista í Þýskalandi og laða verkalýðsfélögin yfir á borgaralegan grundvöll.
Í nánu samhengi við þessi fræðilegu umskipti hluta verkalýðsleiðtoganna eru umskipti í sambandi leiðtoganna við fjöldann. Einnig þetta er alveg eftir kenningum Sombarts. Í stað þess að staðbundnir félagsmenn verkalýðsfélaga reki áróður fyrir þeim á félagslegan hátt, ókeypis, af hreinni hugsjónamennsku, kemur skriffinnskuleg forysta starfsmanna verkalýðsfélaga, mestmegnis aðsendra, rekin á viðskiptalegan hátt. Þegar þræðir hreyfingarinnar dragast saman í höndum þeirra, verður það líka sérgrein starfs þeirra að vera dómbær um fagleg málefni. Félagarnir færast almennt niður í að vera ódómbær múgur, helsta skylda hans verður dyggð "agans", þ.e. óvirk hlýðni. Um sósíalistaflokkinn gengur niðrandi þjóðsaga um "einræði Bebels", en í rauninni ríkir þar hið mesta lýðræði, kosningar og félagslegur rekstur, flokksforystan er í rauninni aðeins framkvæmdaraðili. Andstætt þessu ríkir í verkalýðsfélögunum miklu fremur samband yfirvalda við undirgefinn múg20). Af þvílíku sambandi sprettur nefnilega sú stefna að banna alla fræðilega gagnrýni á horfur og möguleika faglegs starfs, með þeim rökum að hún feli í sér hættu fyrir hollustu alþýðufjöldans við verkalýðsfélögin. Þetta byggist á þeirri trú að verkalýðsfjöldinn verði því aðeins unninn í samtökin og haldið þar, að hann hafi blinda, barnalega trú á hjálpræði faglegrar baráttu. Áhrif sósíalista á fjöldann byggjast einmitt á skilningi hans á andstæðum ríkjandi skipanar, og á allri hinni flóknu þróun hennar, byggjast á gagnrýnni afstöðu fjöldans til allra stiga og skeiða stéttabaráttu sín sjálfs. Andstætt þessu byggjast áhrif og völd verkalýðsfélaga, samkvæmt þessari kenningu, á gagnrýnis- og dómgreinarleysi fjöldans. "Það verður að halda við trúnni hjá alþýðunni" - þetta er grundvallarregla margra starfsmanna verkalýðsfélaga, þegar þeir stimpla sérhverja gagnrýni á hlutlægan ófullkomleika verkalýðshreyfingarinnar sem tilræði við hreyfinguna sjálfa. Loks er það afleiðing af þessari sérhæfingu og skriffinnsku starfsmanna verkalýðsfélaga, hve sjálfstæð verkalýðsfélögin eru orðin og "hlutlaus" gagnvart sósíalistum. Ytra sjálfstæði faglegra samtaka hlaust af vexti þeirra sem eðlilegar aðstæður, það óx af tæknilegri verkaskiptingu milli pólitískra og faglegra baráttuaðferða. "Hlutleysi" þýskra verkalýðsfélaga var hinsvegar afleiðing afturhaldssamrar félagsmálalöggjafar prússnesk-þýska lögregluríkisins. Í tímans rás breyttist eðli beggja aðstæðna. Úr pólitísku "hlutleysi" verkalýðsfélaga, sem lögreglan þvingaði fram, hefur eftir á verið búin til fræðikenning um hlutleysi af frjálsum vilja, það sé nauðsynlegt vegna sjálfs eðlis faglegrar baráttu. Og tæknilegt sjálfstæði verkalýðsfélaga, sem átti að byggjast á hagnýtri verkaskiptingu sósíalískrar stéttabaráttu, sem er ein heild, því hefur verið breytt í sjálfstæði verkalýðsfélaga frá sósíalistum, skoðunum þeirra og forystu, í svokallað "jafnrétti" við sósíalista.
En þetta sýndarsjálfstæði og sýndarjafnrétti verkalýðsfélaga við sósíalistaflokkinn býr aðallega í starfsmönnum verkalýðsfélaga og nærist á stjórnkerfi félaganna. Á ytra borði virðast fullkomnar hliðstæður í því að til skuli vera heilt liðskerfi starfsmanna verkalýðsfélaga, óháð miðstjórn þeirra, mikill blaðakostur starfsgreina og loks þing verkalýðsfélaganna, við hlið stjórnkerfis sósíalista, flokksforystu, flokksblaða og flokksþinga. Þessi blekking um jafnrétti sósíalistaflokks og verkalýðsfélaga hefur m. a. leitt til þess óskapnaðar að á flokksþingum sósíalista og þingum verkalýðsfélaga er að hluta alveg hliðstæð dagskrá og um sama málið eru teknar mismunandi ákvarðanir, jafnvel beinlínis andstæðar. Úr verkaskiptingu milli flokksþinga sem annast almenna hagsmuni og verkefni verkalýðshreyfingarinnar, og þinga faglegu hreyfingarinnar, sem fást við miklu þrengra svið, sérstök málefni og hagsmunamál dægurbaráttu innan starfsgreina, hefur verið búinn til klofningur milli meintrar faglegrar lífsskoðunar og sósíalískrar gagnvart sömu almennu viðfangsefnum og hagsmunamálum verkalýðshreyfingarinnar. En þegar þetta óeðlilega ástand hefur einusinni verið skapað, þá hneigist það eðlilega til að þróast æ meir og skerpast. Núna, síðan þessi ósiður hliðstæðrar dagskrár á þingum verkalýðshreyfingarinnar og flokksins kom upp, er sjálf tilvera þinga verkalýðsfélaga orðin eðlilegt tilefni til að afmarka sig æ meir frá sósíalistum og fjarlægjast þá. Til að sýna sjálfum sér og öðrum eigið "sjálfstæði", til að sanna ekki að þau séu óþörf eða undirgefin með því að endurtaka bara afstöðu flokksþinga, hljóta þing verkalýðsfélaga ósjálfrátt að reyna að draga fram það sem aðskilur, það sem er "sérstaklega faglegt". Og eins og alkunna er, sitja einkum starfsmenn verkalýðsfélaga þessi þing. Á sama hátt leiðir nú sjálf tilvera hliðstæðrar, óháðrar miðstjórnar verkalýðsfélaga sálrænt til þess að reyna við hvert tækifæri að sýna eigið sjálfstæði gagnvart forystu sósíalista, líta á hvert samband við flokkinn um fram allt út frá því undir hvern hvað heyri.
Þannig myndaðist það einkennilega ástand að verkalýðshreyfingin, sem er alveg eitt og hið sama og hreyfing sósíalista neðst, í öreigafjöldanum, greinist skarpt frá henni efst, í yfirbyggingu stjórnunar, og rís gegn henni eins og óháð stórveldi. Þýsk verkalýðshreyfing fær þannig hið einkennilega form tvöfalds pýramída, grundvöllur og skrokkur eru ein heild, en tindarnir tveir greinast vítt að.
Það er ljóst af því sem á undan segir, hver er eina aðferðin til að ná eðlilega og með árangri þeirri traustu einingu þýskrar verkalýðshreyfingar sem er svo bráðnauðsynleg fyrir komandi pólitíska stéttabaráttu og fyrir frekari þróun verkalýðsfélaganna sjálfra. Ekkert væri vitlausara eða vonlausara en að ætla að ná þessari eftirsóttu einingu með samningaviðræðum um einstök mál verkalýðshreyfingarinnar milli flokksstjórnar sósíalista og miðstjórnar verkalýðsfélaganna, annað veifið eða reglulega. Einmitt efstu skipulagstindar beggja mynda verkalýðshreyfingarinnar fela í sér aðskilnað þeirra og sjálfstæði, einsog við sáum, jafnframt bera þeir uppi blekkinguna um "jafnrétti" og að sósíalistaflokkur og verkalýðshreyfing séu hliðstæður. Þetta á sérstaklega við um forystu verkalýðsfélaganna. Að vilja koma á einingu beggja hreyfinga með því að tengja flokksstjórnina og miðstjórn verkalýðsfélaganna, væri að reisa brú einmitt þar sem fjarlægðin er mest og erfiðast verður að komast yfir. Yrði svona samband flokks og verkalýðsfélaga að kerfi, samningar stórvelda í millum hverju sinni, þá væri það bara helgun á þeim óskapnaði sem þarf að útrýma, að sambandsríkjatengsl séu á milli heildar stéttarhreyfingar öreiganna annarsvegar og hluta þessarar hreyfingar hinsvegar. Diplómatísk tengsl sambandsríkja milli æðstu stjórna sósíalista og verkalýðsfélaga geta aðeins leitt til þess að sambandið verði æ meir framandi og kalt, geta aðeins orðið uppspretta sífelldra nýrra árekstra. Og það liggur í hlutarins eðli. Með sjálfu formi þessa sambands er nefnilega gefið, að hið mikla mál með samræmda einingu efnahagslegrar og pólitískrar hliðar á frelsisbaráttu öreiganna breytist í hið örlitla mál, að ”máttarvöld" í Lindenstrasse og Engel-Ufer verði góðir grannar. Þannig falla mikilfengleg sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í skuggann af lítilfjörlegu tilliti til valdastigs og móðgunargirni. Fyrsta tilraunin með diplómatískt samband máttarvaldanna, samningar flokksforystunnar við miðstjórn verkalýðsféiaganna um málefni fjöldaverkfalla, hafa þegar sannað nægilega hversu vonlaust þetta fyrirtæki er. Miðstjórnin lýsti því yfir nýlega, að oft hefði verið leitað eftir viðræðum á milli hennar og flokksstjórnarinnar, ýmist af hennar hálfu eða hinnar, og að þær hefðu líka farið fram. Hvað varðar gagnkvæma kurteisi, þá má þessi fullyrðing orka mjög róandi og hressandi á menn. En í ljósi komandi alvarlegra tíma hefur þýsk verkalýðshreyfing fulla ástæðu til grípa vandamál baráttu sinnar nokkuð dýpra, ýta þessum kínversku mandarínasiðum til hliðar, og leita lausnar vandans þar sem hún er gefin af aðstæðunum sjálfum. Ekki uppi, á tindum stjórna samtakanna og í bandalagi þeirra, heldur niðri, í skipulögðum öreigafjöldanum, felst tryggingin fyrir raunverulegri einingu verkalýðshreyfingarinnar. Í vitund þessarar milljónar manna í verkalýðsfélögunum eru flokkur og verkalýðsfélög í rauninni eitt, því þau eru sósíalísk frelsisbarátta öreigastéttarinnar í mismunandi formum. Og af því leiðir af sjálfu sér nauðsynina á að fjarlægja þessa firringu og árekstra, sem hlotist hafa milli sósíalista og verkalýðsfélaga. Samband þeirra sín í milli þarf að aðlaga vitund öreigafjöldans, þ. e. að fella verkalýðsfélögin aftur inn í raðir sósíalista. Með því kemur aðeins fram samruni raunverulegrar þróunar, upphaflega voru verkalýðsfélögin hluti sósíalískrar hreyfingar, síðan losnuðu þau frá henni vegna mikils vaxtar bæði verkalýðsfélaga og sósíalistaflokks. Á því skeiði var komandi skeið mikillar fjöldabaráttu öreiganna undirbúið, en þar með verður endursameining sósíalistaflokks og verkalýðsfélaga í beggja hag að nauðsyn.
Auðvitað er hér ekki um það að ræða að leysa stéttarfélögin öll upp í flokknum, heldur er um það að ræða að koma á því eðlilega sambandi milli forystu sósíalistaflokks og verkalýðsfélaga, milli flokksþinga og þinga verkalýðsfélaga sem samsvarar raunverulegu sambandi verkalýðshreyfingarinnar í heild og faglegs hluta hennar. Ekki getur farið hjá því að slík umskipti mæti ákafri andstöðu hluta starfsmanna verkalýðsfélaganna. En það er tími til kominn að sósíalískur verkalýðsfjöldinn læri að beita dómgreind sinni og starfshæfni, og sýna þannig að hann hafi náð nægilegum þroska fyrir þá tíma mikillar baráttu og mikilla verkefna þegar fjöldinn verður kórinn sem framkvæmir, en forystan aðeins "talandi persónur", þ. e. túlkar vilja fjöldans.
Verkalýðsfélögin eru ekki það sem fáeinar tylftir verkalýðsleiðtoga hafa ímyndað sér, svo auðskilin sem þessi sjálfsblekking þeirra er. Þau eru það sem lifir í vitund hins mikla fjölda öreiga sem unnist hafa fyrir stéttabaráttu. Í þeirri vitund er fagleg hreyfing hluti af hreyfingu sósíalista. "Og það sem hún er, það vogi hún sér líka að virðast".

Pétursborg 15. september 1906.


Athugasemdir.
2) Oft kallaður SR flokkurinn, stofnaður 1902. Hann byggðist á sveitafólki, afneitaði forystuhlutverki öreigastéttarinnar, vildi afmá keisaraveldið og koma á lýðræðislegasta lýðveldi með hryðjuverkum einstaklinga. Vinstrihluti hans tók þátt í stjórn Sovétríkjanna eftir byltinguna1917.
3) Innanríkisráðherra Prússlands 1881-8, efldi mjög lögregluríki Bismarcks.
4) Þetta samkomulag var gert 16/2 1906. Flokksforystan lofaði að reka ekki áróður fyrir fjöldaverkföllum og reyna að hindra uppkomu þeirra. Kæmi samt til þeirra, þurftu verkalýðsfélögin ekki að taka þátt í þeim.
5) Þing þýska sósíalistaflokksins, haldið í Jena, 17-23 . sept. 1905, ályktaði að fjöldaverkfall væri ein áhrifamesta baráttuaðferð verkalýðsstéttarinnar, en takmarkaði það fyrst og fremst við að verja kosningarétt til ríkisþings og félagafrelsi.
6) Eftir áætlun Subatoffs lögregluofursta reyndi ríkisstjórnin að leiða verkamenn frá byltingarbaráttu með stofnun löglegra verkalýðsfélaga, undir eftirliti lögreglunnar, 1901-3.
7) Ég sleppi hér jafnan upptalningu fyrirtækjanna. Þýð.
8) á þýsku: "industrieller konstitutionalismus." Þýð.
9) Þá fékk almenningur borgaraleg réttindi, dúman löggjafarvald og fleiri fengu kosningarétt til hennar.
10) Neðanmáls er hér mikil upptalning RL á verkföllum fyrrihluta júní1906. Þau beindust einkum að styttingu vinnutíma, hvíld á sunnudögum og launahækkun. Oftast urðu þetta allsherjarverkföll (ýmist allar greinar í senn eða í keðju, hver eftir aðra) og flest urðu sigursæl.
11) Þ.e. að dúman yrði einungis ráðgefandi þing og kosningaréttur til hennar mjög takmarkaður.
12) Þá lögðu 80.000 verkamenn niður vinnu síðdegis til að berjast með mótmælagöngum og -fundum gegn takmörkunum á kosningarétti til borgarstjórnar.
13) Það hófst 6/4 1903 og beindist gegn stjórnarfrumvarpi um að verkfallsmönnum skyldi refsað með langri fangelsisvist. 10/4 ákvað varnarnefnd verkalýðsfélaganna að hætta verkfallinu eftir að þingið hafði samþykkt frumvarpið.
14) Í Svíþjóð voru um 116.000 verkamenn í pólitísku verkfalli 15. -17.maí 1902, til að krefjast endurbóta á kosningarétti. Verkfallinu var hætt, þegar báðar deildir þingsins samþykktu áskorun á ríkisstjórn að bera fram nýtt frumvarp um kosningarétt fyrir 1904. Í Austurríska keisaradæminu voru að frumkvæði sósíalista fjöldaverkföll og fjöldaaðgerðir til að krefjast almenns kosningaréttar í okt. - des. 1905.
15) Það er því rangt farið með staðreyndir, þegar félagi Roland-Holst segir í formála rússneskrar útgáfu bókar sinnar um fjöldaverkföll: "Raunar kunni öreigastéttin [í Rússlandi, RL] tökin á fjöldaverkföllum nærri því frá upphafi stóriðju, af þeirri einföldu ástæðu að takmörkuð verkföll reyndust ómöguleg undir pólitískum þrýstingi einveldisins." (Neue Zeit, 190ð, nr. 33). Öllu heldur var þetta þveröfugt. Enda sagði frummælandi alþýðusambands Pétursborgar á annarri ráðstefnu rússneskra verkalýðsfélaga, í febrúar 1906, í upphafi ræðu sinnar: "Eins og sú ráðstefna er skipuð, sem ég sé hér fyrir mér, þarf ég ekki að benda á að verkalýðshreyfing okkar reis hreint ekki upp af frjálslyndisskeiði Swiatopolk-Mirski fursta [árið 1904, RL], eða frá 22, janúar, einsog margir fullyrða. Fagleg hreyfing hefur miklu dýpri rætur, hún er órjúfanlega tengd allri fortíð verkalýðshreyfingar okkar. Verkalýðsfélög okkar eru aðeins ný skipulagsform til að leiða þá kjarabaráttu sem rússneskur öreigalýður hefur háð áratugum saman. Án þess að fara of langt út í söguna er óhætt að segja að kjarabarátta verkalýðsins í Pétursborg færist meir eða minna í skipulagt form með hinum eftirminnilegu verkföllum áranna 1896 og 1897. Leiðsögn þessarar baráttu er vel samhæfð við leiðsögn pólitískrar baráttu í höndum þeirra sósíalísku samtaka sem hétu Félagið í Pétursborg til að berjast fyrir frelsun verklýðsstéttarinnar. Eftir stofnþingið í mars 1898 breyttist það í Pétursborgardeild rússneska sósíalistaflokksins. Komið var upp flóknu kerfi samtaka í verksmiðjum, hverfum og útborgum, sem tengir miðstjórnina verkalýðsfjöldanum með ótal þráðum, og gerir henni kleyft að bregðast við öllum þörfum verkalýðsins með dreifiritum. Fundin voru færi á að styðja verkföll og leiða. " RL.
16) gegn þýskum sósíalistum 12. -25. jú lí 1904, fyrir að flytja til Rússlands rit andstæð zarnum.
17) sl. í 2. útg.: rétt eins og flokksforystunni í hliðstæðu tilviki.
18) Venjulega er því neitað, að slík hneigð sé til innan þýska sósíalistaflokksins. Því verður að fagna því, hve opinskátt endurskoðunarsinnar settu nýlega fram eiginleg markmið sín og óskir. Á flokksfundi í Mainz 10/9 þ.á. var samþykkt eftirfarandi tillaga dr. Davids: "Í ljósi þess að sósíalistaflokkurinn skilur orðið "bylting" ekki sem kollvörpun stjórnvalda með ofbeldi, heldur sem friðsamlega þróun, þ. e. að smám saman verði komið á nýrri grundvallarreglu efnahagslífs, hafnar opinber flokksfundur í Mainz hverskyns "byltingarrómantík".
Fundurinn álítur að pólitísk valdataka sé ekkert annað en að vinna meirihluta fólksins til fylgis við hugmyndir sósíalista og kröfur. En slíkur sigur verður ekki unninn með ofbeldi, heldur aðeins með því að umbylta höfðum manna með andlegum áróðri og hagnýtu endurbótastarfi á öllum sviðum stjórnmála-, efnahags- og félagslífs.
Sannfærður umað hreyfing sósíalista dafni miklu betur á löglegum leiðum en ólöglegum, við kollvörpun, hafnar fundurinn "beinum fjöldaaðgerðum" sem grundvallarreglu í baráttuaðferð, og heldur fast við reglu þingræðislegra umbóta, þ. e. hann óskar þess að flokkurinn reyni enn sem fyrr af alvöru að ná markmiðum okkar smám saman með löggjöf og lífrænni þróun. Raunar er grundvallarforsenda þessarar baráttuaðferðar endurbóta, að möguleikar eignalausrar alþýðu á þátttöku í löggjafarvaldi ríkisins og einstökum löndum þess verði ekki skertir, heldur auknir til fulls jafnréttis. Því álítur fundurinn verkalýðinn eiga ótvíræðan rétt til að verjast árásum á lögleg réttindi sín og til að öðlast frekari réttindi, jafnvel með því að neita að vinna um lengri eða skemmri tíma, bregðist allar aðrar aðferðir. En þar sem pólitísk fjöldaverkföll geta því aðeins leitt til sigurs verkalýðsstéttarinnar, að þeim sé stranglega haldið á löglegum brautum og verkfallsmenn gefi hinu vopnaða valdi ekkert réttmætt tilefni til árása, þá álítur fundurinn að eini nauðsynlegi og virki undirbúningur þess að nota þetta baráttutæki sé frekari uppbygging stjórnmálasamtaka, stéttarfélaga og samvinnusamtaka. Því einungis þannig verði skapaðar þær forsendur meðal alþýðunnar almennt, sem tryggi árangursríkt fjöldaverkfall: markviss agi og það efnahagslega afl sem þarf." RL.
19) Sl. í 2. útg.: Vissulega kom og kemur áróður verkalýðsfélaga á undan áróðri sósíalistaflokksins á mörgum svæðum, og alls staðar ryður faglegt starf flokksstarfi braut líka. Hvað áhrifin varðar, er fullkomin samvinna milli flokks og verkalýðsfélaga. En sé litið á stéttabaráttuna í Þýskalandi í heild og dýpra samhengi, breytist myndin verulega.
20) Í 1. gerð var þessi hluti svona: Í nánu samhengi við þessar fræðilegu tilhneigingar er umbreyting á sambandi leiðtoga við fjöldann. Í stað félagslegrar forystu staðbundinna félaga, sem tvímælalaust var ófullkomin, kemur viðskiptaleg forysta starfsmanna verkalýðsfélaga. Frumkvæði og dómgreind verða þannig að sérgrein starfs þeirra, en fjöldanum ber fyrst og fremst að sýna hina óvirku dyggð agans. Þessar skuggahliðar embættismannakerfisins fela áreiðanlega í sér verulegar hættur fyrir flokkinn líka. Þær gætu mjög auðveldlega komið fram í síðustu nýjunginni, að ráða flokksritara á hverjum stað, gæti hinn sósíalíski fjöldi þess ekki vandlega, að ritararnir verði hreinir framkvæmdaaðiljar, en ekki verði farið að líta á þá sem útvalda til frumkvæðis og forystu flokkslífs á staðnum. En það liggur í hlutarins eðli, þ. e. í eðli stjórnmálabaráttu, að skriffinnsku eru settar þrengri skorður í sósíalistaflokki en í starfi verkalýðsfélaga. Þar felur einmitt tæknileg sérhæfing launabaráttunnar, t. d. samningar um flókna taxta og þ. u. l. það í sér, að því er afneitað, að allur þorri félagsmanna hafi "yfirsýn um atvinnulífið í heild", það eru rökin fyrir því að þeir séu ekki dómbærir.

Posted by Örn Ólafsson
at 7:39 AM

No comments: